Hver er þýðing kosningasvikanna í leikskólamálum borgarinnar?

Helgi Áss Grétarsson, 1. varaborgarfulltrúi:

Í pistli Björns Jóns Bragasonar á dv.is hinn 21. ágúst sl., sem bar heitið „Að vera eða ekki vera sósíalisti“, sagði m.a.:

„Aðalfréttaefni síðustu daga er ófremdarástand í leikskólamálum borgarinnar. Þar stíga borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram og krefjast þess að hið opinbera sinni dagvistun barna. Það að hið opinbera reki leikskóla (notendum nánast án endurgjalds) er sósíalísk hugmynd sem vinstri róttæklingar börðust fyrir á árum áður…[d]eilurnar í okkar samtíma milli flokkanna snúast aðeins um útfærsluatriði.“

Við mat á hinum tilvitnaða texta er ástæða til að hafa í huga að frá vormánuðum 2010 hefur Samfylkingin með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar ráðið mestu um hvernig Reykjavíkurborg hefur verið stjórnað. Það breyttist ekki eftir borgarstjórnarkosningarnar sl. vor.

Hver er kjarni málsins?

Stjórnunarhættir Samfylkingar í borgarstjórn, og meðreiðarsveina þess flokks, bera of oft keim af óheilindum. Í því felst m.a. að ósjaldan er einhverju lofað en skömmu síðar er loforðið svikið. Sem dæmi hefur Samfylkingin í þrennum borgarstjórnarkosningum í röð (2014-2022) lofað tilteknum lausnum í leikskólamálum en ekki getað efnt loforðin.

Í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna sl. vor laut síðasta svikna loforðið að því að öll 12 mánaða börn í Reykjavík myndu fá leikskólavist 1. september 2022. Það loforð var reist á hæpnum forsendum og það máttu allir vita sem kynntu sér málin ofan í hörgul.

Fyrir utan reglubundinn vandræðagang af þessu tagi virðist það áskorun fyrir stjórnendur Reykjavíkurborgar að koma ærlega fram gagnvart foreldrum leikskólabarna, svo sem þegar plássum er lofað í leikskólum sem eru ekki til eða þegar hrinda á skipulagsbreytingum í framkvæmd, sbr. t.d. þær nýlegu fyrirætlanir að hætta með forgang barna í Staðahverfi í Grafarvogi að plássum í eina leikskóla hverfisins.

Kjarni málsins í leikskólamálum Reykjavíkurborgar er því nokkuð einfaldur. Það hefur verið tilhneiging á meðal vinstri meirihluta hvers kjörtímabils að koma ekki heiðarlega fram og það eru þessi óheilindi sem fyrst og fremst fara fyrir brjóstið á fólki.

Hvert er hlutverk Sjálfstæðisflokksins í minnihluta í borgarstjórn?

Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að styðja sósíalisma í borgarmálunum en hann á hins vegar að standa vörð um heilindi í stjórnmálum, svo sem með því að varpa ljósi á síendurtekin svikin loforð í leikskólamálum í Reykjavík. Það er þó ekki nóg.

Þegar í stjórnarandstöðu þarf Sjálfstæðisflokkurinn einnig að sýna frumkvæði og leggja fram hugmyndir að lausnum. Það og gerðu fulltrúar flokksins fyrir skemmstu með því að leggja fram margháttaðar tillögur að úrbótum til að mæta hagsmunum þeirra foreldra sem reiknuðu með að geta fengið dagvistunarúrræði í Reykjavík fyrir ung börn sín núna í haust.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 6. september 2022.