Stríðið í Úkraínu breytti afstöðu Norðurlanda til varnarmála

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:

Óhætt er að segja að öll alþjóðasam­skipti hafi tekið stakka­skipt­um á síðustu sex mánuðum. Stríðið í Úkraínu hef­ur breytt af­stöðu þjóða og þjappað sam­an þeim þjóðum sem standa fyr­ir lýðræði og mann­rétt­indi. Litið er svo á að stríðið, sem Rúss­ar heyja nú gegn Úkraínu­mönn­um, sé stríð gegn sjálf­stæði, friði og mann­rétt­ind­um. Stríð gegn gild­um okk­ar og þeim gild­um sem okk­ar helstu sam­stafs­ríki virða.

Sam­starf Norður­land­anna hef­ur lit­ast af stríðinu. Norður­lönd­in öll og Norður­landaráð hafa stigið ákveðið til jarðar, for­dæmt inn­rás­ina og reynt að leggja sitt af mörk­um til að styðja við Úkraínu. Viðhorf Norður­landa til varn­ar- og ör­ygg­is­mála hef­ur líka breyst. Finn­ar og Sví­ar hafa sótt um inn­göngu í varn­ar­banda­lagið NATÓ sem við hin nor­rænu rík­in styðjum heils hug­ar. Umræða um að efla sam­starf Norður­landa í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um hef­ur auk­ist mikið og er það gott. Enda ljóst að Ísland hef­ur mikla hags­muni af öfl­ugu og góðu sam­starfi Norður­landa.

Norður­landaráð hef­ur gagn­rýnt inn­rás­ina harðlega og lokað á öll sam­skipti við Rúss­land. Hefð var fyr­ir því að rúss­nesk­ir þing­menn heim­sæktu eitt þjóðþing Norður­land­anna ár hvert. Þannig var komið að okk­ur Íslend­ing­um að taka á móti Rúss­um síðasta vet­ur en það var ekki erfið ákvörðun hjá þver­póli­tískri Íslands­deild Norður­landaráðs að af því gæti ekki orðið við þess­ar aðstæður.

Íslands­deild Norður­landaráðs fór þá að velta upp hug­mynd­um um það hvernig við gæt­um tengst úkraínska þing­inu og stjórn­ar­and­stöðunni í Rússlandi.

Norður­landaráð hef­ur um ára­bil átt gott sam­starf við Eystra­salts­rík­in og þing þeirra. Eystra­salts­rík­in hafa tekið mjög harða af­stöðu gegn rúss­nesk­um stjórn­völd­um og með Úkraínu, enda vita þau sem er að sjálf­stæði þeirra er ógnað með inn­rás­inni. Áður hafa Eystra­saltslönd­in, og þá sér­stak­lega Lit­há­en, stutt við stjórn­ar­and­stöðuna í Hvíta-Rússlandi eða eig­um við að segja rétt­kjör­inn for­seta Hvíta-Rúss­lands, Svetlönu Ts­íkanovskaju.

Þessi stuðning­ur þeirra ber merki um mikið hug­rekki og sjálf­stæðis­vilja. Þau segja skýrt að nú standi þau vakt­ina með ná­grönn­um sín­um, vakt­ina sem við stóðum með þeim á sín­um tíma þegar við urðum fyrst ríkja til að viður­kenna þeirra sjálf­stæði.

Áhuga­verðir gest­ir á haust­fund Norður­landaráðs

Fram und­an er haust­fund­ur Norður­landaráðs hér á Íslandi og við höf­um boðið til hans góðum gest­um. Ann­ars veg­ar stend­ur til að funda með full­trú­um Eystra­salts­ríkj­anna og hins veg­ar höf­um við boðið til fund­ar­ins úkraínsku þing­kon­unni Les­íu Vasy­len­kó. Lesía hef­ur verið virk á Twitter og lýst ótrú­leg­um styrk og bar­áttu úkraínsku þjóðar­inn­ar og sam­stöðu þing­manna, hvar í flokki sem þeir standa.

Jev­genía Kara-Murza frá Free Russia stofn­un­inni sem berst fyr­ir lýðræðis­um­bót­um í Rússlandi er einnig gest­ur okk­ar. Eig­inmaður Köru-Murzu er þekkt­ur fyrr­ver­andi rúss­nesk­ur stjórn­ar­and­stæðing­ur sem nú sit­ur í fang­elsi í Rússlandi fyr­ir að tala um stríðið í Úkraínu.

Þá kem­ur Franak Viacorka sem er aðalráðgjafi Svetlönu Ts­íkanovskaju sem leiðir stjórn­ar­and­stöðu Hvíta-Rúss­lands með aðset­ur í Lit­há­en. En mik­il­vægt er að gleyma ekki stöðunni sem þar er uppi, enda ljóst að Pútín reiðir sig á Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó sem oft hef­ur verið nefnd­ur síðasti ein­ræðis­herr­ann í Evr­ópu.

All­ir eiga þess­ir gest­ir það sam­eig­in­legt að tala fyr­ir lýðræði og mann­rétt­ind­um, grunn­gild­um Norður­landaráðs. Það fer því vel á því að fá þessa góðu gesti til fund­ar við okk­ur nú vegna þess að þess­ar radd­ir þurfa að heyr­ast.

Við, sem telj­um okk­ur búa við frið og ör­yggi, þurf­um að hlusta á þess­ar radd­ir og taka áfram af­ger­andi af­stöðu með lýðræði og mann­rétt­ind­um og tala fyr­ir friði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. september 2022.