Óttinn við „rangar“ skoðanir

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Frjáls sam­fé­lög tryggja með lög­um og stjórn­ar­skrá rétt hvers og eins borg­ara til að láta skoðanir sín­ar í ljós og rök­ræða við þá sem eru ósam­mála án þess að eiga á hættu að vera refsað. Þjóðfé­lög þar sem fólki er refsað fyr­ir „rang­ar“ skoðanir eru ófrjáls und­ir hæl ein­ræðis eða alræðis. En jafn­vel í frjáls­um sam­fé­lög­um get­ur mynd­ast jarðveg­ur óþols fyr­ir ólík­um skoðunum. Til verður menn­ing þar sem refs­ing fyr­ir „ranga“ skoðun er út­skúf­un og at­vinnum­iss­ir. Grafið er und­an mál­frelsi, rök­ræðum og and­ófi. Borg­ar­inn verður und­ir ósýni­legu valdi – oki – og hann veigr­ar sér við að taka til máls og segja hug sinn.

„Fé­lags­leg­ur þrýst­ing­ur á að hafa „rétta“ skoðun er út­breidd­ur í Banda­ríkj­un­um sam­tím­ans,“ seg­ir í ný­legri skýrslu Pop­ulace, hug­veitu á sviði fé­lags­rann­sókna. [Hægt er að lesa skýrsl­una hér: htt­ps://​pop­ulace.org. .] Bent er á að á und­an­förn­um árum hafi skoðanakann­an­ir ít­rekað sýnt að flest­ir Banda­ríkja­menn, í öll­um lýðfræðihóp­um, telja að þeir geti ekki deilt raun­veru­leg­um skoðunum sín­um op­in­ber­lega af ótta við að móðga aðra eða verða fyr­ir refs­ingu og út­skúf­un. Menn­ing rit­skoðunar hef­ur náð að festa ræt­ur í banda­rísku sam­fé­lagi – inn­an veggja fyr­ir­tækja, stjórn­sýslu og fjöl­miðla. Marg­ir há­skól­ar sem áður voru varn­ar­virki frjálsra skoðana­skipta eru orðnir víg­vell­ir þar sem „rang­ar“ skoðanir eru kæfðar af mik­illi hörku. Af ótta við slauf­un beita ein­stak­ling­ar sjálfsþögg­un og greina op­in­ber­lega rang­lega frá ein­lægri sann­fær­ingu.

Á skjön við sann­fær­ingu

Slauf­un­ar­menn­ing­in (cancel cult­ure) hef­ur með ein­um eða öðrum hætti haldið inn­reið sína í velflest ríki Vest­ur­landa enda af sama meiði sprott­in og póli­tísk­ur rétt­trúnaður. Fé­lags­lega „ásætt­an­leg­ar“ skoðanir þvinga frjálsa borg­ara, vís­inda­menn, stjórn­mála­menn og fjöl­miðlunga til að tjá skoðanir sem eru á skjön við raun­veru­lega sann­fær­ingu. Þessi fé­lags­legi þrýst­ing­ur neyðir ein­stak­linga til að breyta eig­in skoðun, þegja eða aðhyll­ast op­in­ber­lega viðhorf sem þeir hafa aldrei tekið und­ir. Skoðanakúg­un­in verður ekki ósvipuð og í alræðis­ríkj­um. Þró­un­in er áhyggju­efni vegna þess að hún ógn­ar ein­stak­lings­frelsi, fjöl­breytni sam­fé­lags­ins og lýðræðis­legri sjálf­stjórn borg­ar­anna.

Í skýrslu Pop­ulace eru fjöl­mörg dæmi um hvernig al­menn­ing­ur fel­ur eig­in viðhorf. Meiri­hluti fólks seg­ir op­in­ber­lega að grímu­notk­un sé ár­ang­urs­rík leið til að hefta út­breiðslu Covid-19 þegar þeir trúa því ekki í ein­rúmi. Op­in­ber­lega segja 48% Banda­ríkja­manna á aldr­in­um 30 til 44 ára að for­eldr­ar eigi að hafa meiri áhrif á nám­skrár grunn­skóla en í reynd eru 74% þess­ar­ar skoðunar. Op­in­ber­lega segja 60% í þess­um ald­urs­hópi það óviðeig­andi að ræða kyn­vit­und í skól­um við börn en í ör­yggi einka­lífs­ins eru aðeins 40% sem aðhyll­ast þessi viðhorf.

Op­in­ber­lega vilja um 44 pró­sent demó­krata að for­stjór­ar fyr­ir­tækja taki af­stöðu til um­deildra mála, en aðeins 11 pró­sent vilja það raun­veru­lega. Um 64 pró­sent re­públi­kana voru op­in­ber­lega hlynnt því að Hæstirétt­ur hnekkti dómi frá 1973 – Roe gegn Wade – um rétt kvenna til þung­un­ar­rofs. En innra með sér var aðeins 51 pró­sent sam­mála ný­leg­um dómi Hæsta­rétt­ar.

Þetta eru aðeins nokk­ur dæmi um hvernig al­menn­ing­ur læt­ur und­an fé­lags­leg­um þrýst­ingi. Af ótta við slauf­un rangtúlka ein­stak­ling­ar eig­in skoðanir og veigra sér við að taka af­stöðu til póli­tískt og sam­fé­lags­lega viðkvæmra álita­efna út frá sann­fær­ingu held­ur því sem þykir póli­tískt „rétt“.

Eng­in lög hægt að setja

J.D. Tuccille, pistla­höf­und­ur Rea­sons-tíma­rits­ins, seg­ir að það sé ekki auðvelt verk­efni að koma í veg fyr­ir sjálfs­rit­skoðun og slauf­un. Eng­in lög sé hægt að setja. Eina úrræðið sé að menn­ing frjálsra sam­fé­laga fái inn­spýt­ingu umb­urðarlynd­is og fram komi ein­stak­ling­ar sem hafa burði til að and­mæla.

Póli­tísk rétt­hugs­un og slauf­un­ar­menn­ing er í ein­fald­leika sín­um annað and­lit stjórn­lynd­is. Að baki ligg­ur sann­fær­ing um að þjóðfé­lög­um farn­ist best ef al­menn­ing­ur fylg­ir leiðbein­ing­um og ákvörðunum ósýni­legr­ar elítu, sem „hann­ar“ sam­fé­lagið, tek­ur að sér að stjórna umræðunni og ákveða hvaða skoðanir skuli telj­ast „rétt­ar“ og hverj­ar „rang­ar“. Hætt­an er sú að ein­stak­ling­um þyki þægi­legra að sætta sig við að þegja eða setja sig í fjötra sjálfs­rit­skoðunar. Ekki vegna þess að þeir ótt­ist að ör­ygg­is­lög­regla banki upp um miðja nótt líkt og í alræðis­ríkj­um, held­ur vegna hræðslu við viðbrögð ná­granna, vinnu­fé­laga og sam­ferðafólks. Áhyggj­ur af efna­hags­legri vel­ferð og sam­fé­lags­legri út­skúf­un koma í veg fyr­ir að ein­stak­ling­ar láti innri sann­fær­ingu í ljós.

Af­leiðing­in er að dýna­mík og fjöl­breytni frjálsra sam­fé­laga hverf­ur hægt og bít­andi. Frjáls skoðana­skipti og rök­ræður eru drif­kraft­ur manns­hug­ans og for­senda fyr­ir framþróun í vís­ind­um og tækni. Póli­tísk rétt­hugs­un og slauf­un­ar­menn­ing vinna þannig gegn bætt­um lífs­kjör­um allra.

Greinin birtist í Morgunblaðins 31. ágúst 2022.