Vel sótt málþing SUS um Úkraínustríð

Ungir sjálfstæðismenn héldu málþing í gær í ljósi þess að hálft ár var liðið frá innrás Rússlandshers í Úkraínu þann 24. febrúar s.l. Framsögumenn á málþinginu voru Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra, Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og Bryndís Bjarnadóttir stjórnmálafræðingur og sérfræðingur hjá CERT-IS. Málþingið var afar vel sótt og erindi framsögumanna einstaklega áhugaverð.

Bryndís Bjarnadóttir fjallaði um netárásir og þær fjölbreyttu og lúmsku aðferðir sem Rússar hafa beitt í gegnum tíðina þegar kemur að netárásum, einstakar netárásir í tengslum við stríðið í Úkraínu og mikilvægi varna ríkja þegar kemur að netöryggi.

Björn Bjarnason fjallaði um áhrif og afleiðingar stríðsins í Evrópu, sögulegt samhengi átaka Rússlands og Úkraínu og hugsanlega framtíðarsýn í skugga stríðsins.

Þórdís Kolbrún fjallaði í erindi sínu um mikilvægi samstöðu Evrópuríkja með Úkraínumönnum og hvað Ísland geti lagt af mörkum. Hún talaði um hve ríkan samhljóm við Íslendingar eigum með Úkraínu sem þjóð sem á allt sitt undir að alþjóðalög og landamæri séu virt og sjálfstæði okkar sé varið. Því getum við sýnt Úkraínumönnum ríka samstöðu þrátt fyrir að vera fámenn þjóð og það skipti miklu máli.