Til atlögu við nýsköpun, betri þjónustu og hagkvæmni

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Óli Björn KárasonEftir Óla Björn Kárason: „Þetta er kerfið sjálft sem er líkt og þurs sem er tilbúinn til að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir nýsköpun, hagkvæmari og betri þjónustu“

Engu er líkara en að „kerfið“ sé reiðubúið til að gera allt til að verjast ef það telur sér ógnað. Fátt óttast „kerfið“ meira en nýja hugsun, nýjar aðferðir og frumkvöðla sem bjóða hagkvæmari lausnir sem byggja undir betri þjónustu.

Embætti landlæknis hefur ákveðið að stefna Köru Connect ehf. og fleiri aðilum fyrir dóm vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála sem lagði níu milljóna stjórnvaldssekt á embættið þar sem ekki var farið að lögum um útboð við þróun á hugbúnaðarkerfunum Heilsuveru og Heklu, auk þróunar á fjarfundarbúnaði til notkunar á heilbrigðissviði. Þá var landlæknisembættinu gert að greiða Köru Connect tvær milljónir í málskostnað. Það tók embætti landlæknis hálft ár að taka ákvörðun um að stefna nýsköpunarfyrirtækinu í tilraun til að hnekkja ákvörðun kærunefndarinnar. Varla er sú ákvörðun tekin án stuðnings ráðuneytis heilbrigðismála.

Skilaboðin, sem heilbrigðisyfirvöld senda frumkvöðlum sem bjóða nýjar lausnir, eru ömurleg og ganga þvert á stefnu ríkisstjórnar sem vill ryðja leið nýsköpunar. Kara Connect er eitt margra nýsköpunarfyrirtækja sem sýnt hafa fram á þau ótrúlegu tækifæri sem felast í stafrænni heilbrigðisþjónustu. Sidekick Health er annað dæmi. Bæði þessi fyrirtæki og fleiri hafa mætt fálæti og jafnvel fjandskap „kerfisins“.

Gegn markmiðum laga

Í einfaldleika sínum snýst málið um að opinberar stofnanir fari að lögum um opinber innkaup. Þeim er skylt að bjóða út innkaup á vörum og þjónustu yfir 15,5 milljónum og ef upphæðin er yfir 18,1 milljón þarf að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu. Innkaup landlæknis, sem kærunefnd útboðsmála telur að hafi ekki verið samkvæmt lögum, voru „langt yfir viðmiðunarmörkum“.

Á heimasíðu Ríkiskaupa er bent á nauðsyn þess að opinberir aðilar hugsi til „lengri tíma við opinber innkaup með aukinni áherslu á nýsköpun“ enda gegni nýsköpun í opinberri stjórnsýslu „lykilhlutverki svo ná megi markmiðum ríkisstjórnarinnar um betri og skilvirkari þjónustu hins opinbera“. Með því aukist gæði þjónustu og skilvirkni hjá hinu opinbera. Jafnframt er minnt á að eitt meginmarkmið laga um opinber innkaup sé meðal annars að efla nýsköpun:

„Opinber innkaup geta verið mikilvægt tól til að efla nýsköpun. Eins geta opinber innkaup og nýsköpun stuðlað að því að þau vandamál sem stjórnvöld standa frammi fyrir í dag, svo sem hærri aldur íbúa, framkvæmdir, umhverfismál, upplýsingatækni o.s.frv. fái hagkvæma lausn.“

Ekki verður annað sagt en að kæra embættis landlæknis gangi þvert á áðurnefnt markmið laga um opinber innkaup.

Súrefni til nýsköpunar

Um miðjan maí síðastliðinn tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að styrkja ætti sérstaklega innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Fyrsta skrefið er að úthluta 60 milljónum króna sem einungis væru ætlaðar til innleiðingar á nýjum lausnum sem auka gæði og hagkvæmni heilbrigðisþjónustu. Í máli ráðherra koma fram að mörg nýsköpunarfyrirtæki hefðu mætt andstreymi við að innleiða nýjar lausnir í heilbrigðisþjónustu. „Eftir að hafa fundað með fjölda frumkvöðla blasir við að veggir hins opinbera eru of háir og lokaðir fyrir hugmyndum nýsköpunarfyrirtækja. Þetta skýtur skökku við þegar við sem samfélag fjárfestum í nýsköpun fyrir um 30 milljarða en nýtum ekki þær lausnir sem verða til fyrir okkar eigin kerfi.“

Áslaug Arna er hins vegar bjartsýn enda „sannfærð um að áhugi fólks innan heilbrigðiskerfisins sé samt sem áður til staðar“. Ráðherra vonast „til þess að geta opnað dyrnar og hleypt inn súrefni til nýsköpunar. Þetta er bara fyrsta skrefið því ef vel gengur munum við fara í mun fleiri sambærileg verkefni.“

Þurs berst gegn nýjungum

Styrkur samfélaga til lengri tíma felst meðal annars í því að eiga marga einstaklinga sem eru reiðubúnir til að byggja upp fyrirtæki, sem bjóða upp á nýjar lausnir, betri og hagkvæmari þjónustu og vöru. Frumkvöðlar brjóta niður múra úreltrar hugsunar og skipulagningar, eins og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er að gera með fjarþjónustufyrirtækinu Kara Connect. Hún, líkt og margir aðrir frumkvöðlar í nýsköpun, hefur rekist á hindranir sem kerfið hefur reist til að verjast nýrri hugsun. Ríkið ætli sér að „gera allt sjálft“ í stað þess að hugsa: „Það eru þúsund lausnir til, prófum nokkrar, notum það sem virkar og hendum hinu út. Það er ódýrara og skilvirkara.“

Ég hef áður haldið því fram að í samvinnu við nýsköpunarfyrirtæki geti ríki og sveitarfélög slegið margar flugur í einu höggi; aukið hagkvæmni, gert þjónustuna betri og markvissari og ýtt undir sköpunarkraftinn sem liggur að baki nýjum hugmyndum frumkvöðla. Samþætting og samvinna hins opinbera og einkaaðila hefur og getur skilað góðum árangri, ekki síst í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu.

Eina niðurstaðan sem ég get komist að er að það sé eitthvað mikið að innan heilbrigðiskerfisins. Þar er ekki við starfsfólk að sakast, sem hefur verið reiðubúið til að nýta sér lausnir sem nýsköpunarfyrirtæki bjóða upp á. Þetta er kerfið sjálft sem er líkt og þurs sem er tilbúinn til að beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir nýsköpun og er reiðubúinn til að hindra af bestu getu að farvegur fyrir nýja hugsun, nýja nálgun, nýja tækni og hagkvæmari og betri þjónustu myndist. Fjárhagslegi kostnaðurinn lendir á skattgreiðendum en falinn kostnaður – minni lífsgæði – er borinn af þeim sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.

Morgunblaðið, 24. ágúst 2022