Haust­boðinn ljúfi

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Þrír hlutir sem ekki bregðast í Reykjavík

Einhver sagði að það væru bara tveir hlutir sem ekki klikka í lífinu, dauðinn og skattarnir. Við sem búum í Reykjavík myndum mögulega bæta biðlistum reykvískra barna við þennan lista.

Grunnskólarnir taka aftur til starfa næstkomandi mánudag og dýrmætum samverustundum fjölskyldunnar fækkar í bili. Nú nálgast haustið og þá eru foreldrar ungra barna og börnin sjálf í ærið misjafnri stöðu eftir sveitarfélögum. Við fylgjumst með örvæntingafullri baráttu foreldra barna sem bíða eftir leikskólaplássi í Reykjavík árum saman. Og einmitt í þessari viku fengu eflaust margir reykvískir foreldrar samhljóða tölvupóst um frístundavist næsta vetur: „Barn á biðlista um sinn“. Í póstinum er tekið fram að ekki hafi enn tekist að fullmanna frístundaheimil barnsins míns en að allt kapp sé lagt á að leysa vandann fyrir starfið sem hefjist eftir minna en viku. Meðal annars sé beðið eftir stundarskrá starfsfólks sem sé í námi.

Það skrýtna er að þessi mönnunarvandi virðist mun flóknari í Reykjavík en öðrum sveitarfélögum þegar kemur að þjónustu við börn. Leikskólavandinn er þannig langmestur þar og lausleg könnun leiðir í ljós að takmörkun á frístundastarfi þekkist ekki í nágrannasveitarfélögum okkar.

Á síðasta skólaári fékk sonur minn pláss í frístund þann 12. október. Þá höfðum við púslað saman dagskrá hans, vinnutíma okkar og tómstundum hans í tæpa tvo mánuði, en skóladegi hans lýkur um kl. 14. Reykvísk börn geta því ekki treyst á að komast í rútínu á haustin eftir rútínuleysi sumarfrísins. „Betra líf fyrir fjölskyldur“ Samfylkingarinnar og „B fyrir börn“ Framsóknar virðist undanskilja þónokkuð mörg börn í Reykjavík.

Og við barnafólkið erum búin að fá okkur fullsödd af metnaðarleysi og lélegri forgangsröðun í Reykjavík. Reykjavíkurborg þarf að tryggja börnum og fjölskyldufólki betri grunnþjónustu strax. Það er alltof langt í næstu kosningar.

Greinin birtist á visir.is 17. ágúst 2022.