Hverjum er verið að þjóna?

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Sam­tök at­vinnu­rek­enda og launa­fólks hafa und­ir­geng­ist þá skyldu að ná samn­ing­um um kaup og kjör sem byggj­ast á efna­hags­leg­um veru­leika. Með því eru bætt lífs­kjör best tryggð, ekki síst þeirra sem lak­ast standa. Það er því eng­um til hags­bóta – hvorki at­vinnu­rek­end­um né launa­fólki – að verka­lýðshreyf­ing­in logi stafna á milli – sé sundruð vegna ill­deilna og per­sónu­legra hjaðninga­víga.

Í aðdrag­anda kjara­samn­inga brýn­ir for­ysta stétt­ar­fé­lag­anna kut­ana. Slíkt er eðli­legt og oft kann að vera nauðsyn­legt að ganga sæmi­lega her­skár til leiks. Auðvitað hafa áður verið átök inn­an stétt­ar­fé­laga, líkt og í mörg­um öðrum fé­lög­um og sam­tök­um. En það eru ára­tug­ir síðan hnífarn­ir voru frem­ur notaðir í inn­byrðis per­sónu­leg­um átök­um en gagn­vart at­vinnu­rek­end­um og eft­ir at­vik­um rík­is­vald­inu. Þau átök voru lituð af harka­leg­um þjóðfé­lags­leg­um átök­um þegar tek­ist var á um þjóðskipu­lagið.

Áhrifa­litl­ir fé­lags­menn

Al­menn­ir fé­lags­menn verka­lýðsfé­laga sitja áhrifa­litl­ir hjá þegar for­menn eru í ill­deil­um hver við ann­an. Að ein­hverju leyti verður launa­fólk að horfa í eig­in barm. Her­ská­ir verka­lýðsleiðtog­ar hafa ekki síst kom­ist til valda í skjóli þess að yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti fé­lags­manna nýt­ir sér ekki rétt til að kjósa for­ystu. Stór hluti launa­fólks er óvirk­ur í starfi eig­in stétt­ar­fé­lags og fyr­ir því kunna að vera marg­ar ástæður. Ein er ör­ugg­lega sú að í raun rík­ir ekki fé­laga­frelsi á vinnu­markaði, þrátt fyr­ir skýr ákvæði í 74. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar og ýmsa alþjóðasátt­mála sem Ísland hef­ur und­ir­geng­ist.

Fé­laga­frelsið nýt­ur rík­ari vernd­ar stjórn­ar­skrár á Íslandi en í ná­granna­lönd­um. En al­menn lög­gjöf hef­ur sett meiri skorður við rétt ein­stak­linga hér á landi en í öðrum lönd­um, til þess að velja sér fé­lag eða standa utan fé­laga. Vinnu­markaðslög­gjöf­in þreng­ir svo að fé­laga­frelsi að illa er hægt að halda því fram að launa­fólk hafi raun­veru­legt frelsi til að ákveða fé­lagsaðild sína sjálft. Þrátt fyr­ir að launa­manni sé heim­ilt að standa utan stétt­ar­fé­lags hef­ur lagaum­gjörðin verið með þeim hætti að það val­frelsi er í raun ein­göngu að nafni til en ekki í raun.

Þegar ein­hver er neydd­ur eða tel­ur sig neydd­an til þess að eiga aðild að fé­lagi eru meiri lík­ur en minni á því að viðkom­andi hafi lít­inn áhuga á starfi fé­lags­ins. En með sinnu­leysi sínu greiðir hann leið rót­tæk­linga í valda­stöður og veit­ir þeim aðgang að mikl­um fjár­mun­um sem fé­lags­mönn­um er gert að greiða. Af­leiðing­in er djúp­stæður klofn­ing­ur og ill­deil­ur í for­ystu­sveit verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Launa­fólk greiðir kostnaðinn enda hags­mun­ir þess ekki varðir á meðan eld­ar loga. Og þá má spyrja hvaða hags­mun­um sé verið að þjóna!

Erfiðir samn­ing­ar

Óháð sundr­ungu inn­an Alþýðusam­bands Íslands er ljóst að kom­andi kjara­samn­ing­ar verða flókn­ir og erfiðir. Og eins og svo oft áður verður þess kraf­ist að rík­is­valdið grípi til aðgerða til að samn­ing­ar ná­ist. Kröf­urn­ar verða mikl­ar. Auka skal út­gjöld á flest­um sviðum, tryggja bygg­ingu þúsunda fé­lags­legra leigu­íbúða, og svo fram­veg­is. List­inn verður lang­ur.

Það mun því reyna á rík­is­stjórn­ina og stjórn­ar­flokk­ana á kom­andi vetri. Svig­rúm til auk­inna út­gjalda er lítið sem ekk­ert – ekki frek­ar en launa­hækk­ana. En það breyt­ir því ekki að með ýms­um hætti get­ur rík­is­valdið – rétt eins og sveit­ar­fé­lög­in – búið til jarðveg fyr­ir kjara­samn­inga sem byggj­ast á efna­hags­leg­um veru­leika.

All­ir vita (þótt ein­hverj­ir eigi erfitt með að viður­kenna það) að krónu­tölu­hækk­un skipt­ir launa­mann­inn engu ef hækk­un­in er étin upp í verðbólgu og hækk­un op­in­berra skatta og gjalda. Lík­legt er að hann standi verr að vígi þar sem kaup­mátt­ur minnk­ar og ráðstöf­un­ar­tekj­ur lækka enn meira.

Ég hef ít­rekað haldið því fram að lífs­kjör launa­fólks ráðist ekki aðeins af því hversu marg­ar krón­ur eru í launaum­slag­inu eft­ir að skatt­ar og gjöld hafa verið greidd. Lífs­kjör­in ráðast ekki síður af því hvernig til tekst við alla stjórn­sýslu hins op­in­bera – hversu hag­kvæm og góð þjón­ust­an er. Á þetta hafa hundruð for­eldra í Reykja­vík verið minnt með harka­leg­um hætti.

Í kalda­koli

Í Reykja­vík eru leik­skóla­mál­in í kalda­koli eft­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í þeim mála­flokki frá ár­inu 2010. Ég ótt­ast að Krist­ín Tóm­as­dótt­ir, fjög­urra barna móðir í Reykja­vík, hafi rétt fyr­ir sér þegar hún seg­ir: „Kon­ur eru bara á leiðinni aft­ur inn á heim­il­in í land­inu, að hugsa um börn­in okk­ar, af því að við erum ekki með dag­vist­un.“ Krist­ín ásamt fleiri for­eldr­um sem eru upp við vegg vegna svik­inna lof­orða um dag­vist­un hef­ur skipu­lagt mót­mæli í Ráðhúsi Reykja­vík­ur. En fátt er um svör og stóru lof­orðin sem gef­in hafa verið af full­trú­um meiri­hlut­ans hafa reynst inni­stæðulaus rétt eina ferðina.

Tryggt og ör­uggt aðgengi barna að dag­vist­un er ekki einka­mál þeirra og for­eldr­anna, held­ur grunn­atriði í viðleiti okk­ar til að tryggja jafn­rétti á vinnu­markaði. Staðan ógn­ar at­vinnuþátt­töku kvenna og get­ur dregið veru­lega úr henni ef ekki ræt­ist úr.

Í kom­andi kjara­samn­ing­um hljóta augu for­ystu sam­taka launa­fólks að bein­ast að stöðunni í leik­skóla­mál­um í öll­um sveit­ar­fé­lög­um. Ég er hugsi yfir því hve lítið heyr­ist í for­ystu stétt­ar­fé­laga vegna þess ófremd­ar­ástands sem hef­ur skap­ast og þó hafa marg­ir for­ystu­menn stigið fram með stór­yrðum af minna til­efni. Í stað þess að leggj­ast á ár­arn­ar með for­eldr­um í vanda er áhersl­an lögð á inn­byrðis hjaðninga­víg, sam­hliða „keppni í því að vera sem kjaft­for­ast­ur til að vera mis­skil­inn sem rót­tæk­ast­ur“.

Slakað á klónni

Ég hef aldrei skilið af hverju for­ystu­fólk verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar veit­ir sveit­ar­fé­lög­un­um ekki meira aðhald en raun ber vitni, er varðar þjón­ustu, álög­ur og gjöld. Fyr­ir fólk með meðallaun og lægri skipt­ir út­svars­pró­sent­an meira máli en skatt­hlut­fall tekju­skatts. Í heild greiðir ís­lenskt launa­fólk meira í út­svar en tekju­skatt.

En al­veg sama hversu erfitt og flókið það verður að ná kjara­samn­ing­um mun það tak­ast með ein­um eða öðrum hætti – að lok­um. Kröf­urn­ar sem gerðar verða á hið op­in­bera og þá sér­stak­lega rík­is­sjóð verða marg­vís­leg­ar. Skyn­sam­leg­asta kraf­an sem sam­tök launa­fólks geta lagt fram gagn­vart rík­is­vald­inu er að mörkuð verði lang­tíma­stefna í rík­is­fjár­mál­um, sem taki mið af því að auk­inn hluti hag­vaxt­ar verði eft­ir í vös­um launa­fólks. Auðvitað fer kald­ur hroll­ur um sann­færða sósí­al­ista þegar rætt er um það að hlut­falls­leg stærð rík­is­sam­neysl­unn­ar af þjóðar­kök­unni minnki þegar kak­an stækk­ar. Engu skipt­ir þótt kökusneið rík­is­ins verði þrátt fyr­ir það stærri. Þetta heit­ir að slaka aðeins á klónni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2022.