Ein­földunar­byltingin

Guðlaugur Þór Þórðar­son, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Það er mikilvægt að styðja við og styrkja rekstrargrundvöll lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þau eru drifkrafturinn í efnahagslífinu. Það er sömuleiðis markmið að einfalda líf fólks í landinu. Það var því ánægjulegt að skrifa undir reglugerð nú í sumar, sem tekur gildi í nóvember, sem bæði einfaldar líf lítilla og meðalstórra rekstraraðila og styrkir rekstrargrundvöll þeirra.

Fimm dagar í stað átta vikna

Reglugerðin snýr að skráningarskyldum atvinnurekstri og gildir hún um 47 mismunandi atvinnugreinar. Bifreiða- og vélaverkstæði, hársnyrti-, nudd- og sólbaðsstofur og bílaþvottastöðvar eru allt dæmi um skráningarskyldan atvinnurekstur sem reglugerðin nær til.

Í stað þess að þessir aðilar þurfi að sækja um starfsleyfi hjá mismunandi heilbrigðisnefndum og þurfi svo að bíða í fleiri vikur eftir niðurstöðu, sem hefur almennt tekið 4-8 vikur, þá geta rekstraraðilar nú skráð reksturinn í miðlæga gátt.

Ábyrgðin er sett í hendur rekstraraðila og í miðlægri gátt verða þeir leiddir í gegnum ferlið skref fyrir skref og geta hafið rekstur fimm dögum síðar, standist þeir sett skilyrði.

Einn viðkomustaður

Þetta er stórt skref í átt að rafrænni stjórnsýslu og einföldun á regluverki og verður miðlæga gáttin því svokallað „One stop shop“. Þetta auðveldar einnig heilbrigðisnefndunum að sinna sínu eftirlitshlutverki í stað þess að tími og orka fari í leyfisveitingar.

47 atvinnugreinar geta nú skráð starfsemi sína á einum stað og stjórnvöld veita í leiðinni betri þjónustu og bæta regluverk til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulífið.

Stjórnmálamenn eiga að einfalda líf fólks og fyrirtækja í landinu og hið opinbera á ekki að leggja stein í götu þeirra sem ætla sér að hefja eigin rekstur.

Fréttablaðið, 10. ágúst 2022.