Frelsi til að elska

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Ástin er fögur. Um ástina eru samin skemmtilegustu lögin, gerðar notalegustu bíómyndirnar og ort fegurstu ljóðin. Af öllum þeim tilfinningum sem almættið, náttúran eða alheimsvitundin hefur gefið manninum klefit að njóta þá er ástin í öllum sínum myndum líklega sú æðsta og sú persónulegasta. En hún er líka margslungin og máttug þannig að í gegnum söguna hafa samfélög lagt sitthvað á sig til þess að hafa á henni taumhald. Þegar illskan nær undirtökum þá er ástin notuð til þess að bæla, útskúfa og niðurlægja. Það er hins vegar til marks um gott og frjálst samfélag að fólk fái að hafa sín ástarmál í friði.

En að frelsinu til að njóta mannréttinda á borð við tjáningarfrelsi og frelsinu til að elska eftir eigin höfði er víða sótt, ekki síst í nafni óprútinna stjórnmálamanna eins og Pútíns, og annarra sem þola ekki fjölbreytni og frelsi.  Það er nöturleg staðreynd að í um þriðjungi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna er samlíf fólks af sama kyni bannað með lögum. Í ellefu ríkjum getur dauðarefsing legið við því ef upp kemst um ástir tveggja manneskja af sama kyni og í sex löndum hefur ríkisvaldið drepið borgara sína fyrir sakir slíkrar ástar.  Að fólki sé refsað með lögum, ofbeldi og jafnvel dauða fyrir að njóta þess fegursta sem finnst í náttúru mannanna, að elska og vera elskaður, er vitaskuld hin argasta ónáttúra og úrkynjun.

Á Íslandi er staðan blessunarlega betri en nánast alls staðar annars staðar á byggðu bóli. Þessi helgi hefur um langt árabil verið ein sú litskrúðugasta og skemmtilegasta á árinu hér á Íslandi. Í Reykjavík koma  yfir hundrað þúsund saman á Reykjavík Pride, hinsegin dögum, til þess að sýna stuðning og samstöðu. Fólk og fyrirtæki draga við hún litfagra fána sem tákna samhug með þeim sem hafa í gegnum árin og aldirnar þurft að fara í felur með sínar innstu og dýpstu tilfinningar af ótta við útskúfun samfélagsins.  Fánarnir fagna fegurð ástarinnar og frelsinu til þess elska. Þessi áberandi tákn skipta máli og eru í samræmi við boðskap vinar míns, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í ávarpi sínu á opnunarhátíð Hinsegin daga. Þar sagði hann meðal annars um viðbrögð við bakslagi í stöðu hinsegin fólks: „Ég á því miður ekki einfalt svar við þessum spurningum. En það sem ég veit er að samstaða, sýnileiki og fyrirmyndir eru grundvallaratriði í réttinda og viðurkenningarbaráttu okkar hinsegin fólks.“

Gleðigangan er því langt frá því að vera innantóm skemmtun, hún er líka háalvarleg áminning um það óréttlæti sem víða viðgengst og þá döpru staðreynd að víða um heim, jafnvel í löndum þar sem réttindi hinsegin fólks hafa þótt trygg, er sigurinn ekki unnin og sums staðar er bakslag í bæði lagalegri og samfélagslegri stöðu þess.

Þótt mikill árangur hafi vissulega náðst á síðustu árum og áratugum þá er langt frá því að algjört samþykki og skilningur ríki í samfélaginu á frelsi fólks til að elska. Enn eru fréttir af illþyrmilegu einelti sem börn utan hins hefðbundnasta ramma verða fyrir í skólum og menn sem ganga saman stoltir og sælir í ást og friði geta átt von á því að í þá sé hreytt niðrandi orðum á borð við „faggi“ og komið sé fram við þá með ógnandi tilburðum og fasi, eða þeir orðið fyrir ofbeldi. Íslenskt samfélag þarf að vera vel vakandi fyrir hvers kyns afturför í þessum efnum og taka öllum vísbendingum um slíkt alvarlega.

Þótt ætíð sé vandasamt að nota orðið „stolt“ þá er það mjög viðeigandi í því samhengi sem það er notað þessa helgi. Stolt er andheiti við orðið „skömm“ sem var einmitt sú þungbæra tilfinning sem ætlast var til að öll þau sem falla utan hefðbundins ramma um kynhneigð, kynhegðun og kynvitund, hefðu á eigin tilfinningum. 

Ég er í Sjálfstæðisfloknum af því hann er flokkur einstaklingsfrelsisins og mín pólitíska afstaða umber ekki að vegið sé að frelsi fólks til þess að elska. Sjálf er ég líka  stolt af því að baráttan fyrir réttindum fólks til að elska hefur verið sérstakt áherslumál í utanríkisþjónustu Íslands.  Ísland hefur beitt sér af einurð í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðlegum vettvangi og verið í forystu ríkja á margvíslegum vettvangi í þeim efnum.  Við á Íslandi getum verið stolt af því að hafa verið í fararbroddi þeirra þróunar sem átt hefur sér stað víða um heim á undanförnum árum og áratugum.  Rödd Íslands hefur skipt máli í þessu samhengi.

Ég óska okkur öllum til hamingju með hátíðarhöld helgarinnar.

Morgunblaðið, 7. ágúst 2022.