Wembley breyttra viðhorfa

Hildur Sverrisdóttir, alþingismaður:

Á sunnu­dags­kvöld sat ég á hót­el­her­bergi í Portúgal og fylgd­ist á snjó­ug­um skjá með Englandi vinna sig­ur á Evr­ópu­meist­ara­móti kvenna í fót­bolta.

Þótt ég hafi reynd­ar haldið með Englandi var það ekki sá sig­ur sem hafði mest áhrif á mig held­ur þessi stór­kost­lega sig­ur­stund kvenna­bolt­ans í heild – og þar með kvenna.

Það er nefni­lega ástæðulaust að gera lítið úr því hvað þessi stund á troðfull­um Wembley olli mikl­um svipti­vind­um í fyr­ir­framákveðnum skoðunum margra, skoðunum sem (stund­um af ein­beitt­um brota­vilja en yf­ir­leitt ómeðvitað) lit­ast af hug­mynd­um um að fram­lag kvenna í fyr­ir­fram­gefn­um karla­heim­um sé á ein­hvern hátt minna virði.

Það var ekki síst tákn­rænt að það voru ensku ljónynj­urn­ar sem hrepptu hnossið, að bik­ar­inn „kom heim“ í fyrsta sinn síðan 1966, í fangi ein­hverra kell­inga eins og mörg fót­bolta­bull­an klár­lega hugsaði það en komst á sama tíma ekki hjá því að fyll­ast stolti. Á því augna­bliki varð fram­lag kvenna ósjálfrátt gjald­geng­ara í huga þeirra.

Augna­blikið þar sem Chloe Kelly fagnaði marki sínu með því að rífa sig úr boln­um eins og við höf­um séð svo oft í karla­bolt­an­um var líka merk­ing­arþrungn­ara en leit kannski út í fyrstu. Það er ekki efi í mín­um hug að það að kona svipti sig klæðum frammi fyr­ir millj­ón­um áhorf­enda án þess að því fylgdi vott­ur af kven- eða kyn­ferðis­leg­um til­gangi voru dýr­mæt skila­boð.

Það sem þessi stund sýndi okk­ur er að það er þá eft­ir allt sam­an ekki meitlað í stein að kvenna­bolt­inn fái færri áhorf­end­ur og minni at­hygli því þannig sé það bara og þannig verði það alltaf.

Og þetta er hvorki fyrsta né síðasta slíka upp­götv­un þess að það er varla til neitt sem kalla má óhnik­an­lega staðreynd í sam­fé­lagi manna, held­ur síkvik­ar þró­an­ir hug­mynda, viðmiða og hefða. Það á við um öll mengi sam­fé­lags­ins.

Á morg­un fögn­um við Gleðigöng­unni. Og rétt eins og kvenna­bolt­inn sýndi okk­ur hvernig viðmið okk­ar geta breyst smám sam­an eða á svip­stundu þá á það líka við um mál­efni hinseg­in fólks.

Við eig­um þvert á úr­töluradd­ir að fagna fjöl­breyti­leika ein­stak­lings­ins og rétti hans til að lifa eft­ir eig­in sann­fær­ingu. Við eig­um ekki að letja held­ur hvetja fólk til að blómstra á eig­in for­send­um og gæta þess að valda ekki skaða þeim mann­eskj­um sem upp­lifa sig á ann­an hátt en okk­ar fyr­ir­fram­gefnu hug­mynd­ir segja til um.

Í rétt­inda­bar­áttu hinseg­in fólks hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn góða sögu að segja þó að and­stæðing­ar hans reyni oft að viðhafa aðra sögu­skoðun þar á. En við slík­ar góðar sög­ur má aldrei setja punkt, held­ur sí­fellt vera opin fyr­ir að bæta við nýj­um kafla, nýj­um vend­ing­um, nýj­um sögu­hetj­um.

Eft­ir fræki­leg­an sig­ur kvenna­bolt­ans er við hæfi að við höld­um hinseg­in daga hátíðlega – þar sem við höld­um áfram að fagna framþróun, frelsi og fjöl­breyti­leika.

Höf­und­ur er þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. ágúst 2022.