Eitthvað erum við að gera rétt

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Kannski er það vatnið eða loftið. Kannski er það karakt­er sem stór­brot­in nátt­úr­an, blíð, gjöf­ul, hörku­leg og óvæg­in, sem hef­ur hert fá­menna þjóð. Ef til vill erum við að upp­skera það sem við höf­um sáð – fá til baka ávöxt­un góðrar vinnu. Ég veit ekki svarið en grun­ar að það sé blanda af þessu öllu.

Það er með hrein­um ólík­ind­um að 380 þúsund manna þjóð hafi á að skipa jafn­mörgu af­reks­fólki í fjölbreytt­um grein­um íþrótta og raun ber vitni. Íbúa­fjöld­inn jafn­gild­ir um 5% af fjölda þeirra sem búa í London og er svipaður íbúa­fjölda Car­diff höfuðborg­ar Wales. Og þegar við bæt­ist ótrú­leg­ur fjöldi lista­manna á flest­um sviðum, er ekki hægt að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en að við Íslend­ing­ar sem þjóð séum að gera ým­is­legt rétt.

Hæfi­leik­ar og bar­áttugleði

Stelp­urn­ar okk­ar í landsliðinu í fót­bolta stóðu jafn­fæt­is þeim bestu á Evr­ópu­mót­inu í Englandi. Og þótt við séum flest svekkt yfir því að þær hafi ekki kom­ist í undanúr­slit­in þá er ár­ang­ur­inn ein­stak­ur. Stelp­urn­ar fóru tap­laus­ar í gegn­um mótið og hefðu hæg­lega getað unnið alla þrjá leik­ina – þar réði óheppni og/​eða skort­ur á heppni niður­stöðunni. Í fót­bolta ráða heilla­dís­irn­ar oft úr­slit­um.

En það er bjart yfir landsliðinu þar sem hæfi­leik­ar og bar­áttugleði ráða ríkj­um. Fjöldi kvenna hef­ur lagt grunn­inn að þess­um ár­angri á síðustu árum og ára­tug­um. Ein þeirra, Hall­bera Gísla­dótt­ir, hef­ur ákveðið að leggja skóna á hill­una. Henni og öll­um þeim sem á und­an komu, eru þakkaðar marg­ar frá­bær­ar gleðistund­ir. Við eig­um marg­ar fleiri góðar stund­ir fram und­an með glæsi­legu landsliði.

Ung­ar stjörn­ur

Dreng­irn­ir okk­ar í landsliði 20 ára og yngri í körfu­bolta stóðu sig sér­lega vel í B-deild Evr­ópu­móts­ins sem lauk fyr­ir nokkr­um dög­um. Þeir komust alla leið í úr­slita­leik móts­ins og hrepptu þar silf­ur eft­ir tap gegn Serbíu. Tveir Íslend­ing­ar voru vald­ir í fimm manna stjörnulið keppn­inn­ar; Þor­vald­ur Orri Árna­son og Orri Gunn­ars­son. Á kom­andi ári leik­ur U20 landsliðið í A-deild.

Perla Sól Sig­ur­brands­dótt­ir gerði sér lítið fyr­ir og tryggði sér Evr­ópu­meist­ara­titil í golfi 16 ára og yngri fyr­ir nokkr­um dög­um. Hún verður 16 ára í haust. Perla Ósk atti kappi við yfir 70 af efni­leg­ustu kylf­ing­um Evrópu og hafði bet­ur.

Sum­arið 2022 er svo sann­ar­lega gott sum­ar fyr­ir ungt af­reks­fólk frá fá­mennri þjóð. Og dæm­in eru fleiri bæði ný og göm­ul.

Fyrr á þessu ári tryggði karla­landsliðið í hand­bolta sér 6. sæti á Evr­ópu­mót­inu þrátt fyr­ir að veiru­fjand­inn hafi gert strand­högg. Þeir ætluðu sér stærri hluti en heims­meist­ara­mótið í janú­ar er næsta verk­efni. Liðið er vel mannað og þar fer fremst­ur meðal jafn­ingja Ómar Ingi Magnús­son sem val­inn var besti leikmaður Þýsku úr­vals­deild­ar­inn­ar í hand­bolta fyr­ir nokkr­um vik­um.

Í des­em­ber á liðnu ári varð kvenna­landsliðið í hóp­fim­leik­um Evr­ópu­meist­ari. Þann leik hef­ur liðið leikið áður – síðast 2012.

Hér verður látið staðar numið þó hægt sé að nefna fleiri ein­stak­linga og landslið sem skarað hafa fram úr á síðustu árum, allt frá knatt­spyrnu til körfu­bolta, sunds til fim­leika, golfi til frjálsra íþrótta. Svo virðist sem fáar íþrótta­grein­ar séu til þar sem Íslend­ing­ar hafa ekki náð góðum ár­angri.

Hvorki dramb né hroki

Það er ekki dramb­semi eða hroki að vera stolt­ur Íslend­ing­ur. Hreyk­inn af því ótrú­lega af­reks­fólki sem hef­ur lagt mikið á sig til að skara fram úr á alþjóðleg­um vett­vangi. Trú­in á framtíðina – á fólkið og landið – efl­ist. Ekki vegna þess að við séum betri en aðrar þjóðir eða merki­legri. Held­ur vegna þess að við fáum staðfest­ingu á hversu miklu við get­um áorkað ef við erum til­bú­in til að leggja eitt­hvað á okk­ur. Að þessu leyti eru íþrótta­menn­irn­ir fyr­ir­mynd­ir okk­ar hinna með sama hætti og framúrsk­ar­andi lista­fólk.

Þeir eru til sem vilja ekki draga fram það já­kvæða – neita að sjá eða njóta þess sem vel er gert. Í hug­um þeirra er mik­il­væg­ara að grafa und­an til­trú á landi og þjóð – mynda far­veg fyr­ir van­traust og tor­tryggni. Hinir nei­kvæðu munu ekki mæta á völl­inn og upp­lifa æv­in­týri eða gleðjast þegar ungt af­reks­fólk nær árangri. Kannski ættu þeir að drekka meira af ís­lenska vatn­inu og anda dýpra að sér fersku fjalla­lofti.

En úr­tölu­fólk, sem sér glasið alltaf hálf­tómt, hef­ur alltaf verið til. Við hin tök­um þátt í gleðinni, leyf­um okk­ur að upp­lifa stemn­ing­una og vera hreyk­in af því að vera Íslend­ing­ar. Við erum þrátt fyr­ir allt að gera ýmis­legt rétt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. júlí 2022.