Stöðnun er ekki valkostur

Um síðustu alda­mót, í sept­em­ber 2000, gengu ung­ir menn inn á skrif­stofu for­stjóra Blockbuster, sem þá var stærsta mynd­banda­leig­an í Banda­ríkj­un­um, og buðu hon­um að kaupa lítið sprota­fyr­ir­tæki – Net­flix – sem var í vanda statt eft­ir að hin svo­nefnda net­bóla sprakk. Fund­ur­inn var stutt­ur þar sem for­stjór­inn nán­ast vísaði ungu mönn­un­um á dyr. Tíu árum síðar var Blockbuster orðið gjaldþrota þegar fólk var hætt að leigja víd­eó­spól­ur en við þekkj­um vel og upp­lif­um mörg dag­lega hvernig saga Net­flix þróaðist.

Þessi saga er oft­ast sögð í gam­an­söm­um tón og dæmið notað til að benda á skamm­sýni for­stjóra hins rót­gróna fyr­ir­tæk­is, sem sá ekki fyr­ir sér hvernig framtíðin myndi þró­ast. Það eitt og sér er áhuga­vert, en það eru þó fleiri þætt­ir í þess­ari sögu sem hægt er að horfa til.

Það gleym­ist stund­um að benda á að Blockbuster var á þess­um tíma risa­fyr­ir­tæki. Það ger­ist ekki að sjálfu sér og á ein­hverj­um tíma­punkti var stefnu­mót­un og stjórn­un fyr­ir­tæk­is­ins aug­ljós­lega til þess fall­in að hjálpa fyr­ir­tæk­inu að kom­ast á þann stað. Ein­hvers staðar á þess­ari veg­ferð staðnaði fyr­ir­tækið og hætti að sækja fram – hugs­an­lega af því að stjórn­end­ur þess stöðnuðu eða urðu værukær­ir. Þetta er mögu­lega ein­föld mynd af flókn­um veru­leika þar sem tækni­fram­far­ir breytt­ust hraðar en al­mennt mátti eiga von á og hristu upp í dag­legu lífi fólks. Það eru þó til fleiri sam­bæri­leg dæmi um fyr­ir­tæki, og jafn­vel stjórn­völd, sem hafa gengið vel en staðnað í kjöl­far vel­gengni.

Á sveit­ar­stjórn­arstig­inu hafa kröf­ur um aukna þjón­ustu vaxið ár frá ári. Kjörn­ir full­trú­ar hafa þurft að huga að leiðum til að mæta þeim kröf­um án þess að missa tök­in á rekstr­in­um. Við slík­ar aðstæður er nauðsyn­legt að hrista aðeins upp í hlut­un­um. Vissu­lega er margt ólíkt með rekstri sveit­ar­fé­laga og fyr­ir­tækja, en það gilda þó sam­bæri­leg lög­mál um hug­ar­far þeirra sem leiða og veita for­ystu. Þá skipt­ir máli að hafa skýra á sýn á verk­efn­in, hugsa út fyr­ir hinn hefðbundna ramma og sækja fram á öll­um sviðum.

Á síðasta ára­tug hafa heild­ar­út­gjöld sveit­ar­fé­laga vaxið um helm­ing að raun­v­irði og út­gjöld á hvern íbúa um þrjá­tíu pró­sent. Tekj­urn­ar hafa ekki þró­ast með þó út­svars­pró­sent­ur og fast­eigna­skatt­ar séu víðast við þol­mörk. Það hvernig fólk í sveit­ar­stjórn­um mun tak­ast til við að móta stefnu og koma fram með hug­mynd­ir um aukna hag­kvæmni mun ráða miklu um hvernig sveit­ar­fé­lög­um mun farn­ast á næstu árum. Við vit­um ekki alltaf hvað framtíðin ber í skauti sér, hvernig tækn­in mun þró­ast eða hverj­ar vænt­ing­ar verða til sveit­ar­stjórna. Við sem stýr­um rekstri og þjón­ustu Kópa­vogs vit­um þó að stöðnun er ekki val­kost­ur og því mun­um við ávallt leita nýrra leiða til að gera enn bet­ur.

Morgunblaðið, fimmtudaginn 7. júlí. 2022.