Á höttunum eftir frelsi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra:

Það eru 18 ár liðin frá því að síðasta sveins­prófið var skráð í klæðskurði karla en 62 ár frá því að slíkt próf var skráð í klæðskurði kvenna. Þá eru rúm 50 ár liðin frá því að ein­hver lauk próf í let­ur­greftri. Þrátt fyr­ir það gilda enn regl­ur um lög­gild­ingu þess­ara greina – og annarra sem tekið hafa mikl­um breyt­ing­um í gegn­um tíðina og kalla ekki endi­lega á að um þær gildi sér­stök lög­gild­ing.

Í dag birt­ist í Sam­ráðsgátt stjórn­valda til­laga mín um breyt­ing­ar á reglu­gerð um lög­gilt­ar iðngrein­ar, þar sem lagt er til að af­nema sum­ar þeirra og sam­eina aðrar und­ir hatti annarra og víðtæk­ari iðngreina.

Þess­ar til­lög­ur eru afrakst­ur vinnu sem ráðist var í eft­ir að Efna­hags- og fram­kvæmda­nefnd­in (OECD) skilaði úr­bóta­til­lög­um í sam­keppn­ismati lands­ins síðla árs 2020. Sam­kvæmt nú­gild­andi lög­um um handiðnað hafa aðeins meist­ar­ar, svein­ar og nem­end­ur í viðkom­andi iðngrein rétt til iðnaðarstarfa í þeim grein­um sem lög­gilt­ar hafa verið með reglu­gerð.

Við eig­um heims­met í fjölda iðngreina sem krefjast lög­gild­ing­ar. Sum­ar þess­ara greina fyr­ir­finn­ast ekki leng­ur í at­vinnu­líf­inu, hafa ekki verið kennd­ar í fjölda ára eða hafa tekið slík­um breyt­ing­um að for­send­ur telj­ast ekki leng­ur fyr­ir hendi fyr­ir lög­gild­ingu þeirra. Má þar nefna feldsk­urð, glerslíp­un og spegla­gerð, hljóðfæra­smíði, myndsk­urð, málm­steyp­un, móta­smíði, let­ur­gröft og hattasaum.

Í vinnu okk­ar lit­um við til þess hvort nám­skrár væru til fyr­ir viðkom­andi grein og í hvaða grein­um fáir eða eng­ir hafa lokið sveins­prófi síðastliðna tvo ára­tugi. Jafn­framt var skoðað hvort rök­styðja mætti lög­vernd­un viðkom­andi iðngreina með vís­an til al­manna­hags­muna, sér í lagi al­manna­heil­brigðis og ör­ygg­is. Niðurstaðan er sú að gangi til­lög­urn­ar eft­ir verða sautján iðngrein­ar lagðar af eða sam­einaðar öðrum sem lög­gilt­ar grein­ar.

Í flest­um ef ekki öll­um þeim grein­um sem nú verða af­numd­ar eða ein­faldaðar starfa ein­stak­ling­ar án til­skil­inna rétt­inda sem eiga á hættu ákæru um brot á ákvæðum laga um handiðnað.

Breyt­ing­arn­ar opna á tæki­færi fyr­ir fleiri til að starfa óáreitt­ir í sinni iðngrein án kröfu um lög­gild­ingu. Hluti af því að ýta und­ir frek­ari fram­far­ir og frelsi er að gefa fólki svig­rúm til að starfa í ákveðnum grein­um. Við erum að ein­falda og aðlaga kerfið að nú­tím­an­um, og um leið að styrkja sam­keppn­is­hæfni Íslands í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir.

Stjórn­mála­menn eru mjög dug­leg­ir, stund­um of dug­leg­ir, að setja ný lög og nýj­ar reglu­gerðir um hluti en við erum alltof rög við að skoða laga­safnið og meta hvað má fella úr gildi eða ein­falda. Við eig­um að draga úr höml­um og auka sam­keppni. Þannig stuðlum við að framþróun og auk­um verðmæta­sköp­un.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2022.