Lægri skattar og aukinn kaupmáttur

Heildartekjur allra tekjuhópa á Íslandi hafa hækkað og kaupmáttur aukist, samkvæmt greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Auk þess greiða allir tekjuhópar nú minni tekjuskatt en áður, að undanskildum þeim tekjuhæstu.

Áttatíu og þrjú prósent af tekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda samkvæmt greiningu ráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda út frá skattframtölum. Þannig hefur markmiðið náðst að lækka skattbyrði sérstaklega á þá sem hafa lægri tekjur.

Frá árinu 2010 jukust heildartekjur allra tekjutíunda að meðaltali um 38 prósent á verðlagi síðasta árs. Í fyrra jukust tekjurnar um 4,4 prósent að raunvirði og kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst að meðaltali um 5,1 prósent sem er veruleg kjarabót fyrir almenning í landinu.

Í greiningunni kemur fram að í fyrra hafi lág- og millitekjufólk greitt lægra hlutfall í tekjuskatt vegna samspils tekjuskattsbreytinga og hærri launa, þótt tekjur þeirra hafi aukist.

Heildartekjur einstaklinga voru 2.256 milljarðar króna í fyrra. Á þær tekjur voru lagðir 523 milljarðar króna í formi tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts. Á efstu tekjutíundina, sem fær 29 prósent af heildartekjunum, er álagður skattur 36 prósent af heildartekjum af tekjuskatti. Á síðasta ári borgaði efsta tíundin að meðaltali 3 milljónir króna í tekjuskatt, 2,2 milljónir króna í útsvar og 1,2 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt. Neðstu fimm tekjutíundirnar borguðu 13 prósent af heildarútsvari og fjögur prósent af öllum tekjuskatti og því samtals 17 prósent af heildarskatttekjum.