Afhjúpun á Alþingi

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Það hef­ur verið ánægju­legt að verða vitni að því frá fyrstu hendi hversu mikið alþing­is­menn þjóðar­inn­ar brenna fyr­ir því að betr­um­bæta sam­fé­lagið okk­ar. Þeir vilja styðja við for­eldra sem missa barn, styðja við ný­sköp­un og styrkja stöðu lán­taka og leigj­enda. Þeim er annt um vel­ferð dýra og um um­hverfið. Alþing­is­mönn­um er um­hugað um geðheilsu þeirra sem vinna við að hjálpa öðrum, vilja jafna stöðu fólks á vinnu­markaði og auðvelda og ein­falda aðgengi að tækni­frjóvg­un­um. Þing­menn eru auðvitað ekki alltaf sam­mála, og kannski sjaldn­ast, sér­stak­lega um leiðir að settu marki. En þeim geng­ur gott til.

Mun­ur­inn á hug­ar­fari þing­manna, hugs­un­ar­hætti og hug­sjón­um, kom hins veg­ar glöggt fram í umræðum á þing­inu um fjár­mála­áætl­un næstu ára. Þjóðin hef­ur glímt við næst­mesta efna­hags­áfall seinni tíma og ljóst er að aðgerðir hafa skilað ár­angri og efna­hag­ur­inn tekið hratt við sér. Hins veg­ar staf­ar okk­ur ógn af verðbólgu og versn­andi efna­hags­horf­um í heim­in­um. Hvernig eig­um við að bregðast við?

Á Alþingi heyr­ast radd­ir þar sem am­ast er við skatta­lækk­un­um und­an­far­inna ára, hækk­un frí­tekju­marks og lækk­un gjalda. Aðgerðir sem stjórn­völd geta sann­ar­lega hreykt sér af, enda bygg­ist þessi gagn­rýni á hug­mynd­um um að sam­fé­lagskak­an sé óbreyt­an­leg stærð og ágrein­ing­ur­inn snúi að því hvernig eigi að skipta henni. Efna­hags­stjórn und­an­far­inna ára und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins hef­ur hins veg­ar sann­ar­lega stækkað kök­una. Um það verður ekki deilt.

Stjórn­völd geta vel við unað þann ár­ang­ur sem ráðstaf­an­ir þeirra hafa skilað til varn­ar efna­hags­líf­inu. Hins veg­ar mættu stjórn­völd standa sig mun bet­ur í aðhaldi og hagræðingu. Þar mætti vera meira af „harða hægr­inu“, svo vísað sé til orða þing­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Og ég hvet stjórn­völd til að halda aft­ur af ei­lífri þörf til að hækka skatta og gjöld þegar að krepp­ir og fara ein­fald­lega bet­ur með þær tekj­ur sem við heimt­um af fólk­inu í land­inu.

Greinin birtist í morgunblaðinu 20. júní 2022