Alþingismenn einhuga um stuðning við Úkraínu

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Á síðasta degi þingvetrarins samþykkti Alþingi samhljóða frumvarp fjármálaráðherra um að fella niður tolla á allar vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Samkvæmt lögunum falla tollarnir niður til og með 31. maí 2023.

Úkraína hafði farið þess á leit við ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) að í tollfríðindi yrðu aukin umfram fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og Úkraínu í ljósi innrásar Rússlands. Áður hafði Úkraína einhliða fellt niður tolla á allar innfluttar vörur til að stuðla að auknum viðskiptum. Er þetta liður í viðleitni til að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök. Evópusambandið og Bretland höfðu þegar orðið við beiðni Úkraínu.

Frumvarp fjármálaráðherra felur í sér mikilvægan og táknrænan stuðning við Úkraínu. Markmiðið er að við sýnum þessari vinaþjóð okkar í Evrópu stuðning í verki með því að greiða fyrir viðskiptum. Það er mikilvægt því þótt stríðið við Pútín hafi þjappað þjóðum saman, hefur það líka afhjúpað eiginhagsmunabaráttu. Þannig hafa sum forysturíki ESB hafa t.a.m. reynt að skorast undan framlagi og fórnum. Slíka gjörninga er óhjákvæmilegt að skoða í samhengi við þær fórnir sem úkraínska þjóðin hefur fært og færir áfram fyrir sameiginleg gildi okkar: frelsi, mannréttindi og lýðræði.

Nú þegar stríð hefur staðið yfir í Evrópu í fjóra mánuði er þörf á áframhaldandi samstöðu lýðræðisríkjanna. Við þurfum að leggja okkar af mörkum við að mæta aðgerðum Pútíns, samstíga og af fullum þunga. Innrás í fullvalda evrópskt ríki er sameiginlegt viðfangsefni og verkefni okkar sem Evrópuþjóða og fáir eiga meira undir þeim en við Íslendingar. Ég er stolt af samróma áliti alþingismanna – að Ísland eigi ekki að skorast undan sinni ábyrgð.

Greinin birtist á Vísi, 17. júní 2022