Vernd umhverfis – velferð mannsins

Guðlaugur Þór Þórðar­son, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Nú eru 50 ár frá því að ráðstefna Sam­einuðu þjóðanna um um­hverfi manns­ins var hald­in í Stokk­hólmi. Óhætt er að full­yrða að ráðstefn­an markaði tíma­mót, sem upp­haf að skipu­legu sam­starfi ríkja heims í um­hverf­is­mál­um.

Hugs­an­lega hefði þó fáa grunað hve stór­an sess um­hverf­is­mál­in skipa í alþjóðlegri umræðu hálfri öld seinna. Það kem­ur þó ekki til ein­göngu af því að um­hverfis­vit­und hef­ur auk­ist, held­ur sýna vís­ind­in okk­ur að vá er fyr­ir dyr­um fyr­ir mann­kynið ef okk­ur tekst ekki að koma bönd­um á lofts­lags­breyt­ing­ar og eyðingu líf­rík­is og nátt­úru­gæða. Það er hollt að horfa um öxl og skoða hvað hef­ur áunn­ist á 50 árum, en mest um vert að nýta þann lær­dóm til að leysa vand­ann sem nú blas­ir við.

Leiðin frá Stokk­hólmi

Það er ástæða til að hnykkja á því að Stokk­hólms­ráðstefn­an fjallaði ekki um nátt­úru­vernd í þröng­um skiln­ingi þess orðs, held­ur um um­hverfi manns­ins. Vernd villtra teg­unda og landsvæða, s.s. í þjóðgörðum, á sér langa sögu. Í Stokk­hólmi var út­gangspunkt­ur­inn sá að vernd um­hverf­is­ins væri ekki ein­ung­is mik­il­væg í því skyni, held­ur líka mál sem snerti ör­yggi og vel­ferð manns­ins. Stjórn­laus meng­un og auðlinda­sóun veg­ur að af­komu og lífs­gæðum okk­ar sjálfra.

Hafa mál þokast til betri veg­ar síðan þá? Ef horft er til alþjóðlegs sam­starfs, þá hef­ur það blómstrað. Gengið hef­ur verið frá fjöl­mörg­um alþjóðleg­um samn­ing­um um vernd líf­rík­is og lofts­lags og gegn meng­un af hvers kyns tagi. Þeir duga þó skammt ein­ir og sér, nema aðgerðir fylgi orðum

Auk­in hag­sæld en ótrygg framtíð

Það er áhuga­vert að skoða þróun mála á jörðinni síðan 1972. Mann­fjöld­inn hef­ur tvö­fald­ast síðan þá. Los­un gróður­húsaloft­teg­unda sömu­leiðis. Efna­hags­um­svif, á mæli­stiku hag­fræðinn­ar, hafa tutt­ugufald­ast.

Auk­in hag­sæld er er auðvitað af hinu góða. Um millj­arður manna hef­ur kom­ist út úr sárri fá­tækt frá alda­mót­um skv. viðmiðum SÞ. Aldrei hafa fleiri haft tæki­færi til að lifa mann­sæm­andi lífi en í dag. Dóms­dags­spár margra á síðari hluta 20. ald­ar um stór­felld­ar hung­urs­neyðir og hrun vist­kerfa hafa ekki gengið eft­ir.

Það ger­ist þó ekki af sjálfu sér. Það er auk­inni áherslu á um­hverf­is­vernd að þakka að okk­ur hef­ur tek­ist að nokkru leyti að af­tengja meng­un og önn­ur nei­kvæð um­hverf­isáhrif frá hag­vexti. Við þurf­um að fylgja leiðsögn vís­ind­anna og muna að nátt­úr­an og gæði henn­ar er grunn­ur að til­vist og vel­ferð mann­kyns.

Stærsta málið í umræðunni nú er lofts­lags­vá­in. Hún var varla á rat­sjánni fyr­ir hálfri öld, en nú er eng­inn efi leng­ur um að lofts­lags­breyt­ing­ar af manna­völd­um séu raun­veru­leg­ar og að illa fer ef ekki tekst að halda þeim inn­an settra marka.

Verstu af­leiðing­arn­ar eru ekki endi­lega sýni­leg­ar. Til lengri tíma munu óheft­ar breyt­ing­ar á lofts­lagi gjör­breyta lífs­skil­yrðum mann­kyns til hins verra. Þess vegna þarf að horfa til framtíðar en ekki bara til þess sem vel hef­ur tek­ist á síðastliðnum ára­tug­um.

Hætt­um að niður­greiða kol og olíu!

Í ávarpi mínu á 50 ára af­mæl­is­fundi Stokk­hólms­ráðstefn­unn­ar lagði ég áherslu á nokk­ur atriði. Vernd líf­rík­is og villtr­ar nátt­úru er mik­il­væg, þar sem mann­leg til­vera bygg­ist á gæðum nátt­úr­unn­ar. Við verðum jafn­framt að halda áfram að bæta lífs­kjör á heimsvísu og ekki síst að draga úr hungri og auka fæðuör­yggi. Þar eru blik­ur á lofti nú vegna stríðsins í Úkraínu, en til lengri tíma þurf­um við meðal ann­ars að tryggja sjálf­bær­ar fisk­veiðar og stöðvun land­hnign­un­ar á heimsvísu.

Stærsta verk­efnið hlýt­ur þó að vera að stöðva hættu­leg­ar lofts­lags­breyt­ing­ar. Þar eru orku­mál­in miðlæg, því bruni jarðefna­eldsneyt­is­ins er stærsta upp­spretta gróður­húsaloft­teg­unda. Við verðum að hverfa af þeirri braut og nýta end­ur­nýj­an­lega orku eins og kost­ur er. Hrein orku­skipti eru eitt helsta for­gangs­mál mann­kyns. Nauðsyn­legt er að hætta niður­greiðslum á jarðefna­eldsneyti, sem enn eru gríðarleg­ar á heimsvísu.

Hlut­verk Íslands

Hlut­verk okk­ar Íslend­inga virðist oft lítið þegar horft er á stóru mál­in sem brenna á heims­byggðinni. Hér eru lífs­kjör með því besta sem þekk­ist, þótt við vilj­um auðvitað alltaf bæta okk­ur enn. Marg­ar þjóðir öf­unda okk­ur af hreinu um­hverfi, gnægð end­ur­nýj­an­legr­ar orku og sér­stæðri og fag­urri nátt­úru. Allt eru þetta gæði sem okk­ur ber að vernda og nýta af kost­gæfni.

Fá­menn­ar þjóðir geta haft stærra hlut­verk en hausa­tal­an seg­ir til um. Við Íslend­ing­ar get­um verið í fremstu röð í skyn­sam­legri nýt­ingu auðlinda, vernd nátt­úru, end­ur­heimt vist­kerfa og aðgerðum gegn lofts­lags­vá. Við get­um sett dæmi sem aðrir geta lært af. Við höf­um náð lengra en næst­um öll ríki í hrein­um orku­skipt­um, en þurf­um að ganga lengra og klára það verk­efni.

Auðvitað er þó pott­ur brot­inn í um­hverf­is­mál­um hér á Íslandi og við get­um lært margt af öðrum. Við verðum að horfa á um­hverf­is­mál á Íslandi í alþjóðlegu sam­hengi. Við höf­um áorkað margt á þeim 50 árum síðan um­hverf­is­mál­in voru sett á dag­skrá heims­byggðar­inn­ar í Stokk­hólmi. Við þurf­um að nýta næstu ára­tugi til að bægja lofts­lags­vánni frá og ná að byggja upp góð lífs­kjör fyr­ir alla íbúa jarðar án þess að skaða þau gæði nátt­úr­unn­ar sem þau byggj­ast á.

Morgunblaðið, fimmtudaginn, 2. júní. 2022.