Ert þú í slæmu sambandi?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra:

Í augna­blik­inu næst ekki í farsím­ann,“ eru orð sem ef­laust mörg kann­ast við þegar reynt er að ná í ein­hvern í síma. Annað kunn­ug­legt hljóð er þegar sím­talið slitn­ar áður en það hefst með þrem­ur píp­um. Svo heyr­ast viðkom­andi seinna og ann­ar nefn­ir að hann hafi verið að keyra ein­hvers staðar þar sem ekki næst sam­band. Við höf­um öll átt þessi sam­töl, oft­ar en einu sinni.

Þessu þarf að breyta, enda snýst farsíma­sam­band ekki bara um þæg­indi held­ur ör­yggi. Á dög­un­um kynnt­um við mik­il­væg­ar úr­bæt­ur á farsímaþjón­ustu með sam­starfi Neyðarlín­unn­ar og farsíma­fé­lag­anna þriggja, í þeim til­gangi að tryggja gott farsíma­sam­band á fá­förn­um og af­skekkt­um stöðum. Fjölda­mörg dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að hringja í Neyðarlín­una eft­ir slys vegna þess að annaðhvort hafi ekki verið síma­sam­band á staðnum eða aðeins hjá einu síma­fé­lag­anna. Þrátt fyr­ir að búa við eitt mesta aðgengi að farsíma- og far­neti í heimi hafa verið of mörg dæmi um þetta.

Farsíma­sam­band nær nú til 99,99% lög­heim­ila og 98% vega utan þétt­býl­is. Það er þó ekki nóg til að tryggja ör­yggi. Þjóðveg­ir á for­ræði Vega­gerðar utan þétt­býl­is eru rúm­lega 12.000 kíló­metr­ar að lengd. Tveggja pró­senta þjón­ustu­leysi jafn­gild­ir því um 240 kíló­metr­um. Til að setja þess­ar stærðir í sam­hengi þá jafn­gild­ir það vega­lengd­inni milli Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Þá er ótalið um­fang vega á for­ræði sveit­ar­fé­laga sem er álíka mikið.

Víðast hvar um landið eru markaðsleg­ar for­send­ur fyr­ir upp­bygg­ingu og rekstri farsíma­kerfa, en þó eru önn­ur svæði þar sem slík­ar for­send­ur eru ekki til staðar. Sam­starfs­verk­efni geng­ur út á það að Neyðarlín­an trygg­ir innviði utan markaðssvæða og fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in veita þar farsímaþjón­ustu um einn sendi sem all­ir farsíma­not­end­ur geta not­fært sér á jafn­ræðis­grunni, óháð því hjá hvaða fjar­skipta­fyr­ir­tæki áskrift­in er.

Mark­mið stjórn­valda með þessu er fyrst og fremst bætt ör­yggi þannig að sem flest­ir geti sem víðast átt sam­skipti við Neyðarlín­una í neyðar­núm­erið 112. Jafn­framt stuðlar þessi upp­bygg­ing að auk­inni dekk­un og gagna­hraða fyr­ir al­menna farsíma­notk­un, sem um leið bæt­ir lífs­gæði hér á landi og þeirra sem um landið ferðast.

Ann­ar stór áfangi náðist á dög­un­um en það var þegar nýi fjar­skiptasæ­streng­ur­inn Iris var tengd­ur hér við land. Slík­ir streng­ir gera millj­arða sam­fé­lög­un­um sem og litl­um eyþjóðum mögu­legt að eiga hnökra­laus og nán­ast taf­ar­laus sam­skipti við önn­ur sam­fé­lög um all­an heim. Í nýj­um streng felst veru­lega bætt ör­yggi sam­bands okk­ar við um­heim­inn en ekki síst fel­ast líka í því tæki­færi til frek­ari fram­fara.

Örugg sam­skipti við Neyðarlín­una, hvort annað og um­heim­inn eyk­ur ör­yggi og lífs­gæði hér á landi, sem er jú það verk­efni sem stjórn­mála­mönn­um er ætlað að sinna.

Morgunblaðið, 31. maí. 2022.