Sjálfstæðisflokkur með langflesta kjörna fulltrúa

Sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí skiluðu Sjálfstæðisflokknum langflestum sveitarstjórnarmönnum allra flokka.  

Sjálfstæðisflokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna, hlaut 113 sveitarstjórnarmenn kjörna af 323 mögulegum í þeim 35 sveitarfélögum þar sem hann bauð fram. 

Flokkurinn sem hlaut annað sætið bauð fram í 21 sveitarfélagi og hlaut 67 kjörna fulltrúa, árangur sem vert er að óska þeim til hamingju með, en kemst þó hvergi nærri gríðargóðum árangri Sjálfstæðisflokksins.

Valdir fulltrúar flokka á öllu landinu (í þeim sveitarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkur bauð fram eru 323 sveitarstjórnarmenn).

Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkurinn með langflesta sveitarstjórnarmenn eða 113. Að meðaltali nutu framboð Sjálfstæðisflokksins tæplega 37% fylgis í þeim sveitarfélögum sem hann bauð fram í eða rétt rúmum 3% minna en árið 2018 þegar hann hlaut mjög góða kosningu. Næststærsti flokkurinn naut fylgis um 28,5% að meðaltali þar sem hann bauð fram. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í 21 sveitarfélagi af 35, og víða langstærstur. Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í 7 sveitarfélögum.

Í Reykjavík var flokkurinn langstærstur eða fimmtungi stærri en næststærsti flokkurinn. Það þýðir að fjórði hver íbúi í Reykjavík treystir Sjálfstæðisflokknum til þess að leiða breytingar á borginni og við felldum meirihlutann í annað skiptið í röð!

Þessar tölur sýna, svo ekki verður um villst, að Sjálfstæðisflokkurinn er augljós sigurvegari kosninganna enda langt fyrir ofan annað sætið í öllum samanburði.

Að lokum er gaman að segja frá þeirri staðreynd að af 614 öflugum frambjóðendum flokksins um allt land voru 304 konur og 310 karlar.

Þessi góði árangur kemur ekki á óvart, enda var áberandi samheldni einstaklega kraftmikils hóps frambjóðenda um allt land, trúnaðarmanna, sjálfboðaliða og flokksmanna sem lögðu flokknum lið í þessari mikilvægu baráttu. Fólk lagði dag við nótt í þessari vinnu, sem einkenndist af gleði, vinnusemi og jákvæðum baráttuanda.