Breyting eða kyrrstaða í Reykjavík? – Þitt er valið

Kjartan Magnússon, 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Reykvískir kjósendur standa frammi fyrir óvenju skýrum kostum í kosningum til borgarstjórnar í dag.

Atkvæði greitt Samfylkingunni eða samstarfsflokkum hennar er ákall um kyrrstöðu og áframhaldandi óstjórn í mörgum mikilvægum málaflokkum.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er hins vegar ákall um nýja hugsun og breytingu til batnaðar í rekstri og þjónustu borgarinnar.

Undanfarin tólf ár hefur Samfylkingin verið ráðandi afl í borgarstjórn Reykjavíkur. Undir forystu hennar hefur ýmsum málaflokkum verið klúðrað eða látið reka á reiðanum.

Hátt húsnæðisverð ekki lögmál

Vegna ofuráherslu á þéttingu byggðar hefur húsnæðisverð hækkað upp úr öllu valdi svo að venjulegt launafólk á þess ekki lengur kost að kaupa sér íbúð með góðu móti. Afleiðingin er sú að fjölmargt ungt fólk flýr borgina og sest að í nágrannasveitarfélögum eða jafnvel fyrir austan fjall.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er helsti hugmyndafræðingur þeirrar húsnæðisstefnu, sem hefur reynst svo illa í Reykjavík síðastliðin tuttugu ár. Augljóst er að það mun ekki leysa húsnæðisvandann að tryggja honum áframhaldandi úrslitavald í þeim málaflokki.

Hið ofurháa húsnæðisverð, sem Reykvíkingar búa við, er hins vegar ekkert lögmál. Lausnin er sú að stórauka lóðaframboð í Reykjavík og gera þannig fólki á öllum aldri kleift að eignast eigið húsnæði eða vera á heilbrigðum leigumarkaði. Leggja þarf sérstaka áherslu á að tryggja byggingarfélögum eldri borgara ætíð greiðan aðgang að góðum lóðum, t.d. Félagi eldri borgara í Reykjavík og Samtökum aldraðra.

Samgöngumálin verður að leysa

Undir stjórn Samfylkingarinnar hefur borgarstjórn staðið í vegi fyrir mörgum samgönguframkvæmdum, sem myndu greiða fyrir umferð, auka umferðaröryggi og draga úr mengun í borginni. Nefna má andstöðu vinstri meirihlutans við stokkalausnir á fjölförnum gatnamótum og ásetning hans um að spilla Sundabrautarverkefninu með því að skipuleggja byggð í fyrirhuguðu vegstæði hennar.

Sjálfstæðisflokkurinn vill rjúfa þá kyrrstöðu í samgöngumálum sem Samfylkingin hefur staðið fyrir frá árinu 2010. Við viljum reisa ný og nútímaleg umferðarmannvirki í þágu akandi, gangandi og hjólandi Reykvíkinga. Sundabraut er forgangsmál, einnig stokkalausnir á fjölförnum gatnamótum og áframhaldandi lagning göngu- og hjólreiðastíga. Efla þarf strætisvagnaþjónustu og bæta tengingar við einstök hverfi, ekki síst í eystri hluta borgarinnar.

Skuldir í dag eru skattur á morgun

Rekstur Reykjavíkurborgar er ekki sjálfbær og hefur borgin safnað skuldum í aldarfjórðung. Skuldirnar eru komnar yfir hættumörk og nema nú 407 milljörðum króna. Mikilvægt er að borgarstjórn horfist í augu við vandann í stað þess að fela hann með bókhaldsbrellum. Stórbæta þarf rekstur borgarinnar með sparnaði og hagræðingu. Til dæmis verði borgarfulltrúum fækkað úr 23 í 15.

Skólarnir eiga betra skilið

Stöðnun og jafnvel afturför ríkir í skólamálum, þegar litið er til námsárangurs eða húsnæðismála nemenda. Vegna stórfelldrar vanrækslu vinstri meirihlutans í viðhaldsmálum er nú glímt við myglu í fjölmörgum leikskólum og grunnskólum og aka þarf fjölda nemenda borgarhluta á milli á hverjum degi til að þeir geti fengið kennslu í bráðabirgðahúsnæði.

Aukið viðhald leikskóla og grunnskóla í Reykjavík þarf að setja í algeran forgang á kostnað margvíslegra gæluverkefna núverandi meirihluta. Leita þarf nýrra leiða til að manna leikskólana og efla dagforeldrakerfið. Bæta þarf grunnskólamenntun, m.a. með því að notast við ný og mælanleg markmið og upplýsa foreldra sem best um námsframvindu barna sinna.

Skýrir kostir!

Ágæti Reykvíkingur! Kostirnir gætu ekki verið skýrari. Með því að krossa við D kýstu breytingar til batnaðar í Reykjavík. Með því að kjósa Samfylkinguna eða samstarfsflokka hennar er verið að kjósa áframhaldandi óstjórn í borgarmálum.

Morgunblaðið, 14. maí. 2022.