Hvert atkvæði skiptir máli

Birgir Ármannsson, alþingismaður:

Kosn­ing­ar til borg­ar­stjórn­ar í Reykja­vík og sveit­ar­stjórna um allt land skipta gríðarlega miklu máli. Á und­an­förn­um árum hafa sí­fellt fleiri verk­efni færst til sveit­ar­fé­lag­anna og ákv­arðanir sem tekn­ar eru á sveit­ar­stjórn­arstig­inu hafa ekki bara veru­leg áhrif á dag­legt líf íbú­anna held­ur líka á þjóðfé­lagið allt, bæði hvað varðar vöxt og viðgang efna­hags- og at­vinnu­lífs, sam­gangna, mennta­mála, menn­ing­ar og hvers kyns vel­ferðarþjón­ustu.

Af þess­um sök­um þarf eng­inn að velkj­ast í vafa um að það skipt­ir veru­legu máli hverj­ir velj­ast til að leiða starf sveit­ar­stjórna í þess­um mik­il­vægu verk­efn­um. Það á jafnt við í stór­um bæj­um og fá­menn­ari sveit­ar­fé­lög­um. Reykja­vík­ur­borg hef­ur svo auðvitað sér­stöðu sem lang­stærsta sveit­ar­fé­lagið.

Ég er í hópi þeirra sem telja að veru­legra breyt­inga sé þörf á vett­vangi borg­ar­mál­anna. Áfram­hald­andi sam­suða fjöl­margra flokka und­ir leiðsögn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er ávís­un á óbreytt ástand og við blas­ir að eini raun­hæfi mögu­leik­inn til að ná fram breyt­ing­um er að sjálf­stæðis­menn nái sterkri stöðu í kosn­ing­un­um.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn býður fram öfl­ug­an hóp fram­bjóðenda með skýra sýn á framtíðar­upp­bygg­ingu borg­ar­inn­ar og þjón­ustu sem virk­ar. Í hópn­um eru bæði ein­stak­ling­ar sem hafa mikla reynslu á sviði borg­ar­mála og nýir fram­bjóðend­ur, sem geta miðlað af fjöl­breyttri reynslu sinni af ólík­um sviðum sam­fé­lags­ins. Borg­ar­stjóra­efni list­ans, Hild­ur Björns­dótt­ir, er sterk­ur stjórn­mála­maður og hef­ur á und­an­förn­um fjór­um árum sýnt hvað í henni býr með ákveðnum og mál­efna­leg­um mál­flutn­ingi.

Ég skora á borg­ar­búa að nýta sér kosn­inga­rétt­inn og veita fram­bjóðend­um Sjálf­stæðis­flokks­ins braut­ar­gengi. Hvert at­kvæði skipt­ir máli.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 13. maí 2022