Valið er skýrt í Reykja­vík

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík: 

Borgarbúar standa frammi fyrir augljósum kostum nú á laugardag. Að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og nýja forystu í borgina, eða einhvern hinna og stuðla með því að enn einni útfærslunni af því sama í Reykjavík. Valið er skýrt.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er ákall um breytingar í Reykjavík. Atkvæði greitt einhverjum hinna flokkanna er ávísun á óbreytt ástand í borginni.

Hleypum nýju fólki að

Síðustu þrjá áratugi hefur Reykjavík meira og minna verið stjórnað af sama fólkinu. Borgarstjóri hefur verið í áhrifastöðu í borginni – með örstuttum hléum – í tuttugu ár. Með tímanum verður stjórnmálafólk samdauna valdinu. Kerfi fara að snúast um kerfin sjálf en ekki fólkið sem þeim er ætlað að þjóna.

Þetta er því miður raunin í Reykjavík. Borgin heldur áfram að safna skuldum. Biðlistar á leikskólana lengjast með hverju kjörtímabilinu. Gæluverkefni eru látin mæta forgangi meðan einföldustu mál á borð við þrif sitja á hakanum. Borgarsjóður er ósjálfbær, en rykið er dustað af sömu loforðum á fjögurra ára fresti. Sömu loforð. Sama andlit á plakatinu, bara fjórum árum eldra.

Til allrar hamingju er lausnin einföld. Hleypum nýju fólki að.

Einfalt er best

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill einfalda líf borgarbúa. Reykvíkingar eiga ekki að verða sérstaklega varir við borgaryfirvöld í sínu daglega lífi. Borgarbúar eiga einfaldlega að geta treyst því að sú þjónusta sem þeir greiða fyrir með sköttunum sínum virki.

Það er kominn tími á nýja nálgun í Reykjavík. Við verðum að treysta reksturinn og minnka skuldir borgarinnar – og búa þannig til svigrúm til að lækka skatta á íbúana. Við þurfum að einblína á grunnþjónustuna. Leikskólapláss eiga að standa öllum börnum til boða við 12 mánaða aldur, tryggja þarf raunverulegt valfrelsi í samgöngum, nægt framboð af húsnæði fyrir alla aldurshópa og öfluga íþróttainnviði í öllum hverfum. Borgin þarf líka að vera hrein og vel hirt þannig að borgarbúar geti verið stoltir af.

Valið er skýrt á laugardaginn. Sjálfstæðisflokkurinn eða enn ein útgáfan af því sama.

Vísir, 12. maí. 2022.