Málefnaáherslur Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi kynnir málefnaáherslur sínar fyrir komandi kosningar. Flokkurinn leggur áherslu á framúrskarandi þjónustu, skilvirkan rekstur, lágar álögur, framsækna skóla og metnaðarfulla framtíðarsýn. Þannig verður framtíðin í Kópavogi.

Góður Rekstur

Fjárhagsstaða Kópavogs er sterk og þannig verður það áfram. Ábyrgur rekstur er forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Við ætlum að stilla álögum á heimili og fyrirtæki í hóf og leita leiða til að lækka þær. Við ætlum einnig að stilla álögum í hóf og lækka fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki

Framsæknir skólar – leiðandi samfélag

Áhersla á framsækni og metnað í menntun barna skapar farsælt samfélag. Við setjum markið hátt í menntamálum til að tryggja bjarta framtíð fyrir börnin okkar.

Með auknu sjálfstæði verður sveigjanleikinn meiri. Við viljum leyfa skólum að skipuleggja starf sitt og áherslur til að efla og bæta menntun barna okkar.

Okkur er alvara með að afnema biðlista og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólapláss. Við ætlum að auka hratt framboð á dagvistunarúrræðum með því að setja upp færanlegar stofur í þeim hverfum þar sem þörfin er mest.

Bær nýrra tækifæra

Kópavogur hefur alla burði til að vera nútímalegt borgarsamfélag með alþjóðlegt yfirbragð, þar sem lífskjör og tækifæri verða sambærileg við bestu borgir. Mikilvægt er að vanda til verka þannig að uppbygging og fólksfjölgun komi ekki niður á umhverfisgæðum íbúa. Því þarf byggðaþróunin að vera samofin góðu samgönguneti.

Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í vaxandi bæ eru lífskjaramál. Við ætlum að standa vörð um hagsmuni Kópavogs í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sem fela í sér ábyrgar og raunhæfar áætlanir.

Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum sem snúa að húsnæðis- og samgöngumálum. Við viljum tryggja húsnæði fyrir fólk á öllum aldursskeiðum og ætlum að fjárfesta í innviðum til að fylgja eftir fjölgun íbúa. Þannig hugsum við til framtíðar.

Við erum vakandi yfir framtíðinni

Það er hlutverk sveitarfélaga að þjónusta íbúa en ekki öfugt. Nýjar og stafrænar tæknilausnir ráða því hvers konar þjónustu bærinn veitir til framtíðar. Við ætlum að tryggja að Kópavogur verði leiðandi í stafrænni vegferð og þjónustu.

Við ætlum að fjárfesta í Kópavogsappinu. Íbúa vilja vita hvenær ruslið er tekið eða götur sópaðar og hvar finna má grænu svæðin og göngu- og hjólastíga í nærumhverfi. Við ætlum að gera slíkar upplýsingar og fleiri til aðgengilegri.

Íþróttir og lýðheilsa fyrir alla

Lýðheilsa er mikilvæg fyrir Kópavogsbúa á öllum aldri og við viljum stuðla að vellíðan á öllum aldursskeiðum. Við ætlum að vera framúrskarandi samfélag þegar horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi barna og eldri borgara. Kópavogsbær er heilsueflandi samfélag og verður það áfram.

Við ætlum að hækka frístundastyrk barna og ungmenna.

Við viljum efla forvarnir í geðheilbrigðismálum, vinna með ungu fólki og tryggja vellíðan allra bæjarbúa. Það gerum við í nánu samstarfi við skóla, félagsþjónustu, æskulýðsfélög og aðra aðila.

Öflug menning – lifandi mannlíf

Auðugt menningarlíf eykur lífsgæði og vellíðan. Við viljum að allir íbúar Kópavogs fái notið lista og menningar, bæði sem þátttakendur í sinni listsköpun eða sem neytendur lista.

Við ætlum að úthluta árlega menningarávísun til Kópavogsbúa og efla þannig þátttöku íbúa í sínum eigin menningarhúsum.

Græn vegferð

Umhverfisbyltingin er hafin og við gerum kröfur um umhverfisvænar lausnir. Framtíðin er græn og felst í grænum iðnaði og aukinni áherslu á græna nýsköpun. Það er ekki í boði að sitja hjá, heldur verður Kópavogur að taka fullan þátt bæði hvað varðar íbúa bæjarins, fyrirtæki í bænum og stjórnsýsluna sjálfa.

Við stefnum að því að Kópavogsbær verði pappírslaust sveitarfélag – fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi!

Sækjum fram!

Fjölbreytt fyrirtæki sem skapa verðmæt störf eiga heima í Kópavogi. Starfsfólk þeirra líka. Með skilvirkari rekstur, lægri álögur, framúrskarandi þjónustu, greiðar samgöngur og skýra framtíðarsýn verður Kópavogur eftirsóttur staður til að starfrækja fyrirtæki.

Við viljum sjá Kópavog sækja fram á öllum sviðum. Kópavogur hefur forskot á höfuðborgina þegar litið er til fjárhagsstöðu, samgöngumála, almennrar þjónustu og leik- og grunnskóla. Hér liggja tækifæri sem við ætlum að nýta, því framtíðin er í Kópavogi.

Áherslurnar má skoða nánar hér.