Háskólanám á Austurlandi í fyrsta sinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, greindi frá stórum fréttum á Austurlandi í dag þar sem hún ávarpaði hátíðarfund Austurbrúar. En nú í haust verður í fyrsta sinn hægt að leggja stund á háskólanám á Austurlandi.

Um er að ræða samstarfsverkefni Austurbrúar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og það verður hægt að stunda BS nám í tölvunarfræði auk þess er í undirbúningi frekara nám í tæknifræði.

„Þetta eru gleðifréttir fyrir Austurland bæði til að hækka menntunarstig, mikilvægt tækifæri fyrir ungt fólk að stunda nám á sínu svæði og styrkja atvinnulífið. Samstarf háskólanna hefur gengið vel og efling STEAM greina og aukið samstarf fellur að mínum áherslum til að efla þekkingu, menntun og tengja nám við atvinnulíf svæða,“segir Áslaug Arna.