Förum í raunveruleg orkuskipti

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Í liðinni viku ræddum við þingmenn úttekt á stöðu og áskorunum í orkumálum, svokallaða Grænbók, á Alþingi. Niðurstöður úttektarinnar eru í raun sláandi. Íslendingar hafa sett sér háleit markmið í loftslagsmálum en fjárfestingar í orkuframkvæmdum hafa hingað til ekki fylgt þeim markmiðum eftir.

Það er til lítils að setja sér markmið ef við ætlum ekki að framkvæma þau. Við gætum þá í raun stefnt að hvaða samdrætti sem er í losun gróðurhúsalofttegunda – þess vegna 100%. Við gætum einnig lýst yfir markmiði um að ná kolefnishlutleysi eftir helgi, og að Ísland verði orðið jarðefnaeldsneytislaust núna í sumar. Ef þetta eru bara orðin tóm, ef þetta eru bara tölur á blaði skipta þessi markmið engu máli.

Það getur hver sem er skrifað upp metnaðarfull markmið, það getur hver sem er byggt skýjaborgir. En til þess að fylgja markmiðunum eftir, til þess að fylgja eftir samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, til þess að framkvæma hér raunveruleg orkuskipti – til þess að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa. Til þess þarf drifkraft og þor, til þess þarf framsýni og áræðni. Það er vonandi að íslensk stjórnvöld hafi það sem til þarf að framfylgja þessum markmiðum.

Endamark okkar er skýrt en það er verkefnalistinn líka. Það þarf að auka raforkuframleiðslu og efla flutnings- og dreifikerfi landsins. Ákall um meiri orku og orkuöryggi kemur enda úr öllum landshlutum. Það þarf að nýta orkuna betur og auka orkusparnað. Það þarf að einfalda og betrumbæta stjórnsýslu við leyfisveitingar. Og allt þetta þarf að gera í sem mestri sátt við samfélagið og náttúruna. Þótt verkefnið sé skýrt er ekki þar með sagt að það sé einfalt.

Til þess að framkvæma markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, að framfylgja raunverulegum orkuskiptum á Íslandi, þarf öll þjóðin að leggjast á eitt. Aðeins þannig náum við settum markmiðum og uppskerum afraksturinn og sátt um orkumálin á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á Vísi.is, 29. apríl