Frjálslega gengið um staðreyndir

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Kannski var ekki við öðru að búast, miðað við þinghald síðustu vikur og mánuði, en að fyrsti þingfundur eftir páska hæfist á fundarstjórn forseta. Það er orðin undantekning fremur en regla að þingfundir byrji samkvæmt dagskrá. Löngun margra í stjórnarandstöðunni til að vekja athygli á sjálfum sér virðist of sterk til að standast þá freistingu að rjúka í umræður um fundarstjórn.

Eftir umræður um fundarstjórn og óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra sl. mánudag hófst umræða um munnlega skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um sölu hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka. Þetta er í annað sinn á innan við mánuði sem ráðherra flytur þinginu munnlega skýrslu um söluna. Í þetta skipti stóð umræðan í nær 9,5 klukkutíma en í fyrra skiptið gáfu þingmenn sér tæpa fjóra tíma í umræðuna. Alls hafa því umræður um skýrslur fjármálaráðherra staðið í 13 klukkutíma og 30 mínútur. Þessu til viðbótar hefur ráðherra svarað fjölmörgum óundirbúnum fyrirspurnum um sama málefni og síðdegis í gær fór fram sérstök umræða um hlutabréfasöluna þar sem Katrín Jakobsdóttir var til svara.

Ekki verður annað sagt en að forystufólk ríkisstjórnarinnar hafi verið tilbúið til að ræða sölu á 22,5% hlut í Íslandsbanka í síðasta mánuði með opnum hætti við þingmenn auk fjölda viðtala við fjölmiðla. Slíkt er ekki aðeins eðlilegt heldur nauðsynlegt.

Stóryrði í stað málefna

Í liðinni viku vék ég að því hér á þessum stað að framkvæmd útboðsins hefði sætt harðri gagnrýni enda hefði upplýsingagjöf um útboðið og niðurstöður þess verið með þeim hætti að myndast hefði frjór jarðvegur tortryggni.

Það er rétt sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í munnlegri skýrslu sinni að það sé „vissulega tilefni til að fá allt upp á borð og gaumgæfa ferlið allt og hvað aflaga kann að hafa farið. En hér hefur ítrekað verið gengið fram með rangfærslur um lykilþætti málsins og þar sem rök skortir eru tínd til stóryrði um meinta spillingu og samsæri.“ Með stóryrðum er reynt að koma í veg fyrir málefnalega umræðu og dómar eru felldir án þess að málavextir liggi fyrir.

Dæmin eru fjölmörg síðustu vikur en hér skal eitt nefnt.

Oddný Harðardóttir og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa haldið því fram að lögum samkvæmt sé fjármálaráðherra skylt að fara yfir hvert og eitt tilboð sem berst í útboði á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka. Það hafi hann ekki gert og því brotið lög og beri að segja af sér.

Þessar fullyrðingar og ásakanir standast litla skoðun. Það er sérstaklega eftirtektarvert að Oddný Harðardóttir skuli ganga fram með þessum hætti. Hún ætti að þekkja lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum betur en flestir aðrir, þar sem hún mælti fyrir frumvarpinu sem fjármálaráðherra í september 2012.

Í framsöguræðu sagði Oddný meðal annars:

„Í frumvarpinu er lagt til að hlutverk Bankasýslu ríkisins við sölumeðferð verði meðal annars að undirbúa sölu, leita tilboða í eignarhlut, meta tilboð, annast samningaviðræður við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð.“

Í greinargerð frumvarpsins sem Oddný lagði fram og ber því ábyrgð á segir einnig:

„Gert er ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslu ríkisins að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta.“

Síðar segir í greinargerðinni:

„Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.“

Í samræmi við tilgang laga

Sem sagt: Í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem samþykkt voru að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur, er beinlínis gengið út frá því að ráðherra feli Bankasýslu ríkisins að „annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta“ í fjármálafyrirtæki. Enda er það ekki aðeins praktískt (í síðasta útboði voru tilboðin á þriðja hundrað og á liðnu ári skiptu þau tugum þúsunda), heldur í fullkomnu samræmi við tilgang laganna um að tryggja faglega og hlutlæga meðferð og armslengd. Það væri með öllu fráleitt að ráðherra færi yfir öll tilboð og tæki afstöðu til hvers og eins þeirra. Þá fyrst skapast jarðvegur fyrir tortryggni og efasemdir um að hlutlæg og fagleg sjónarmið ráði för.

Það var á grunni þessa sem Bankasýsla ríkisins sendi fjármálaráðherra bréf 22. mars sl. að loknu útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar segir m.a.:

„Bankasýsla ríkisins óskar hér með eftir því að ráðherra veiti stofnuninni heimild til að ráðast í endanlega sölu eignarhlutanna og úthlutun til bjóðenda, til samræmis við framangreint, sbr. ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 155/2012. Í því felist m.a. að forstjóra stofnunarinnar verði veitt umboð til að undirrita fyrir hönd ríkisins viðeigandi viðauka í sölusamningi (e. placement agreement) og gefa fyrirmæli um framsal hluta við uppgjör viðskiptanna svo unnt sé að ljúka sölumeðferðinni.“

Bankasýsla bendir sérstaklega á það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum um að gert sé „ráð fyrir að ráðherra geti falið Bankasýslunni að annast endanlegan frágang vegna sölu eignarhluta“.

Fjármálaráðherra féllst sama dag á tillögu Bankasýslunnar og veitti stofnuninni „umboð til að ljúka sölumeðferðinni í samræmi við hana“.

Það stendur ekki steinn yfir steini í ásökunum um að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi verið brotin. Stjórnarandstaðan virðist hins vegar ekki víla fyrir sér að beita öllum ráðum til að vinna pólitíska sigra, sem þeim tókst ekki í kosningum á liðnu hausti. En svo kann allt þetta að vera hluti af kosningabaráttu Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem telur nauðsynlegt að kastljósið beinist að öllu öðru en verkum meirihlutans í höfuðborginni.

Morgunblaðið, 27. apríl. 2022.