Faðmur hins opin­bera

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Í kjör­dæma­vikunni heim­sóttum við Sjálf­stæðis­menn í Reykja­vík m.a. verk­fræði- og ráð­gjafar­fyrir­tæki. At­vinnu­rek­endur í þeim greinum höfðu næg um­kvörtunar­efni fyrir okkur þing­menn og borgar­full­trúa og m.a. töldu þeir sig reka n.k. þjálfunar­búðir fyrir ríkis­starfs­menn. Það væri sem sagt við­varandi vanda­mál á þessum vinnu­stöðum að þegar hið opin­bera aug­lýsti eftir há­skóla­menntuðum sér­fræðingum með reynslu stykkju þeir til.

Þessar um­kvartanir eru í takt við ný­lega greiningu Sam­taka at­vinnu­lífsins sem benda á að Ís­lendingar leiti í auknum mæli í ný störf hjá hinu opin­bera meðan einka­geirinn mannar ný störf með er­lendu starfs­fólki.

Opin­berum starfs­mönnum hefur fjölgað mikið á undan­förnum árum. Sam­kvæmt tölum Hag­stofunnar voru opin­berir starfs­menn rúm­lega 60.000 á árinu 2021 eða um þriðjungur af heildar­fjölda launa­fólks í landinu. Á sama tíma hafa laun opin­berra starfs­manna hækkað hraðar en laun á al­mennum markaði. Það við­horf hefur verið ríkjandi lengst af að laun opin­berra starfs­manna eigi að vera lægri en þau sem tíðkast á frjálsum markaði. Á­stæðan er að opin­berir starfs­menn hafa notið mun betri réttinda en annað vinnandi fólk.

Réttar­staða opin­berra starfs­manna hefur styrkst en á sama tíma hafa kjör þeirra hafa batnað og þeim fjölgað mikið. Það er því ekki nema von að starfs­fólk leiti yfir í betri kjör, s.s. góð laun, meira starfs­öryggi og styttingu vinnu­vikunnar; yfir í hlýjan og öruggan faðm hins opin­bera. Tals­menn opin­bera og al­menna markaðarins líta þessa stöðu ef­laust ó­líkum augum, en á­sóknin í opin­ber störf segir sína sögu.

Þessi þróun er var­huga­verð. Frjálsi markaðurinn á að vera leiðandi í launa­þróun og öðrum starfs­kjörum. Það verður að tryggja að það sé eftir­sóknar­vert og að­laðandi að starfa þar sem verð­mæta­sköpun hag­kerfisins er, á al­mennum markaði. Hið opin­bera má ekki yfir­bjóða einka­geirann á öllum sviðum. Til lengdar skaðar það alla; líka opin­bera starfs­menn. Það er skamm­sýni að koma ekki auga á þessi sannindi. Því hver á að borga reikninginn þegar upp er staðið?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2022.