Störf án staðsetningar

Störfin heim í Fjarðabyggð

Landsbyggðin þekkir vel að með tilkomu net- og tæknivæðingar skiptir staðsetningin minna máli. Störf eru nú í meira mæli auglýst án staðsetningar, sem er ánægjuleg þróun og mun að öllum líkindum aukast með stafrænni þróun. En afhverju erum við í Fjarðabyggð þá ekki að auglýsa störf okkar án staðsetningar?

Að mínu mati þá hefur Fjarðabyggð alla burði til þess að bjóða störf án staðsetningar. Fjarðabyggð er fjölkjarnasamfélag, býr yfir mannvirkjum í byggðakjörnum sem mætti nýta betur. Með því að vinna innan byggðarkjarna fær fólk meiri sveigjanleika og frelsi eykst til muna. Einnig mun akstur milli fjarða minnka verulega og skapa umhverfislegan ávinning.

Múlinn í Neskaupstað hefur sannað gildi sitt sem skrifstofu- og aðstöðuklasi fjölbreyttrar starfsemi og við ættum að horfa meira til slíkra nýsköpunarsetra og skrifstofuaðstöðu án staðsetningar. Ráðhús gegna ekki eins veigamiklu hlutverki sem þjónustumiðstöð gagnvart almenningi eins og áður og engin þörf á aukinni yfirbyggingu þeirra.

Við höfum lært af faraldrinum síðustu tvö ár að tækifæri eru til að starfa á ólíkum starfsstöðum. Við í Fjarðabyggð ættum að vera óhrædd við að stíga þetta skref til fulls, minnka yfirbyggingu og veita sveigjanleika sem starfsfólk fær með því að starfa heiman frá sér eða í sínum byggðarkjarna.

Lykillinn er skýr stefna um uppbyggingu stafrænnar þróunar. Upplýsingabyltingin felur í sér byggðafestu framtíðarinnar. Færum ráðhús og stjórnarráðið nær fólkinu.

Jóhanna Sigfúsdóttir
Viðskiptafræðingur
Höfundur skipar 4. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð