Góðir hlutir gerast líka í skjóli nætur

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður. 

Í fyrradag átti sér stað að því er virðist prýðilegt og vel heppnað útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka, þriðja stærsta hlutabréfaútboð í sögu Íslands.

Salan á sér talsverðan aðdraganda og ekki verið neitt launungarmál að hún stæði fyrir dyrum. Það var því áhugavert að fylgjast með umræðu margra þingmanna í þingsal í gær sem virtust koma algjörlega af fjöllum þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um söluna fyrirfram í þinglegri meðferð viðkomandi þingnefnda. Sérstaklega virðist hafa komið þeim á óvart að salan færi fram með tilboðsfyrirkomulagi sem þó hafði verið boðað og hlaut alltaf að þurfa að gerast milli þess að markaðir lokuðu þar til þeir opnuðu næsta dag. Í viðtali við tvo þingmenn stjórnarandstöðunnar í fréttum RÚV í gærkvöld var þar sagt í merkingarþrungnum tón að salan hafi gerst „yfir nótt“.

Það kemur ekki á óvart að þau sem einfaldlega vilja ekki að ríkið selji hlut sinn í banka séu á móti því og þar með hvernig það var gert. Það er líka skiljanlegt að það komi öðrum sem helst vilja ekki að ríkið sé mikið að vafstra í bankarekstri undarlega fyrir sjónir að útboð hafi hafist og því lokið á nokkrum klukkustundum, eftir lokun markaða og áður en þeir opnuðu að nýju. En þarna er einfaldlega um að ræða einföldustu og áreiðanlegustu leiðina til að selja stóran eignarhlut í skráðu félagi á markaði án þess að hafa of mikil áhrif á markaðsverð. Aðferðin er notuð reglulega á hlutabréfamörkuðum um allan heim af bæði einkaaðilum og opinberum aðilum til að losa stóra hluti úr skráðum félögum á markaði.

Í viðtali við tvo þingmenn stjórnarandstöðunnar í fréttum RÚV í gærkvöld var þar sagt í merkingarþrungnum tón að salan hafi gerst „yfir nótt“.

Dreift eignarhald

Því hefur verið velt upp hvernig söluverðið er fundið en það er í grunninn með hefðbundnum hætti en einnig var útgangspunktur fyrir þessa sölu að það þyrfti að hafa meira í huga en bara hæsta verð. Það þyrfti til að mynda að reyna að tryggja dreift og heilbrigt eignarhald fyrir framtíð bankans og þá er hæsta verðið ekki eini mælikvarðinn.

Afslátturinn lægri en almennt

Í sama viðtali við þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðu þeir um að salan hefði verið á „undirverði“. Það er ekkert nema eðlilegt að setja spurningamerki við afslætti af ríkiseign en í öllum samanburði við fyrri fordæmi, útum allan heim, eru afsláttarkjörin á sölu sem þessari engan veginn óeðlileg og í raun lægri en yfirleitt. Það væri forvitnilegt að vita ef einhver telur sig hafa upplýsingar um annað.

En þarna er einfaldlega um að ræða einföldustu og áreiðanlegustu leiðina til að selja stóran eignarhlut í skráðu félagi á markaði án þess að hafa of mikil áhrif á markaðsverð.

Eðlilegt framhald

Eftir að almenningur gat tekið þátt í frumútboði í hlutum Íslandsbanka í júní 2021 er skiljanleg spurning af hverju svo var ekki að þessu sinni. Sala með tilboðsfyrirkomulagi er hluti af heildaráætlun um sölu á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka og eðlilegt framhald af frumútboðinu, eins og gert er til dæmis í mörgum öðrum Evrópulöndum þegar ríki selja hluti í bönkum.

Til að minnka markaðsáhættu og til að tryggja hæsta mögulega verð nær útboð til fagfjárfesta best þeim markmiðum. Þá sérstaklega því markmiði um dreift eignarhald var þegar að miklu leyti náð í frumútboðinu, enda fékk almenningur þá forgangsúthlutun á kostnað annarra fjárfesta. Í því útboði voru hluthafar um 23 þúsund og að langmestu leyti almennir fjárfestar sem voru að greiða langtum lægra verð en fagfjárfestarnir nú. Ef sami háttur og þá hefði verið hafður á nú hefði það verið miklu kostnaðarsamara með tilheyrandi tapi fyrir ríkissjóð. Svo má segja að almenningur taki þátt með óbeinum hætti sem sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum sem voru samkvæmt upplýsingum stærstu fjárfestarnir í sölunni nú.

Þingið hafði upplýsingar

Það er skiljanlegt að margir spyrji spurninga um stór og framandi verkefni viðskiptalegs eðlis og þá sérstaklega þegar reglur kveða á um ákveðna upplýsingaleynd. Það er líka nauðsynlegt að um slík verkefni ríki eins mikið traust og völ er á og því sjálfsagt að taka fyrir á vettvangi þingsins frekari umræðu um hvernig framkvæmdin til tókst eins og þarf. En þær eru ódýrar fullyrðingarnar og brigslyrði um myrkraverk þegar það er ekkert í þessu reglubundna ferli sem þingið átti ekki að hafa vitneskju um fyrirfram.

Innherji, 24. mars. 2022.