Sókn er besta vörnin

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Við stönd­um svo vel að búa við ákveðið for­skot þegar kem­ur að því að tak­ast á við lofts­lags­vand­ann og við okk­ur blasa mörg sókn­ar­færi í orku­skipt­um. Ári grænn­ar iðnbylt­ing­ar var ýtt úr vör af Sam­tök­um iðnaðar­ins í síðustu viku en segja má að síðasta iðnbylt­ing hafi hafi orðið á Íslandi á síðustu öld þegar við réðumst í upp­bygg­ingu á öfl­ugu raf­orku­kerfi og hita­veitu – og lögðum þannig grunn­inn að orku­sækn­um iðnaði.

Með því að byrja að nýta fall­vötn­in og jarðvarmann fyr­ir al­vöru tók­um við stórt stökk fram á við í lífs­gæðum. Frá því Búr­fells­virkj­un var tek­in í notk­un 1969 og álfram­leiðsla hófst í Straums­vík hef­ur lands­fram­leiðsla á mann vaxið um 50% meira hér á landi en ann­ars staðar í Evr­ópu. Það vill svo til, að sú bylt­ing er grund­völl­ur­inn að for­skoti okk­ar í dag þegar við erum stödd í ár­dög­um grænn­ar iðnbylt­ing­ar.

Ork­an er afl­gjafi verðmæta­sköp­un­ar og því fylgja fjöl­mörg tæki­færi, ein­mitt vegna þess að okk­ur bar gæfa til þess að virkja sjálf­bæra og end­ur­nýj­an­lega orku. Við höf­um því góðan grunn til að byggja á fyr­ir næstu iðnbylt­ingu. Við höf­um aldrei haft sterk­ari stöðu sem sam­fé­lag og höf­um staðið af okk­ur mikla storma und­an­far­in ár. Og ef rétt er á spil­um haldið mun sú iðnbylt­ing sem er að hefjast styrkja þá stöðu enn frek­ar og marka nýja lífs­kjara­sókn.

Við þurf­um – og mun­um – leggja höfuðáherslu á orku­skipti í vega­sam­göng­um, sjáv­ar­út­vegi og flug­sam­göng­um. Okk­ur hef­ur gengið vel hvað varðar ný­skrán­ing­ar raf- og ten­gilt­vinn­bíla, þar sem við erum í öðru sæti á eft­ir Norðmönn­um. En bet­ur má ef duga skal. Við höf­um stutt við innviðaupp­bygg­ingu fyr­ir raf­bíla og í höfn­um lands­ins, en eig­um þó enn nokkuð í land í þeim efn­um, og við þurf­um að huga að þunga­flutn­ing­um og bíla- og vinnu­véla­flota fyr­ir­tækja. Þess­ar lausn­ir eiga sum­ar hverj­ar eft­ir að koma fram, en því hag­stæðara sem um­hverfið er fyr­ir iðnað og ný­sköp­un því fyrr mun­um við sjá þær lausn­ir.

Við þurf­um líka að hugsa út fyr­ir kass­ann og leita fleiri leiða til að bæta lífs­kjör. Rík­is­stjórn­in hef­ur mótað þá stefnu að viðhalda end­ur­greiðslum vegna rann­sókna og þró­un­ar, íviln­un­um til grænna fjár­fest­inga og efla grunnsjóði í rann­sókn­um, ný­sköp­un og öðrum þátt­um sem ýta und­ir frek­ari fram­far­ir. Þá vilj­um við auðvelda ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um að ganga að nauðsyn­legri sér­fræðiþekk­ingu og í því skyni verður er­lend­um sér­fræðing­um auðveldað að setj­ast að hér á landi og starfa hjá ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um. Allt eru þetta skref í því að gera um­hverfið betra þannig að hægt sé að bæta lífs­kjör á Íslandi enn frek­ar. Með þekk­ingu, hug­viti, tækni – og öfl­ug­um iðnaði erum við í góðri stöðu til þess að byggja und­ir góð lífs­kjör og skapa spenn­andi starf­stæki­færi til framtíðar.

Morgunblaðið, 15. mars. 2022