Nú skal hráskinnaleikurinn endurtekinn

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Auðvitað kem­ur það ekki á óvart að eins máls flokk­ar reyndi að nýta sér inn­rás Rússa í Úkraínu til að boða hina end­an­legu og einu lausn allra vanda­mála; aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Í þeirri von að loks­ins ræt­ist draum­ur­inn er hoppað á vagn hræðslu­áróðurs. Einu sinni var það evr­an sem öllu átti að bjarga hér á landi og nú á Evr­ópu­sam­bandið að tryggja ör­yggi lands­ins gagn­vart ut­anaðkom­andi ógn.

Í Svíþjóð og Finn­landi gera æ fleiri sér grein fyr­ir því að skjólið í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um er ekki að finna í Evr­ópu­sam­band­inu held­ur með sam­vinnu við Atlants­hafs­banda­lagið og jafn­vel með fullri þátt­töku. Stuðning­ur við að Finn­land gangi í Atlants­hafs­banda­lagið hef­ur aldrei mælst meiri eða 62% sam­kvæmt skoðana­könn­un finnska rík­is­út­varps­ins. Aðeins 16% eru and­víg. Í Svíþjóð hef­ur stuðning­ur við aðild aldrei verið meiri og í fyrsta skipti eru fleiri fylgj­andi aðild en eru gegn henni.

Ástæðan er ein­föld. Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og eig­in her er ekki nægj­an­leg trygg­ing í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um í huga al­menn­ings og stjórn­mála­manna. Rúss­nesk stjórn­völd hafa hins veg­ar í hót­un­um við frændþjóðir okk­ar.

Þegar frjáls­ar þjóðir verða efna­hags­lega og póli­tískt háðar landi sem stjórnað er af hrotta, sem hef­ur leik­regl­ur lýðræðis að engu og virðir full­veldi ná­granna­ríkja að vett­ugi, eiga þær á hættu að verða ber­skjaldaðar gagn­vart yf­ir­gangi. Leiða má rök að því að Pútín hafi nýtt sér sinnu­leysi og full­komið ábyrgðarleysi þjóða Evr­ópu­sam­bands­ins og þá sér­stak­lega Þýska­lands í orku­mál­um. Kæru­leysi og barna­skap­ur for­ystu­ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins í varn­ar­mál­um á síðustu ára­tug­um hef­ur op­in­ber­ast með af­ger­andi hætti eft­ir inn­rás­ina í Úkraínu. Sam­bandið hef­ur hvorki hernaðarlega burði né póli­tískt þrek til að tryggja varn­ir aðild­ar­landa. Öryggi Evr­ópu og þar með Evr­ópu­sam­bands­ins bygg­ist á öfl­ugu varn­ar­sam­starfi Atlants­hafs­banda­lags­ins.

Ákall til fé­lags­hyggju­fólks

Á flokks­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um liðna helgi var formaður­inn með ákall til svo­kallaðra fé­lags­hyggju­flokka. Fé­lags­hyggju­fólk verði að sam­ein­ast og hætta að stofna nýja og nýja flokka. Aðeins verði hægt að þjappa fé­lags­hyggju­fólki í færri flokka með umb­urðarlyndi sem mögu­lega hafi skort á. „Vegna þess að við mun­um ekki ná ár­angri með því að stofna nýja og nýja flokka, oft utan um áhuga­mál ein­stakra stjórn­mála­manna,“ sagði Logi Ein­ars­son. Og kannski í anda sam­stöðu og umb­urðarlynd­is vill formaður­inn „end­ur­nýja sam­fé­lags­lega umræðu“ um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. „Um er að ræða grund­vall­ar­hags­muni þjóðar­inn­ar og það er tími til kom­inn að setja aðild­ar­um­sókn að Evr­ópu­sam­bandi aft­ur ræki­lega á dag­skrá.“

Seint verður hægt að halda því fram að vinstri­menn – fé­lags­hyggju­fólk – geti sam­ein­ast um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, enda um „áhuga­mál ein­stakra stjórn­mála­manna“ og tveggja syst­ur­flokka að ræða. En ESB-sinn­ar telja að í skugga stríðs í Evr­ópu sé lag – þeir hafi fengið svipað tæki­færi og gafst en gekk þeim úr greip­um þegar bank­arn­ir hrundu og þjóðin gekk í gegn­um mikl­ar efna­hags­leg­ar þreng­ing­ar.

Þegar vinstri­stjórn tók við völd­um í fe­brú­ar 2009 fékk Sam­fylk­ing­in al­gjört for­ræði yfir ut­an­rík­is­mál­um. Stefn­an var tek­in á Brus­sel. Mik­il­væg hags­muna­mál, þar á meðal ör­ygg­is- og varn­ar­mál, voru sett til hliðar. Allt sner­ist um aðild að ESB. Komið var í veg fyr­ir þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild­ar­um­sókn­ina líkt og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn lagði til í þings­álykt­un­ar­til­lögu.

Eft­ir kosn­inga­sig­ur í apríl herti vinstri­stjórn­in róður­inn. Byggðar voru upp óraun­hæf­ar vænt­ing­ar. Full­yrt var að Ísland fengi sér­staka flýtimeðferð og gæti jafn­vel orðið eitt ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þegar árið 2012. Í stefnuræðu í maí 2009 full­yrti for­sæt­is­ráðherra að aðild­ar­um­sókn­in myndi stuðla strax að já­kvæðum áhrif­um á gengi krón­unn­ar og á vexti. Eft­ir því sem aðild­ar­ferl­inu miðaði áfram því meiri yrðu já­kvæðu áhrif­in. Al­menn­ing­ur komst að öðru.

Ut­an­rík­is­ráðherra lýsti yfir „diplóma­tísk­um“ sigri eft­ir að ráðherr­aráð ESB samþykkti aðild­ar­um­sókn Íslands í júlí 2009. „Diplóma­tíski sig­ur­inn“ skilaði engu, allra síst í efna­hags­mál­um.

End­ur­sýn­ing

Ef marka má frétt­ir af flokks­stjórn­ar­fundi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um helg­ina og orðum for­manns er ljóst að reynt verður að setja aft­ur á fjal­irn­ar póli­tíska leik­sýn­ingu sem stóð yfir í fjög­ur ár frá 2009. Þá var reynt að telja al­menn­ingi trú um að í gangi væru sér­stak­ar samn­ingaviðræður milli Íslands og Evr­ópu­sam­bands­ins. Byggt var und­ir þá trú að Íslend­ing­ar gætu samið um breytt reglu­verk Evr­ópu­sam­bands­ins. For­ystu­menn vinstri­stjórn­ar­inn­ar vissu bet­ur og þá ekki síst ut­an­rík­is­ráðherra en á upp­lýs­ingasíðu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins sagði meðal ann­ars:

„Hvor aðili um sig, um­sókn­ar­ríkið og ESB, hafa sín samn­ings­mark­mið og af hálfu um­sókn­ar­rík­is snúa þau vana­lega fyrst og fremst að því að fá að njóta ákveðins sveigj­an­leika við að taka upp lög og stefnumið ESB.“

Í skýrslu Evr­ópuþings­ins í apríl 2011 kom fram að stein­ar væru í götu aðild­ar­um­sókn­ar Íslands; Ices­a­ve, hval­veiðar og löng­un Íslend­inga til að verja sjáv­ar­út­veg og land­búnað. Evr­ópuþingið hvatti ís­lensk stjórn­völd til að aðlaga lög um fisk­veiðar regl­um innri markaðar Evr­ópu­sam­bands­ins.

Hér verður feigðarför vinstri­stjórn­ar­inn­ar ekki rak­in en um miðjan janú­ar 2013 var gef­ist upp og aðild­ar­viðræðurn­ar sett­ar á ís. Þá var aðeins búið að ljúka viðræðum um ell­efu kafla í lög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins, viðræður stóðu yfir um sex­tán kafla, búið var að móta samn­ingsaf­stöðu Íslands í tveim­ur köfl­um en viðræður ekki hafn­ar. Svo­kölluð samn­ings­mark­mið ís­lenskra stjórn­valda voru ekki til­bú­in í fjór­um köfl­um, þar á meðal um sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­mál. Lang­mik­il­væg­ustu hags­muna­mál Íslend­inga sátu alla tíð á hak­an­um í viðræðunum enda þjónaði það illa póli­tísku mark­miði Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Hrá­skinna­leik­ur vinstri­stjórn­ar­inn­ar und­ir for­ystu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var til­raun til að stilla lands­mönn­um upp við vegg. Íslend­ing­ar ættu ekki aðra kosti en að ganga í Evr­ópu­sam­bandið til að byggja aft­ur upp efna­hags­lífið eft­ir fall viðskipta­bank­anna árið 2008. End­ur­reisn ís­lensks efna­hags­lífs tókst utan Evr­ópu­sam­bands­ins og það með betri og öfl­ugri hætti en í flest­um lönd­um Evr­ópu. Nú ætl­ar for­ysta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að reyna sama leik og nýta inn­rás Rússa í Úkraínu. Eða eins og þeir segja: „The show must go on.“

Morgunblaðið, 16. mars. 2022.