Eflum netöryggi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Það hljómar eflaust ekki vel að lesa um framþróun á hertækni yfir kaffibollanum á laugardagsmorgni, en það er þó þannig að hún hefur áhrif á líf okkar með svo margvíslegum hætti eins og við höfum verið minnt á síðustu daga. Í fyrri heimsstyrjöldinni komu fram tæki á borð við skriðdreka og flugvélar sem ollu töluverðum skaða og gerðu stríðið blóðugra en gert hafði verið ráð fyrir. Í seinni heimsstyrjöldinni höfðu bæði tæki þróast ásamt kafbátum sem aftur ollu miklum skaða. Þá var mikið lagt upp úr því að eyðileggja innviði annarra ríkja, svo sem brýr, vegi, flugvelli, hafnir og fleira – og kafbátar reyndu að stöðva vöruflutninga á milli bandalagsþjóða. Allt hafði þetta, eðli málsins samkvæmt, áhrif á daglegt líf fólks.

Eins og gefur að skilja er það yfirleitt almenningur sem með ýmsum hætti líður mest fyrir stríðsátök. Það er ekki ætlun mín hér að rita söguskýringu um stríðsátök. Það verður þó ekki hjá því komist að velta upp atriðum sem snúa að daglegu lífi okkar, nú þegar við okkur blasir breytt heimsmynd þar sem fyrirsagnir í fjölmiðlum minna helst á hugmyndafræði fyrri alda en þann raunveruleika sem við höfum vanist.

Átök nútímans fara líka fram á netinu þar sem tilgangurinn er að valda sem mestum skaða með því að ráðast á og eyðileggja þessa mikilvægu innviði og fjarskiptaleiðir. Við erum háð netinu á nær alla vegu, í starfi, í námi, í samskiptum við vini og kunningja, í innkaupum, upplýsingum, vörslu heilsufarsupplýsinga og þannig mætti lengi áfram telja. Þess vegna verðum við að tryggja netöryggi með öllum þeim leiðum sem okkur eru færar. Stjórnvöld hafa sett lög um vernd persónuupplýsinga og um sérstakar aðgerðir til að verja mikilvæga upplýsingainnviði á borð við fjármála-, orku- og fjarskiptakerfin og unnið er að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í netöryggismálum.

Það að gögn um okkur séu örugg og að rafrænar þjónustuleiðir séu opnar skiptir okkur miklu máli. Þó svo að Ísland sé ekki hernaðarlegt skotmark í þeim skilningi erum við ekki eyland þegar kemur að netöryggismálum. Hið opinbera þarf því að leggja áherslu á að tryggja mikilvæga innviði og jafnframt þétta raðirnar með atvinnulífinu til að efla viðspyrnu gegn stuldi hugverka og öðru arðráni með netárásum. Það þarf ekki erlent ríkisvald eða her þess til að gera viðamiklar netárásir. Til þess þarf lítið annað en lágmarksþekkingu og oft lítið fjármagn. Aftur á móti þarf mikla þekkingu, gott skipulag og mikið fjármagn til að búa til öflugar varnir gegn netárásum. Með auknu samstarfi þjónustufyrirtækja í upplýsingatækni, hins opinbera og atvinnulífsins má lyfta grettistaki til að efla net- og upplýsingaöryggi fyrirtækja og stofnana. Því verkefni þurfum við að sinna af heilum hug enda mikið undir.

Morgunblaðið, 5 mars.