Við stöndum með frelsi, mannréttindum og lýðræði

„Umfangsmikil innrás Rússa inn í Úkraínu hófst í nótt. Þetta er atburðarás sem allir vonuðu að yrði aldrei en margir óttuðust. Íslensk stjórnvöld hafa í dag fordæmt árásirnar harðlega.

Ljóst er að hér er einvörðungu við Pútín að sakast. Hann einn ber fulla ábyrgð á þeirri ískyggilegu stöðu sem komin er upp í öryggismálum Evrópu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í bréfi til sjálfstæðisfólks í dag.

Þar segir hún að hugurinn sé auðvitað fyrst og fremst hjá því saklausa fólki sem verður fyrir barðinu á stríðsrekstri og ógnartilburðum Rússa í Úkraínu.

„Þessir atburðir minna okkur þó einnig á mikilvægi þess að smáar þjóðir eins og við Íslendingar geti treyst á að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og að alþjóðlega viðurkennd landamæri og lögsaga séu virt,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún minnist þess þegar Bjarni Benediktsson undirritaði Atlantshafssáttmálann árið 1949 þar sem hann sagði Íslendinga vilja heyra til því frjálsa samfélagi þjóða frjálsra þjóða sem þá hafi verið stofnað.

„Þetta á einnig við í dag, rúmlega 70 árum síðar. Nú myndast að nýju hugmyndafræðilegar átakalínur í heiminum þar sem mikilvægt er að standa vörð um samfélag lýðræðis, mannréttinda og einstaklingsfrelsis. Á undanförnum árum hefur smám saman orðið skýrara að sterk öfl eru á öndverðum meiði við þessi gildi. Hugmyndir um kosti miðstýrðra samfélaga, sem lúta afgerandi stjórn fámennra hópa, eða jafnvel eins manns, hafa á ný skotið rótum víða og eru jafnvel álitnar áhugaverður valkostur við hið lýðræðislega og frjálsa samfélag. Árás Rússa á Úkraínu er birtingarmynd þessara átaka, því almenningur í Úkraínu hefur viljað auka tengsl sín til vesturs fremur en austurs,“ segir hún og: „Í þessum átökum vefst ekki fyrir Íslandi — allra síst okkur Sjálfstæðismönnum — hvorum megin við þessa hugmyndafræðilegu gjá við skipum okkur. Við stöndum með frelsi, mannréttindum og lýðræði.“

Hún segir Íslendinga fylkja sér staðfastlega í lið með okkar bandalagsríkjum og nánustu samstarfsríkjum og að við tökum fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum sem verða útfærðar á næstu dögum.

„Ísland er herlaust land en okkur ber skylda til að leggja það af mörkum sem við getum. Í því skyni skiptir miklu að bjóða upp á góða aðstöðu fyrir bandalagsríki okkar. Við höfum þar að auki tilkynnt um 200 þúsund evru framlag til áætlunar Atlantshafsbandalagsins og Úkraínu um þróun sérfræðiþekkingar á sviði öryggis- og varnarmála (NATO Ukraine Professional Development Programme). Þá tilkynnti ég í dag um einnar milljón evru framlag til mannúðarmála í Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir einnig ljóst að dagurinn í dag marki dapurleg tímamót. Nú sé ekki lengur neinn vafi á að Pútín Rússlandsforseta sé ekki treystandi og að hann sé til alls vís.

„Varnarsamnningurinn við Bandaríkin og aðildin að Atlantshafsbandalaginu eru hornsteinar okkar öryggisstefnu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um þessa hornsteina í gegnum áratugina. Nú finnum við áþreifanlega fyrir mikilvægi þess,“ segir Þórdís Kolbrún.