Kaupmáttur aukist í heimsfaraldri: „Það er í raun og veru ótrúlegt“

„Ég sagði hér á fyrstu dögum þessa heimsfaraldurs að það væri mín skoðun að við þyrftum að gera meira frekar en minna, að tjónið af því að gera of lítið gæti verið meira en umframkostnaðurinn af því að gera mögulega aðeins of mikið. Þetta hefur mjög mikið breyst. Nú sjáum við að margar vélar atvinnulífsins eru á fullum snúningi,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í umræðum á Alþingi um horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19.

Hann sagði áhrif heimsfaraldursins koma niður á afmörkuðum sviðum, „í ferðaþjónustu og í veitingaþjónustu og tengdum greinum, eins og við ræðum þessar vikurnar, en annars staðar hefur bara verið nokkuð góður þróttur í hagkerfinu. Það segir mér að okkur hefur tekist vel til við að stilla efnahagsaðgerðir í samræmi við aðstæður, fleyta okkur yfir erfiðasta tímann, tryggja að þessi nauðsynlega viðspyrna sé til staðar þegar ský dregur frá sólu að nýju,“ sagði Bjarni

Hann sagði að þrátt fyrir mikið efnahagsáfall hafi ráðstöfunartekjur fólk aukist og kaupmáttur vaxið.

„Það er í raun og veru ótrúlegt. Kaupmáttur hefur vaxið í gegnum þennan heimsfaraldur og hann hefur aldrei verið meiri, ekki einu sinni hjá þeim tekjulægri. Gjaldþrot fyrirtækja — einhver hefði haldið að þau yrðu mjög áberandi í hagkerfinu í gegnum heimsfaraldur. En nei, þau eru ekki fleiri en í venjulegu árferði. Og ólíkt því sem gerst hefur víða annars staðar hefur faraldurinn ekki leitt til aukins tekjuójafnaðar og þó erum við að tala um það hagkerfi sem fyrir var með einn mesta tekjujöfnuð í hinum þróaða heimi,“ sagði Bjarni.

Ræðu Bjarna í heild má finna hér.