Borgarlína eða Sundabraut

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Samkvæmt nýútkominni skýrslu Vegagerðarinnar yrði arðsemi af lagningu Sundabrautar einhver sú mesta sem um getur í sögu samgönguframkvæmda hér á landi. Þessi niðurstaða staðfestir það sem flestum hefur lengi verið ljóst.

Frestum ekki arðsömum framkvæmdum

Að öllu jöfnu ber að flýta eins og kostur er þeim opinberu framkvæmdum sem sýna mikla þjóðhagslega hagkvæmni svo samfélagið fái sem fyrst notið góðs af þeim. Þess vegna varð það eitt af mínum fyrstu verkum sem borgarfulltrúi að flytja tillögu í borgarstjórn um Sundabraut árið 2017. Þar var lagt til að borgaryfirvöld hæfu viðræður við innanríkisráðuneytið um Sundabraut í því skyni að vinna að arðsemismati og kostnaðargreiningu, ákvarða endanlega útfærslu og legu brautarinnar og tímasetja framkvæmdina. Tillaga mín var samþykkt og ári síðar hófust viðræður borgarstjóra og samgönguráðherra um ágreining ríkis og borgar í samgöngumálum. Þær leiddu af sér þann rekspöl sem Sundabraut er nú komin á.

Beðið eftir skóflustungu í 27 ár

Undirbúningsvinna við lagningu Sundabrautar hófst 1995. Hún var forsenda þess að ráðist var í íbúðabyggð í Grafarvogi 1982 og að Kjalarnes sameinaðist Reykjavík 1997. Þá var ljóst að hún yrði arðbærasta samgöngubót sem ráðist yrði í hér á landi, enda var þá stefnt að því að fyrri hluti hennar, yfir Kleppsvíkina, yrði tilbúinn 2002. Nú, 20 árum síðar, hefur enn ekki verið tekin fyrsta skóflustungan af þessu þjóðþrifaverkefni. Ástæðan er sú að vinstri menn hafa haft meirihluta í borgarstjórn nánast samfellt frá 1994, að Dagur B. Eggertsson hefur verið allsráðandi í skipulagi Reykjavíkur frá 2010, verið borgarstjóri frá 2014 og var formaður Samgönguráðs ríkisins 2007-2013?

Er Dagur með eða á móti Sundabraut?

Dagur hreykir sér af því í bók sinni, Nýja Reykjavík, að hann og Sigurður Ingi hafi komið Sundabraut aftur í traustan farveg. En hún er þar ekki fyrir pólitískan vilja Dags, heldur þrátt fyrir andstöðu hans við Sundabraut. Hún var ekki lögð – heldur lögð á ís í tuttugu ár Reykvíkingum og landsbyggðinni til ómælds óhagræðis. Meginágreiningur ríkis og borgar í samgöngum Reykjavíkur hefur verið sá að ríkið vill að unnið sé samhliða að samgöngubótum á stofnbrautum, í almenningssamgöngum og fyrir gangandi og hjólandi. En borgaryfirvöld vilja að stofnbrautir sitji áfram á hakanum svo hægt verði að þvinga sem flesta farþega fjölskyldubíla í Borgarlínu. Það er engin tilviljun að hver kaflinn á fætur öðrum í bók Dags er helgaður Borgarlínu og þéttingu byggðar á meðan Sundabraut fær þar þrjá undirkafla upp á fimm blaðsíður í 350 blaðsíðna riti. Það er engin tilviljun að Dagur vildi ekki að minnst yrði einu orði á Sundabraut í Samgöngusáttmálanum. Hann er á móti Sundabraut af tveimur meginástæðum: Hún dreifir umferð og léttir þar með mjög á stofnbrautakerfi sem hefur verið haldið í svelti frá 2012, og hún opnar fyrir framtíðarbyggingarland borgarinnar norður með ströndinni í átt að Kjalarnesi.

Sundabraut og Borgarlína

Nú er Sundabraut aftur komin á rekspöl en það er sá kostnaður sem Dagur þarf að greiða fyrir stuðning ríkisins við drauma hans um Borgarlínu. Þar er ólíku saman að jafna: Annars vegar arðbærustu samgöngubótum sem völ er á hér á landi, en hins vegar draumórum hans sem hafa flotið á óskhyggju einni saman. Á blaðsíðu 313 í bók Dags segir m.a.: „Í öðru lagi hafði hin ítarlega greining á framtíðarþörfum höfuðborgarsvæðisins fyrir innviði sannfært mig og aðra um að Sundabraut væri engan veginn jafn mikilvæg og Borgarlína, stokkarnir og heildstætt hjólreiðastíganet.“ Dagur fer sínar leiðir í því að meta framkvæmdir. En ætli hann sé reiðubúinn að bera saman arðsemismat Sundabrautar og Borgarlínu?

Að opna eða loka leiðum

Það kveður svo við annan tón til Sundabrautar í grein Sigurðar Inga Jóhannssonar í Fréttablaðinu 9. júlí sl. Þar segir m.a.: „Sundabraut mun gjörbreyta umferðarmynstri höfuðborgarinnar, mynda góða tengingu á milli borgarhverfa og landshluta, létta á umferð í gegnum Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku og styrkja öryggisleiðir út úr borginni. Yfirlýsing ríkis og borgar um Sundabraut markar tímamót því nú getum við brett upp ermar og hafist handa við að búa til tignarlegt kennileiti í borginni með Sundabrú.“ Hér mætti halda að Sigurður Ingi væri borgarstjórinn í Reykjavík, en Dagur B. dragbítur ríkisins.

Hvort ætli borgarbúar hlakki nú fremur til að lokað verði fyrir tvær akgreinar Suðurlandsbrautar fyrir almennri umferð, eða þá að Sundabraut leysi að miklu leyti umferðarhnúta á álagstímum og opni borgarbúum nýja leið í efri byggðir borgarinnar og út úr bænum. Ætli borgarbúar vilji ekki fremur opna leiðir en loka þeim.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2022.