Tækifærin liggja í lausnunum

Guðlaugur Þór Þórðarson um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra:

Lofts­lags­mál eru orðin miðlæg í umræðu stjórn­mál­anna jafnt á Íslandi sem á alþjóðavísu. Hlýn­un loft­hjúps­ins um­fram þau mörk sem voru sett í Par­ís­ar­samn­ingn­um myndi raska vist­kerfi jarðar og efna­hagi og sam­fé­lagi manna. Það er því til mik­ils vinn­andi að halda hlýn­un inn­an við 2 gráður á Cel­síus og helst inn­an við 1,5 gráður.

Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt ný og metnaðarfull mark­mið um minnk­un los­un­ar nú á nýju kjör­tíma­bili. Los­un á að minnka um 55% fyr­ir árið 2030 miðað við 2005. Ísland á að vera orðið kol­efn­is­hlut­laust árið 2040, sem þýðir að los­un verði þá minni en upp­taka kol­díoxíðs úr and­rúms­loft­inu. Mark­miðin eru studd af yf­ir­grips­mik­illi aðgerðaáætl­un og stór­aukn­um fram­lög­um til lofts­lags­mála. Á nýju kjör­tíma­bili er ætl­un­in að gera enn bet­ur. Það verður ekki létt verk, en ég geng glaður til þess sem nýr ráðherra lofts­lags­mála.

Lofts­lags­vand­an­um hef­ur verið lýst sem flókn­asta viðfangs­efni sem mann­kynið hef­ur staðið frammi fyr­ir. Los­un gróður­húsaloft­teg­unda er samof­in hag­kerf­inu og dag­legu lífi okk­ar. Bruni jarðefna­eldsneyt­is er stærsta ein­staka upp­spretta los­un­ar á heimsvísu. Kol og olía hafa verið afl­gjafi iðnvæðing­ar og bættra lífs­kjara, en nú þarf að byggja á orku­sparnaði og end­ur­nýj­an­leg­um orku­lind­um. Það fer því vel á því að sam­eina lofts­lags- og orku­mál í einu ráðuneyti á Íslandi, eins og mörg önn­ur ríki hafa gert. Ég tel að þar liggi tæki­færi til að ná ár­angri í lofts­lags­mál­um og jafn­framt til upp­bygg­ing­ar og ný­sköp­un­ar.

Nor­ræn fyr­ir­tæki sjá tæki­færi í lofts­lags­lausn­um

Nú fyr­ir skömmu ávarpaði ég viðburð þar sem kynnt var ný skýrsla um þátt at­vinnu­lífs­ins í lofts­lags­mál­um á Norður­lönd­un­um. Skýrsl­an var byggð á viðtöl­um við for­stjóra 40 fyr­ir­tækja á Norður­lönd­un­um, sem mörg eru um­svifa­mik­il á heimsvísu og leiðandi á sínu sviði. Sam­hljóm­ur var meðal okk­ar ráðherra Norður­land­anna um að frum­kvæði fyr­ir­tækja og góð sam­vinna stjórn­valda og at­vinnu­lífs væri lyk­ill að ár­angri.

For­stjór­arn­ir voru sam­mála um að lofts­lags­vá­in væri aðkallandi og að lofts­lags­breyt­ing­ar skiptu fyr­ir­tæk­in máli — vegna ábyrgðar þeirra, ímynd­ar og þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Nokkr­ir nefndu sér­stak­lega að þeir sæju tæki­færi í stöðunni. Hvernig má það vera að „tæki­færi“ séu tengd við hnatt­ræna ógn? Svarið er að sjálf­sögðu að tæki­fær­in liggja ekki í ógn­inni, held­ur í lausn­un­um sem hún kall­ar á. Stjórn­völd þurfa að setja kúrsinn og þau hafa ýmis ráð til að bregðast við lofts­lags­vánni. Rík­is­valdið eitt nær hins veg­ar tak­mörkuðum ár­angri. Við þurf­um að virkja þann drif­kraft og mann­vit sem býr í fyr­ir­tækj­um.

Norður­lönd­in standa framar­lega á mörg­um sviðum lofts­lagsvænn­ar tækni og lausna. Dæm­in eru mörg en t.d. má nefna leiðandi stöðu danskra fyr­ir­tækja í nýt­ingu vindorku. Nor­ræn fyr­ir­tæki telja sig geta hjálpað stjórn­völd­um að ná mark­miðum heima fyr­ir, en einnig hugsa þau flest á heimsvísu: Vand­inn er hnatt­rænn og markaður fyr­ir lofts­lagsvæn­ar lausn­ir er alþjóðleg­ur. Það er mik­il­vægt fyr­ir stjórn­mála­menn að kynna sér sýn fyr­ir­tækja í lofts­lags­mál­um og vinna með þeim.

Ísland get­ur verið leiðandi í hrein­um orku­skipt­um

„Ísland — best í heimi!“ var slag­orð í vin­sæl­um aug­lýs­ing­um, sem oft er gripið til þegar menn vilja gera góðlát­legt grín að kapps­fullu þjóðarstolti. Ekki ætla ég að halda því fram að Ísland sé best í heimi í lofts­lags­mál­um. Við get­um gert bet­ur og lært af öðrum, ekki síst af hinum Norður­landaþjóðunum. Engu að síður er það staðreynd að á sviði hreinn­ar orku hafa fáar þjóðir náð jafn langt og Íslend­ing­ar. End­ur­nýj­an­leg­ar orku­lind­ir sjá okk­ur fyr­ir nær allri raf­orku og hús­hit­un, sem er ein­stök staða. Vissu­lega eig­um við gnótt af jarðvarma og vatns­föll­um, en við hefðum ekki náð þess­um ár­angri nema fyr­ir hug­vit og elju sér­fræðinga, stofn­ana og fyr­ir­tækja. Það ber að þakka og á því þarf að byggja.

Því má raun­ar halda fram með rök­um að ekk­ert fram­lag Íslend­inga til lausn­ar lofts­lags­vand­an­um vegi þyngra en nýt­ing hreinn­ar orku og út­flutn­ing­ur þekk­ing­ar á því sviði, auk þátt­töku í verk­efn­um er­lend­is á sviði jarðhita og á skyld­um sviðum. Það er ekki auðvelt að kasta tölu á lofts­lags­ávinn­ing­inn af því starfi, en hann er ær­inn. Þarna eig­um við Íslend­ing­ar mikla sér­stöðu og mörg sókn­ar­færi.

Íslenskt at­vinnu­líf er ekki eft­ir­bát­ur í nor­rænu sam­hengi þegar kem­ur að lofts­lags­mál­um. Græn­vang­ur er sam­starfs­vett­vang­ur at­vinnu­lífs og stjórn­valda sem vinn­ur að orku­skipt­um og græn­um lausn­um. Ísland hef­ur að mörgu leyti góða ímynd í lofts­lags­mál­um á heimsvísu, sem get­ur nýst bæði land­inu og at­vinnu­líf­inu — en það þarf áfram að vera inni­stæða fyr­ir ímynd­inni og hún fæst ekki nema með elju og sam­eig­in­legu átaki. Ég hef trú á mætti einkafram­taks­ins og krafti at­vinnu­lífs­ins í þessu verk­efni eins og mörg­um öðrum. Við eig­um að setja markið hátt — jafn­vel að Ísland verði „best í heimi“ og nái hrein­um orku­skipt­um til fulls á und­an öðrum. Það mun ekki nást með stjórn­valds­fyr­ir­mæl­um ein­um. Ég vil efla sam­tal stjórn­valda og at­vinnu­lífs í lofts­lags­mál­um og er sann­færður um að það sé far­sæl leið til að ná okk­ar metnaðarfullu mark­miðum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. janúar 2022.