Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddi við heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson um sóttvarnaraðgerðir á Alþingi í dag og lagði áherslu á virkari aðkomu löggjafans að ákvörðunum um sóttvarnaraðgerðir ásamt velferð barna og ungmenna þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda vegna Covid-19.
„Það er löngu tímabært að ríkisstjórn og þing taki að sér sínar lögboðnu og lýðræðislegu skyldur og taki forystu í því að leiða íslenskt samfélag út úr þessum ógöngum,“ sagði Diljá Mist og bætti við að þó hlutverk og forysta sóttvarnarlæknis og þríeykisins hafi verið ómetanlegt í upphafi faraldurs hafi allaf legið fyrir að taka þyrfti völdin aftur inn á svið stjórnmálanna og sá tími væri kominn.
Þingmaðurinn minnti ráðherra á það að vernd viðkvæmra hópa í faraldrinum tæki ekki bara til þeirra sem viðkvæmir væru fyrir Covid-19 smiti heldur væri þar einnig undir fólk með andlega erfiðleika eða fólk sem glímdi við fíknisjúkdóma og hefði ekki haft aðgengi að lífsbjargandi meðferðum vegna takmarkana.
Líf og heilsa barna
Diljá Mist beindi því jafnframt til heilbrigðisráðherrans að hann hefði forystu um það að ekki yrði gengið svo freklega á mikilvæg réttindi barna, á líf þeirra og heilsu, til þess að vernda aðra en þau sjálf.
„Ég vil hvetja heilbrigðisráðherra til að ganga lengra í hagsmunagæslu fyrir börnin okkar. Að standa við það sem hann segir um að vernda líf og heilsu þeirra. Nú hafa þúsundir barna verið skikkuð í ítrekaða sóttkví og einangrun árum saman. Ekkert lát hefur orðið á því heldur þvert á móti. Þessa stundina er verið að kippa börnum í hrönnum út úr daglegu lífi og rútínu. Fyrir alltof mörg börn þýðir það einvera og bjargarleysi í skaðlegum aðstæðum heima fyrir,“ sagði Diljá.
Það væri einnig með öllu óeðlilegt að skólastjórnendur ynnu dag og nótt að smitrakningu barna og tækju í raun stjórnvaldsákvarðanir um sóttkví þeirra. Ekki sé kunnugt að sá háttur sé hafður á í neinum af okkar nágrannalöndum. „Nú er brýnt að skólastjórnendur og kennarar geti sinnt menntun barnanna okkar og að horfið verði frá því að beita börn ítrustu takmörkunum.“