Eru spurningar ekki leyfðar?

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

„Við erum að klára tvö ár af tíma­bili þar sem við tók­um ákveðin borg­ara­leg rétt­indi að láni og við ætl­um að skila þeim aft­ur og það er al­veg allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kom­inn.“

Þessi orð bera ekki með sér að sú er lét þau falla sé með öfga­full­ar skoðanir held­ur þvert á móti. Ég er sann­færður um að um­mæl­in end­ur­spegli ágæt­lega hugs­un yf­ir­gnæf­andi meiri hluta ís­lensku þjóðar­inn­ar. Engu að síður virðast þau hafa komið illa við ein­hverja og einn þekkt­asti lækn­ir lands­ins sá sig knú­inn til að skrifa langt mál á vef­miðil til að veit­ast harka­lega að þeim sem leyfði sér að segja það upp­hátt sem flest­ir hugsa (ég vona það að minnsta kosti).

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ut­an­rík­is­ráðherra og vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hef­ur vanið sig á að koma hreint til dyr­anna. Eft­ir rík­is­stjórn­ar­fund síðasta föstu­dag, þar sem ákveðið var að herða sam­komutak­mark­an­ir enn frek­ar, svaraði Þór­dís Kol­brún frétta­manni Rík­is­út­varps­ins með eft­ir­far­andi hætti:

„Ég skil vel verk­efni heil­brigðisráðherra sem er erfitt og mik­il ábyrgð sem því fylg­ir og þegar hann fær meld­ing­ar um að spít­al­inn ráði ekki við verk­efnið þá er mik­ill ábyrgðar­hluti að bregðast við því þannig að ég reyni hvað ég get til að hafa skiln­ing á því en bið líka um skiln­ing á því að það er eðli­legt að spyrja spurn­inga. Við erum að klára tvö ár af tíma­bili þar sem við tók­um ákveðin borg­ara­leg rétt­indi að láni og við ætl­um að skila þeim aft­ur og það er al­veg allt í lagi að spyrja hvenær sá tími er kom­inn.“

Stjórn­mála­kon­ur gagn­rýnd­ar

Um­mæl­in fóru illa í Tóm­as Guðbjarts­son, hjartask­urðlækni á Land­spít­al­an­um, sem fann sig enn og aft­ur knú­inn til að gagn­rýna þær stjórn­mála­kon­ur sem telja nauðsyn­legt að leita svara við áleitn­um spurn­ing­um. Í pistli á Vísi seg­ir Tóm­as að við þær aðstæður „sem nú ríkja á Land­spít­ala eru orð ut­an­rík­is­ráðherra… illa ígrunduð og tíma­setn­ing­in óheppi­leg“. Hann seg­ist geta full­vissað ráðherr­ann um að tím­inn til að skila aft­ur borg­ara­leg­um rétt­ind­um sé ekki kom­inn. Hann svar­ar hins veg­ar í engu hvenær eða við hvaða aðstæður slíkt sé tíma­bært.

Lát­um vera að Tóm­as Guðbjarts­son líti fram hjá því að spár um inn­lagn­ir vegna Covid hafa ekki gengið eft­ir – inn­lagn­ir eru tölu­vert færri en spár sem sagðar voru byggðar á bjart­sýni. Og lát­um það einnig vera að lækn­ir­inn ger­ir ekk­ert með að ómíkron-af­brigðið, sem nú hef­ur tekið yfir í smit­um, er væg­ara og svip­ar frem­ur til hefðbund­inn­ar flensu en hættu­legr­ar far­sótt­ar. En það er ábyrgðar­hluti að beita penna til að kynda und­ir hræðslu sam­ferðafólks í stað þess að auka til­trú og traust á gott heil­brigðis­kerfi. Því miður hafa of marg­ir lækn­ar sem ég hef mæt­ur á fallið í þessa gryfju með svipuðum hætti og fjöl­miðlung­ar.

En hversu illa ígrunduð voru um­mæli ut­an­rík­is­ráðherra og hversu óheppi­leg var tíma­setn­ing­in? Ja, stjórn­mála­menn (og raun­ar lækn­ar einnig) hafa að minnsta kosti oft verið óheppn­ari með tíma­setn­ing­ar. Nokkr­um dög­um áður var greint frá því að Carol­ina Dari­as, heil­brigðisráðherra Spán­ar, hefði lýst því yfir að þörf væri á nýj­um viðmiðunum við skiman­ir í ljósi bólu­setn­ing­ar og að ómíkron-af­brigðið sé væg­ara en fyrri af­brigði. Ráðherr­ann vill að Covid verði nú skil­greint með sama hætti og al­var­leg flensa en ekki hættu­leg­ur far­ald­ur. Heil­brigðis­kerfið tak­ist á við verk­efnið út frá þeim for­send­um.

Sama dag og Tóm­as taldi ástæðu til að skamma ráðherra fyr­ir að spyrja spurn­inga skrif­ar Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala, pist­il á fés­bók­arsíðu sína um hert­ar sótt­varnaaðgerðir: „Þær tak­mark­an­ir sem lagðar eru á munu ólík­lega skila til­ætluðum ár­angri, enda er far­ald­ur­inn mest­ur meðal barna, ung­linga og ungra full­orðinna í mennta­skóla og há­skóla. Og lík­lega mun út­breidd­ari en við höld­um.“

Ragn­ar Freyr bend­ir á að með ómíkron-af­brigðinu hafi allt gjör­breyst og Covid sé gjör­ólík­ur „sjúk­dóm­ur þeim sem við þekkt­um bara fyr­ir nokkr­um vik­um“. Mun fleiri smit­ast, en mun færri leggj­ast inn á sjúkra­hús og sára­fá­ir enda á gjör­gæslu. Inn­lagn­artíðni vegna ómíkron á Íslandi sé lægri en í Dan­mörku og marg­falt lægri en af delta-af­brigði veirunn­ar. „Og þetta er ekki bara til­finn­ing, þetta er stutt af rann­sókn­um,“ skrif­ar Ragn­ar Freyr. Er nema von að Ragn­ar Freyr spyrji: „Ættu viðbrögð okk­ar að breyt­ast?“ Kannski finnst ein­hverj­um slík spurn­ing óviðeig­andi og ótíma­bær!

Í ljósi breyttra aðstæðna eru mörg lönd far­in að huga að breytt­um viðbrögðum og regl­um; end­ur­skoða vinnu­brögð um skiman­ir, sótt­kví, ein­angr­un, al­menn­ar tak­mark­an­ir, per­sónu­leg­ar sótt­varn­ir og skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu. Ragn­ar Freyr tel­ur tíma­bært að við Íslend­ing­ar ger­um það sama. Að „þessu sinni erum við á leið út af spor­inu“ en mik­il­vægt sé „að við kom­um okk­ur á rétta braut fyrr en seinna“.

Áminn­ing um borg­ara­leg rétt­indi

Í mörgu hef­ur okk­ur Íslend­ing­um tek­ist vel upp í bar­átt­unni við skæða veiru. Þar hef­ur víðtæk bólu­setn­ing þjóðar­inn­ar skipt miklu og traust heil­brigðisþjón­usta sem þrátt fyr­ir gríðarlegt álag hef­ur staðist þunga ágjöf – þökk sé þraut­seigju og hæfi­leika­ríku starfs­fólki. Styrk­leiki heil­brigðis­kerf­is­ins hef­ur komið vel í ljós við erfiðar aðstæður en um leið höf­um við náð að átta okk­ur bet­ur á ýms­um veik­leik­um. Skipu­lag Land­spít­al­ans er veik­b­urða og þar eru brota­lam­ir, fjár­mögn­un­ar­lík­an spít­al­ans er úr sér gengið en unnið er að því að inn­leiða að fullu DRG-kerfi, sem á að gjör­breyta stöðunni. Hlut­verk spít­al­ans hef­ur verið illa skil­greint og hann tekið að sér alltof mörg verk­efni sem aðrir geta sinnt með skil­virk­ari og betri hætti. Það hef­ur illa tek­ist að samþætta starf­semi allra aðila á sviði heil­brigðisþjón­ustu – sjálf­stætt starf­andi og op­in­berra. Verst er þó hve nei­kvætt and­rúms­loft hef­ur oft fengið að mynd­ast í kring­um starf­semi Land­spít­al­ans og það hef­ur orðið til þess að það mikla og góða starf sem þar er unnið á hverj­um degi vek­ur litla eða enga at­hygli.

Það er mik­il­vægt að áhrifa­mikl­ir og reynd­ir lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar og annað heil­brigðis­starfs­fólk taki þátt í op­in­berri umræðu um skipu­lag heil­brigðis­kerf­is­ins og þá ekki síður um það hvernig best sé að standa að rekstri mik­il­væg­ustu stofn­un­ar okk­ar – Land­spít­al­ans. Al­veg með sama hætti og mik­il­vægt er að til verði hrein­skipt­in, gagn­rýn­in og opin umræða um aðgerðir stjórn­valda í sótt­varnaaðgerðum. Þegar stjórn­völd telja nauðsyn­legt að skerða borg­ara­leg rétt­indi er það skylda allra að spyrja spurn­inga – spyrna við fót­um. Sú skylda hvíl­ir þyngra á stjórn­mála­mönn­um en öðrum, en und­an henni geta hvorki fjöl­miðlar né lækn­ar vikið sér.

Eitt er víst. Umræða skil­ar engu ef spurn­ing­ar eru ekki leyfðar en skæt­ing­ur og hræðslu­áróður eru vopn þeirra sem af ein­hverj­um ástæðum vilja ekki að al­menn­ing­ur sé minnt­ur á nauðsyn þess að end­ur­heimta borg­ara­leg rétt­indi. Slík áminn­ing verður aldrei illa ígrunduð eða ótíma­bær.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2022.