Málefni sjúklinga með endómetríósu tekin til tímabærrar skoðunar

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Heilbrigðisráðherra hefur svarað fyrirspurn minni á Alþingi um meðhöndlun endómetríósu (legslímuflakks). Líkt og ég hef áður fjallað um á þessum vettvangi, getur sjúkdómurinn valdið sárum verkjum og ófrjósemi, en talið er að hann hrjái allt að 10% kvenna og að meðalgreiningartími hans sé allt að 7-9 ár.

Í svari heilbrigðisráðherra kemur fram að meðalbiðtími sjúklinga sem þjást af endómetríósu eftir fyrsta viðtali við lækni á Kvenlækningadeild eru sex mánuðir, en 49 sjúklingar eru nú á bið eftir fyrsta viðtali og 92 eftir framhaldsviðtali eða eftirliti hjá læknum. Biðtími til að komast að í verkjateymi Landspítala er sömuleiðis sex mánuðir ef beiðni kemur að utan. Biðtími vegna beiðna innan spítalans vegna erfiðra vandamála er sagður vera yfirleitt innan við mánuður.

Í svarinu kemur jafnframt fram að heilbrigðisráðherra vinni nú að styttingu biðtíma innan alls heilbrigðiskerfisins og að hann hafi nú kallað eftir upplýsingum frá Landspítala um hvort og þá hvernig megi stytta greiningartíma endómetríósu. Það er í samræmi við nýjan stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem leggur áherslu á heilbrigðisþjónustu út frá þörfum sjúklinga. Í svarinu kemur einnig fram að það sé til sérstakrar skoðunar innan heilbrigðisráðuneytisins hvernig hægt sé að efla þjónustu við sjúklinga sem glíma við endómetríósu.

Það er mikið réttindamál fyrir svo stóran hóp sjúklinga að fá rétta greiningu og meðhöndlun við sjúkdómnum eins snemma og hægt er. Það er ekki boðlegt að fjöldi sjúklinga bíði árum saman eftir réttri greiningu og þá eftir viðtali og réttri meðhöndlun mánuðum saman.

Af svari heilbrigðisráðherra má ráða að málefni sjúklinga með endómetríósa hafi nú verið tekin til tímabærrar skoðunar og að umbóta sé að vænta. Það er fagnaðarefni fyrir sjúklinga sem hafa liðið bæði líkamlegar og andlegar kvalir af völdum sjúkdómsins.

Greinin birtist á visir.is 18. janúar 2022.