Heilbrigð umræða í heimsfaraldri

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vís­inda-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra:

Öll ríki eru statt og stöðugt að end­ur­meta hvernig best sé að tak­ast á við þann far­ald­ur sem hef­ur sett líf okk­ar allra á ann­an end­ann í tæp tvö ár. Við upp­haf far­ald­urs­ins var óljóst hvernig hægt yrði að eiga við þenn­an vá­gest, hvaða af­leiðing­ar veik­indi hefðu og þannig mætti áfram telja. Við þekkj­um vel þá þróun sem síðan hef­ur átt sér stað en þar ber hæst að lang­stærst­ur hluti þjóðar­inn­ar er nú bólu­sett­ur, sem minnk­ar veru­lega lík­ur á al­var­leg­um veik­ind­um. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði stönd­um við vel sam­kvæmt ýms­um mæli­kvörðum, hvort sem litið er til fjölda and­láta, bólu­setn­ing­ar­hlut­falls eða stuðnings vegna tak­mark­ana og þannig mætti áfram telja.

Þá er óum­deilt að breyt­ing­ar hafa orðið. Á sama tíma og við sjá­um tölu­verðan fjölda smit­ast af Covid-19 er hlut­fallsega minna um spít­alainn­lagn­ir og þeir sem lenda á sjúkra­húsi þurfa styttri dvöl. Fjöldi fólks á spít­ala hef­ur verið einn helsti mæli­kv­arðinn sem lagður er til grund­vall­ar íþyngj­andi sótt­varn­aráðstöf­un­um. Lækna- og lyfja­vís­indi þró­ast áfram með já­kvæðum hætti og breyt­ir það því hvernig við tök­umst á við far­ald­ur­inn. Það er breyt­ing til batnaðar og gef­ur til­efni til að meta upp á nýtt hvort og hvernig við bregðumst við töl­um um fjölda smita.

Það eru þó ýmis úr­lausn­ar­efni sem standa eft­ir og það eru, því miður, ýmis atriði sem valdið hafa ákveðinni gjá milli ein­stakra hópa í sam­fé­lag­inu. Stjórn­völd hafa gripið til aðgerða sem skerða frelsi fólks með marg­vís­leg­um hætti og hafa valdið ákveðnum starfs­grein­um skaða og við eig­um eft­ir að sjá hvaða efna­hags­legu, fé­lags­legu og sál­rænu áhrif aðgerðir okk­ar eiga eft­ir að hafa til lengri tíma. Allt skipt­ir þetta máli og til þess að sam­fé­lag okk­ar megi virka sem best þurfa all­ir þess­ir þætt­ir að vera í lagi.

Far­ald­ur­inn hef­ur skapað álag á heil­brigðis­kerfið og það er úr­lausn­ar­efni okk­ar til lengri tíma að tryggja að rekst­ur heil­brigðis­kerf­is­ins, þar með talið Land­spít­al­ans, verði þannig úr garði gerður að það ráði við verk­efni sem þessi. Öllum má vera ljóst að við get­um ekki sett allt sam­fé­lagið í helj­ar­greip­ar aft­ur og aft­ur af því að spít­al­inn ræður ekki við það að fá til sín fólk sem þarf á þjón­ustu hans að halda. Um það erum við flest sam­mála.

Það skipt­ir einnig máli að áfram fari fram skoðana­skipti vegna þeirra aðgerða sem ráðist er í, hvort þær séu yf­ir­höfuð rétt­læt­an­leg­ar, með hvaða hætti þær eru út­færðar og svo fram­veg­is. Eft­ir því sem á líður verður ljós­ara hversu mik­il­vægt það er að horfa til fleiri þátta en sótt­varna og fjölda þeirra sem smit­ast, s.s. efna­hags­legra og fé­lags­legra þátta. Það er því eðli­legt að spyrja spurn­inga og velta upp nýj­um hug­mynd­um. Far­ald­ur­inn hef­ur kostað okk­ur mikið, en hann má ekki kosta okk­ur heil­brigða og mál­efna­lega umræðu. Það mun þegar horft er til lengri tíma hafa verri af­leiðing­arn­ar en far­ald­ur­inn sjálf­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2021.