Verðbólgudraugar Verbúðar

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Það er ansi magnað að rifja upp tíðaranda níunda áratugarins í hinni fantafínu þáttaröð Verbúð. Þó ekki sé lengra síðan en raun ber vitni er á köflum eins og um allt annan heim sé að ræða. Þó að þar séu auðvitað tekin skáldaleyfi eins og gengur eru þar meginstef sem gott er að minna sig á. Það sem einkennir ekki hvað síst þennan tíma er ákveðið stjórnleysi, og þá hvort sem litið er til einkalífs fólks og í stjórnkerfinu sjálfu. Þar langar mig sérstaklega að gera að umfjöllunarefni stjórnleysi vinnumarkaðarins.

 

Undanfarna áratugi höfum við smám saman byggt upp betri umgjörð kerfa bæði í hagstjórn og opinberum fjármálum til að forða eins og frekast er unnt víxlverkun launa og verðlags og sífelldum dansi verkfalla og verðbólgu. Þótt samfélagið sem við búum við í dag sé gjörólíkt og á nær öllum mælikvörðum það besta sem þekkist þá er skylda okkar að berja sífellt í bresti til að gera enn betur. Þótt við þurfum ólíklega að óttast viðlíka sveiflur eins og við þekkjum frá þessum óróatímum þá eru enn til staðar kerfisleg atriði sem bjóða upp á óþarflega mikla áhættu gagnvart nauðsynlegu samspili launahækkana og raunverulegum ábáta fyrir fólkið í landinu.

 

Laun á Íslandi eru há. Ef litið er til heildarlauna á vinnustund á hvern starfsmann, þar með talið yfirvinnugreiðslur og aðrar greiðslur, leiðrétt fyrir háu verðlagi á Íslandi, skerum við okkur úr og erum hæst meðal Norðurlanda.

 

Á Norðurlöndunum ríkir þó meiri stöðugleiki og verðbólga og vextir eru lægri en hér á landi. Í því samhengi er vert að hafa í huga að vaxtahækkanir Seðlabankans eru ekki hvað síst vegna launahækkana sem eru umfram getu hagkerfisins til að standa undir þeim. Ef skoðaður er samanburður við hin Norðurlöndin segja þessar tölur ekki allt heldur er einnig gagnlegt og nauðsynlegt að rýna í kerfin sem halda utan um þær.  

Norræna vinnumarkaðsmódelið ákjósanlegt 

Á níunda og tíunda áratugnum gerðu Norðurlöndin afgerandi breytingar á vinnumarkaðsumgjörðinni. Þar skipti mestu að efnahagslífið fékk aukinn stöðugleika með umgjörð kjarasamninga sem í stuttu máli felst í að línan er dregin hjá samningsaðilum útflutningsgreina sem aðrir samningsaðilar fylgja og það ferli er almennt unnið í sæmilegri sátt og tekur yfirleitt örfáar vikur.

 

Á svipuðum tíma var hér unnið eitt mesta efnahagsafrek íslenskrar sögu með gerð þjóðarsáttarinnar árið 1990. Þeir sögulegu kjarasamningar bundu loks endi á tímabil víxlverkunar launa og verðlags með mikilli verðbólgu og óstöðugleika. Með þjóðarsáttinni var mörkuð ný nálgun við gerð kjarasamninga sem stuðlaði að gerð heildarsamninga með lengri samningstíma sem stuðlaði að öryggi fyrir fólk og fyrirtæki. Það fyrirkomulag hélst að mestu í meira en tvo áratugi. En nú ber á brestum og velta má upp hvort að stjórnvöld og vinnumarkaðsaðilar hafi misst af tækifæri til að tryggja kjarnann í sáttinni fastan í sessi.  

 

Nú á tímum er hér, þveröfugt við Norðurlöndin, um að ræða fjölda samningsaðila á almennum og opinberum vinnumarkaði þar sem oft er mjög langt á milli aðila vinnumarkaðarins um hversu langt er hægt að ganga í launahækkunum, umfram getu og umfram það sem kveðið er á um í hinum stefnumarkandi samningum þeirra. Þar er ekki hvað síst áhyggjuefni að hinn opinberi vinnumarkaður gengur þar hvað lengst.

 

Mikilvægar áherslur stjórnarsáttmála á gott vinnumarkaðsumhverfi

Á Norðurlöndunum hefur ríkissáttasemjari einnig gagnleg úrræði til að fresta úrræðum og tryggja að áætlaðri launastefnu sé fylgt. Það er því fagnaðarefni að í nýlegum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um að til að stuðla að bættum vinnubrögðum og skilvirkni við gerð kjarasamninga þurfi að styrkja hlutverk ríkissáttasemjara, fækka ágreiningsmálum og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi með til að mynda standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.

 

Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að leggja sitt af mörkum fyrir umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu og stöðugleika. Það er óskandi að hægt sé að ná góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að nauðsynlegu samspili þessara þátta. Óskipulag á vinnumarkaði stuðlar nefnilega að stjórnleysi sem við viljum væntanlega kveðja jafn afgerandi og allar þessar innireykingar sem við erum nú minnt á frá tímum verbúðanna. 

 

Vísir, 12. janúar 2022.