Salan á Íslandsbanka viðskipti ársins 2021

„Í upphafi síðasta kjörtímabils sögðumst við ætla að draga úr áhættu skattgreiðenda í bankarekstri. Í sumar stigum við skrefið. Ríkissjóður fékk gott verð, þátttaka almennings var mikil og umhverfið færðist nær því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra en hann tók í gærkvöldi við verðlaunum fyrir „viðskipti ársins“ fyrir sölu á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem Innherji veitti við hátíðlega athöfn á Hilton Nordica – sjá nánar hér.

Bjarni tók við verðlaununum ásamt Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka og Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Bankasýslu ríkisins. Salan skilaði ríkissjóði yfir 55 milljörðum króna.

„Með skráningu og sölu tókst að tryggja ríkissjóði gott verð, tryggja dreifða eignaraðild og aðkomu almennings á sama tíma og verðmæti eftirstandandi hlutar ríkisins jókst umtalsvert,“ segir Bjarni og einnig: „Með áframhaldandi sölu á kjörtímabilinu færum við peninga úr áhætturekstri yfir í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda um leið og við færum íslenskt bankaumhverfi nær því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.“

Hann segir að þótt ríkið hafi mikilvægu hlutverki að gegna á mörgum sviðum fari mun betur á því að stjórnvöld setji leikreglurnar, en veiti fólki frelsi til að taka ákvarðanir um rekstur, áhættu og ráðstöfun eigna. Ríki þurfi ekki að eiga allt og reka allt.

65% eignarhlutur jafn mikils virði og allur bankinn í upphafi árs

„Ég lagði mikla áherslu á að fá þetta í gegn og þegar við loksins tókum ákvörðun um að láta til skara skríða var tímaramminn þröngur. Það er langt því frá sjálfsagt mál að svona vel takist til,“ sagði Bjarni í samtali við visir.is. Þar segir hann einnig að ríkið standi nú eftir með eignarhlut sem sé jafnmikils virði og allur eignarhluturinn hafi verið í upphafi ársins, en þegar útboðið fór fram var Íslandsbanki í heild sinni verðmetinn á 157 milljarða en jákvæð þróun á gengi hlutabréfa bankans þýði að þau 65% sem ríkið eigi nú eftir í bankanum séu metin í dag á 157 milljarða króna.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2022 er ráðgert að selja eftirstandandi eignarhlut ríkisins í bankanum á næstu tveimur árum.

Stærsta nýskráning sögunnar í Kauphöll Íslands

Í rökstuðningi dómnefndar Innherja er nefnt að hér væri um að ræða stærstu nýskráningu sögunnar í Kauphöll Íslands og að hlutafjárútboðið hafi skilað mestri þátttöku almennings í útboði hér á landi frá efnahagshruninu 2008. Útboðið hefði jafnframt laðað að erlenda fjárfestingu í áður óþekktum mæli. Nefndarmenn í dómnefnd Innherja nefndu auk þess m.a. að útboðið hafi verið stórt skref í þá átt að endurreisa traust almennings á hlutabréfamörkuðum eftir efnahagshrunið.