Óli Björn Kárason alþingismaður:
Fyrir okkur sem höfum barist fyrir auknu frelsi launafólks til að ávaxta lífeyrissparnað sinn er ástæða til að fagna. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna eru gefin fyrirheit um aukið frelsi: „Við ætlum að renna styrkari stoðum undir lífeyriskerfið og stuðla að aukinni hagkvæmni og fjölbreyttari ávöxtunarmöguleikum. Útfærðar verða leiðir til að auka frelsi fólks til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði.“
Aukið frelsi til að ráðstafa séreignarsparnaði er mikilvægt skref í að ýta undir samkeppni milli lífeyrissjóða en um leið auka áhuga og vitund almennings um mikilvægi fjárhagslegs sjálfstæðis. Í framhaldinu er rétt að huga að því að veita launafólki fullt frelsi til að velja sér lífeyrissjóð vegna samtryggingarhluta iðgjalda, óháð kjarasamningum og stéttarfélögum. Slík breyting er í takt við vilja landsmanna samkvæmt könnun sem Fréttablaðið greindi frá í mars 2017 en um 97% vilja fullt frelsi til að velja lífeyrissjóð.
Fátt mun veita lífeyrissjóðunum meira aðhald en aukin samkeppni um iðgjöld launafólks. Og það mun leiða til aukinnar hagkvæmni lífeyrissjóðakerfisins.
Fjöregg þjóðar
Allar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu verða að vera vel ígrundaðar. Lífeyrissjóðirnir eru þrátt fyrir allt fjöregg okkar. Fáum þjóðum hefur tekist með sama hætti og okkur Íslendingum að byggja upp lífeyriskerfi sem launafólk hefur getað treyst á. Styrkleiki kerfisins er einn sterkasti hornsteinn efnahagslegrar velferðar þjóðarinnar.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar gera sér grein fyrir þessu og því verður sérstök grænbók um lífeyrismál „unnin í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóði á fyrri hluta kjörtímabilsins í því skyni að skapa grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanir um lífeyriskerfið og framtíðarþróun þess með heildstæðum hætti“. Í stjórnarsáttmálanum segir að meðal annars verði horft til „einföldunar kerfisins og fjallað um grundvallarforsendur varðandi hlutverk, uppbyggingu, sjálfbærni og umfang sjóðanna í efnahagslífinu, uppbyggingu réttinda og samspil milli ólíkra stoða lífeyriskerfisins, nauðsynlega hækkun lífeyrisaldurs og sveigjanleika til töku lífeyris í samhengi við hækkandi lífaldur, tryggingafræðilegar forsendur, fjárfestingarheimildir, starfsumhverfi og eftirlit“.
Kaldur hrollur
Í sinni einföldustu mynd byggist sparnaður launafólks á tveimur stoðum; verðmæti eigin íbúðarhúsnæðis og lífeyrissparnaði.
Ég hef alltaf talið það eina af frumskyldum stjórnmála að byggja undir fjárhagslegt sjálfstæði fólks. Þessi frumskylda hvílir þyngst á herðum okkar hægrimanna enda sýna vinstrimenn oft lítinn skilning á mikilvægi þess að auka möguleika fólks til eignamyndunar. Að minnsta kosti hríslast kaldur hrollur niður bak margra vinstrisinnaðra vina minna þegar ég ræði um drauminn um að gera alla Íslendinga að kapítalistum – að eignafólki sem á ekki aðeins eigið húsnæði og góð lífeyrisréttindi heldur eru virkir þátttakendur í atvinnulífinu.
Ég hef lengi barist fyrir því að auðvelda launafólki að taka beinan þátt í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. Skilvirkasta leiðin er að heimila einstaklingum að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað. Frumvarp þessa efnis verður lagt fram að nýju á þessu þingi. Nái frumvarpið fram að ganga verður ekki aðeins skotið enn einni stoðinni undir eignamyndun almennings heldur er einnig verið að byggja undir hlutabréfamarkaðinn – gera hann skilvirkari, dýpri og auka aðgengi fyrirtækja að áhættufé. Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa spilar vel saman við hugmyndir um að auka frelsi launafólks til að ráðstafa séreignarsparnaði sínum.
Þannig færumst við nær því að draumurinn um fjárhagslegt sjálfstæði launafólks rætist. Hagsmunir almennings og atvinnulífsins verða betur samtvinnaðir. Á því getur enginn tapað.
Samstarfsverkefni
Ég hef áður gert það að umtalsefni að lífeyrissjóðirnir á almennum vinnumarkaði séu samstarfsverkefni launafólks og atvinnurekenda, sem hafa tekið höndum saman til að tryggja launafólki lífeyri eftir að góðri starfsævi lýkur en um leið veita sameiginlega tryggingavernd vegna örorku eða veikinda.
Ábyrgð þeirra sem hafa tekið að sér stjórn lífeyrissjóða er því ekki lítil. Launafólk gerir þá skýru kröfu til stjórna og starfsmanna sjóðanna að láta aðeins hagsmuni sjóðfélaga ráða för. Sjóðfélagar geta aldrei sætt sig við að fjármunir þeirra séu nýttir í valdabaráttu eða til að vinna að framgangi sjónarmiða eða vinna gegn ákveðnum fyrirtækjum, sem hafa ekkert með hagsmuni þeirra að gera. Hafi forystumenn verkalýðsfélaga eða atvinnurekenda ekki andlegan styrk til að virða sjálfstæði stjórna sjóðanna grafa þeir undan lífskjörum launafólks.
Stærsta áskorun lífeyrissjóða á hverjum tíma er að ávaxta fjármuni launafólks og oft hafa möguleikarnir ekki verið margir. Þar skipta áhættudreifing og fjölbreytilegir fjárfestingarkostir mestu.
Það er rétt sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt að vísbendingar séu um að lífeyrissjóðirnir þurfi meira svigrúm til fjárfestinga erlendis. Raunar má leiða rök að því að skynsamlegt sé að aflétta öllum hömlum á fjárfestingum í öðrum löndum og jafnvel setja lágmarkskröfu um hlutfall erlendra eigna. Þannig verður fjöreggjunum dreift í fleiri en eina körfu.
Í stjórnarsáttmálanum kemur skýrt fram að ríkisstjórnin áttar sig á mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir eigi fjölbreytta möguleika til að ávaxta fjármuni: „Stuðlað verður að því að fjölga ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna og möguleikum til aukinnar þátttöku í innviðafjárfestingum og grænum fjárfestingum.“
Ríkisstjórnin ætlar með öðrum orðum að taka höndum saman við lífeyrissjóðina við uppbyggingu mikilvægra innviða. Með því vinnst tvennt. Annars vegar fá lífeyrissjóðirnir nýja fjárfestingarmöguleika sem sjóðfélagar njóta í formi góðrar ávöxtunar og hins vegar njóta allir landsmenn uppbyggingar sterkari innviða, jafnt hagrænna og félagslegra.
Takist ríkisstjórninni ætlunarverk sitt í lífeyrismálum með auknu frelsi, fjölbreyttari ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna og öflugri uppbyggingu innviða getur margt annað setið á hakanum.
Morgunblaðið, 8. desember, 2021.