Börn eru að meðal­tali 29 mánaða þegar þau hefja dvöl á leik­skólum Reykja­víkur

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Allt kjörtímabilið höfum við Sjálfstæðismenn verið að reyna að fá svar við spurningunni, hver sé meðalaldur barna við inngöngu í leikskóla Reykjavíkur. Fyrst þegar spurt var þá þótti of kostnaðarsamt að svara okkur, þar sem þessi gögn voru ekki til í gagnagrunnum Reykjavíkurborgar. Á þessum 3 árum sem spurningunni hefur ekki verið svarað hafa gríðarlega margir sett sig í samband við mig og lýst því hversu lengi þeir þurfa að bíða eftir plássi í leikskólum Reykjavíkur, margir hafa gefist upp og flutt í nágranna sveitarfélög þar sem börn þeirra komast fyrr að á leikskólum.

Nú er svarið komið og það slær mann illa, í svarinu segir „Samkvæmt gögnum sem tekin voru saman 25. október 2021 var meðalaldur barna við inntöku 29 mánaða.“ Á kjörtímabilinu hefur meirihlutanum því tekist að hækka meðalaldur leikskólabarna þegar þau hefja dvöl úr 26 mánuðum líkt og hann var árið 2018 í 29 mánuði árið 2021. Þetta er dapurleg staðreynd, nú er klukkan korter í kosningar og ég reikna ekki með neinu öðru en að við förum að sjá endurunninn loforð frá meirihlutaflokkunum um betri þjónustu við barnafjölskyldur þar sem börn komist fyrr að á leikskólum. Loforð sem ekki hefur tekist að uppfylla síðustu kjörtímabil þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Börn eiga ekki heima á biðlistum og sú grunnþjónusta sem sveitarfélögum ber skilda til að reka þarf að vera skammlaus. Það er ljóst að meirihlutanum í Reykjavík hefur ekki tekist það verkefni líkt og flokkar innan hans hafa ítrekað lofað kosningar eftir kosningar. Yngri börn eru ekki að komist að á leikskólum Reykjavíkur, heldur bíða þau á biðlistum þangað til þau nálgast þriggja ára aldur.

Greinin birtist á visir.is 1. desember. 2021.