Snjallara heilbrigði

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Það er áhugavert að sex af tíu síðustu fyrirtækjum sem hlotið hafa Nýsköpunarverðlaun Íslands hafa beina tengingu við sjávarútveg. Sú staðreynd endurspeglar umfang og mikilvægi sjávarútvegs í íslensku efnahagslífi, og þörf greinarinnar til að hámarka afraksturinn af takmörkuðum gæðum og nota hugverkin til að ná fram þeirri verðmætasköpun. Fyrirtækin sex eiga þannig sinn þátt í að auka verðmæti sjávaraflans, en nýting á afla af Íslandsmiðum er ein sú besta sem þekkist í heiminum.

Vaxandi sess íslenskrar heilbrigðistækni

Eitt fyrirtækjanna sex, Kerecis, hefur einnig beina tengingu við heilbrigðisgeirann, með byltingarkenndum lækningavörum sínum sem unnar eru úr sjávarafurðum. Og Nýsköpunarverðlaunin 2020 fóru sömuleiðis til íslensks hugvits sem nýtist mjög í heilbrigðisgeiranum, þegar fyrirtækið Controllant hlaut þau fyrir lausnir sínar sem stuðla að öruggum flutningi lyfja, en mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims eru á meðal viðskiptavina fyrirtækisins. Vöxtur þeirra hefur verið gríðarlegur og mun að öllum líkindum halda áfram.

Fleiri íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir heilbrigðistækni. Ekki þarf að fara mörgum orðum um magnaðan árangur Össurar í þróun stoðtækja; lausnir NoxMedical í þágu svefnrannsókna eru á heimsmælikvarða; og lausnir Sidekick Health, sem er í mikilli útrás,gera samskipti heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinga mun skilvirkari og einfaldari, svo að aðeins þrjú dæmi séu nefnd.

Þetta er ánægjuleg þróun sem vonandi heldur áfram. Í því samhengi má líka nefna að sigurverkefnið í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands síðastliðið sumar snerist um nýtt lyfjaform fyrir malaríu sem ekki þarf að gefa á sjúkrahúsum. Þá var Nýsköpunarþingið 2018 tileinkað heilbrigðistækni. Enginn vafi er því á því að heilbrigðistækni skipar vaxandi sess í íslensku nýsköpunarumhverfi.

Snjöll heilbrigðisþjónusta

Við erum öll sammála um mikilvægi þess að halda uppi heimsklassa velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn. Á sama tíma fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi og því verða að óbreyttu sífellt færri vinnandi hendur á bak við þann samfélagslega kostnað sem fylgir öflugu velferðarkerfi.

Í stað þess að einblína á sífellda stækkun slíks kerfis, sem leiðir af sér aukna skattbyrði, er bráðnauðsynlegt að nýta í auknum mæli möguleika nýsköpunar og snjallra tæknilausna í þágu heilbrigðis og velferðar, fyrir okkur öll. Þetta er í mínum huga algjört grundvallaratriði. Við höfum ýmis tækifæri á þessu sviði til að veita betri þjónustu með lægri tilkostnaði og létta undir með starfsfólki.

Við þurfum að nýta okkur styrkleikana sem felast í því að vera lítil og landfræðilega afmörkuð þjóð, óvenjulega tæknivædd og með sterka gagnagrunna á sviði heilbrigðismála. Og við þurfum samhentar aðgerðir til að mæta þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænu byltingunni sem nú stendur yfir.

Við þurfum öflugt og gott samstarf, ekki aðeins meðal vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks, heldur einnig og ekki síður meðal sérfræðinga á sviði hugbúnaðar, verkfræði, lífupplýsingafræði, líftækni, viðskiptafræði, lögfræði og þannig mætti áfram telja.

Við þurfum einnig að byggja upp samvinnu milli hins opinbera og atvinnulífsins um öflugan stuðning við nýsköpun í þágu heilbrigðistækni og betra samfélags. Það er þekkt að þróun nýrrar tækni eða þjónustu á þessu sviði kallar oft á langvinnar rannsóknir og klínískar prófanir áður en tækni eða þjónusta er sett á markað. Í mörgum tilvikum er því þörf á þolinmóðu fjármagni áhættusækinna fjárfesta.

Fjármögnunarumhverfið fyrir nýsköpun hefur tekið stakkaskiptum hér á landi á undanförnum áratug eða svo, með tilkomu nýrra fagfjárfesta, stórauknum framlögum stjórnvalda í samkeppnissjóði, stórauknum endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði og nú síðast Kríu, öflugum opinberum hvatasjóði fyrir vísifjárfestingar.

Hið opinbera þarf að spila með

Í drögum að stefnu í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða sem unnin var af Halldóri S. Guðmundssyni fyrir heilbrigðisráðuneytið og birt voru í sumar er að finna góða samantekt á mikilvægi nýsköpunar og tækni. Þar er dregið fram hve mikla áherslu hin Norðurlöndin hafa lagt á það sl. 10-15 ár að nýta nýsköpun og tækni til að veita betri heilbrigðisþjónustu, ekki síst eldra fólki. Sem dæmi um lærdóm sem megi draga af þessum nágrannaþjónum okkar er nefnt að kynna þurfi betur fyrir notendum heilbrigðisþjónustunnar þær lausnir sem eru í boði, ekki síst tæknilegar lausnir sem færa þjónustuna nær notendum og auka sjálfstæði og sjálfsbjörg einstaklinga. Staðan í nýsköpunar- og velferðartækni hér á landi er sögð einkennast af því hve dreifð og sundurleit starfsemin er. Þó eru einnig nefnd jákvæð dæmi, svo sem um stefnu Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um velferðartækni, og klasasamstarf heilbrigðis- og velferðarstofnana á Norðurlandi Eystra um „Velferðartæknimiðstöð á Norðurlandi“.

Ef við ætlum að veita heimsklassa heilbrigðisþjónustu þurfum við að vera í fararbroddi í nýsköpun í heilbrigðistækni og í því að nýta þær snjöllu lausnir sem í boði eru. Það er bæði nauðsynlegt sjálfu heilbrigðiskerfinu og notendum þess.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðins 28. nóvember 2021.