Matvöruverslun á reit Bauhaus

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Óskað var eftir því við Reykjavíkurborg að breyta aðalskipulagi á reit Bauhaus þannig að heimilt væri að reisa meðal annars matvöruverslun á lóð Bauhaus. Þeir aðilar sem sendu inn þessa ósk til Reykjavíkurborgar sáu tækifæri í því að reisa á reitnum stóra matvöruverslun ásamt öðrum verslunum enda kjörið að samnýta bílastæði sem fyrir eru á lóðinni og auka þjónustu við íbúana ekki bara í hverfinu heldur í allri austurborginni. Svæðið er skilgreint sem þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir rýmisfrekri verslun, heildsölu, þjónustu og léttum iðnaði. Ekki er heimilt að byggja upp matvöruverslun á svæðinu vegna stefnu Reykjavíkurborgar um verslun innan hverfa sem kallast „kaupmaðurinn á horninu“.

Vilja ekki leyfa uppbyggingu matvöruverslunar á reitnum

Þessari ósk var hafnað og ekkert verður því af uppbyggingu á lóð Bauhaus. Það er ótrúleg skammsýni að leyfa ekki uppbyggingu matvöruverslunar á reitnum. Vissulega eiga að vera tækifæri inni í hverfum til að geta rekið þar verslanir og þjónustu það má þó ekki hindra að hægt sé að byggja upp á öðrum stöðum stærri verslanir.  Ég furða mig á því hvers vegna þessi breyting hefur ekki verið gerð.  Ef aðalskipulaginu væri breytt með þessum hætti þá væri þjónustan aukin því eftir að breytingar voru gerðar á Korputorgi og verslun Bónus lokaði þar fækkaði valkostum.

Miklar breytingar fram undan

Hverfið mun taka gríðarlegum breytingum á komandi árum, sjálf þá vil ég auka framboð lóða í Reykjavík og gera það með uppbyggingu t,d í Úlfarsárdal. Ég myndi vilja sjá allar tegundir lóða fyrir sérbýli jafnt sem fjölbýlishúsalóðir skipulagðar og til sölu. Eftir því sem uppbygging á svæðinu verður meiri er meiri þörf fyrir verslun og þjónustu á svæðinu og ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja þessa breytingu og vera með alla þjónustu til staðar þegar íbúum fjölgar, fyrir utan að veita þeim sem nú búa í hverfinu aðgang að góðri þjónustu. Hverfið var hannað með sjálfbærni í huga, blöndu af íbúðar- og atvinnuhúsnæði þannig að möguleiki myndaðist á að sækja vinnu í hverfinu og þjónusta yrði með þeim hætti að sem minnst þurfi að sækja hana út fyrir hverfið. Með þeirri ákvörðun að hafna þessari ósk eru enn og aftur hagsmunir borgarbúa ekki hafðir að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunartöku hjá Reykjavíkurborg.

Greinin birtist í Grafarholtsblaðinu í nóvember 2021.