Pant ekki borgarlínu

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Ég hef haft efa­semd­ir um gagn­semi hinn­ar svo­kölluðu borg­ar­línu. Held að sú línu­lega of­ur­lausn eins og hún er kynnt, sé alls ekki það sem nú­tím­inn er að kalla eft­ir í sam­göng­um, hvað þá framtíðin. Ég ætla ekki að fjalla um fyr­ir­ferðina sem ráðgert er að borg­ar­lín­an eigi eft­ir að hafa í um­ferðinni, né fram­kvæmda­kostnaðinn sem á eft­ir að hlaupa yfir hundrað millj­arða og held­ur ekki rekstr­ar­kostnaðinn sem eng­inn hef­ur út­skýrt hver eða hvernig eigi að borga.

Aðrar hug­mynd­ir má ekki ræða

Ég er hins veg­ar hugsi yfir hvers vegna ekki megi ræða, hvað þá skoða aðrar lausn­ir í al­menn­ings­sam­göng­um. Hóp­ur reyndra fag- og fræðimanna í sam­göng­um hafa reynt að kynna hug­mynd­ir sín­ar um létt­ara, hag­kvæm­ara og skil­virk­ara sam­göngu­kerfi, en fengið lít­inn hljóm­grunn. Önnur hugs­an­leg lausn sem gæti verið viðbót við slak­ar al­menn­ings­sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu eru hug­mynd­ir Pant, sem er sér­sniðin akst­ursþjón­usta fyr­ir fé­lagsþjón­ust­ur á höfuðborg­ar­svæðinu. Þjón­usta sem hef­ur sannað gildi sitt og er rek­in af Strætó. Þar skipt­ir sveigj­an­leiki, hag­kvæmni og skil­virkni mestu.

Útví­kk­un á reyndri þjón­ustu

For­svars­menn Pant hafa kynnt hug­mynd­ir um út­víkk­un á sinni þjón­ustu, en þær sömu­leiðis hafa ekki fengið at­hygli hjá sveit­ar­stjórn­ar­fólki á svæðinu. Mér finn­ast þær hins veg­ar áhuga­verðar og skoðun­ar­verðar. Meðal verk­efna sem Pant gæti sinnt um­fram nú­ver­andi þjón­ustu, þ.e. akstri fyr­ir fatlaða og aldraða, væri akst­ur utan álags­tíma, út­hverfa­akst­ur, akst­ur fyr­ir starfs­fólk fyr­ir­tækja og stofn­ana, sjúkra­húsa­akst­ur, akst­ur fyr­ir heimaþjón­ustu og síðan lands­byggðaakst­ur. Pant gæti þannig verið sú viðbót í al­menn­ings­sam­göng­um sem nú­tím­inn og framtíðin kall­ar eft­ir, með smærri bíl­um sem falla bet­ur að nú­ver­andi sam­göngu­innviðum og um leið aukn­um sveigj­an­leika. Pant er auðvelt í notk­un, farþegar panta sér ferðir með ein­föld­um ra­f­ræn­um hætti og Pant sér síðan um að flytja farþega sína frá nán­ast hvaða stað sem er til nán­ast hvaða staðar sem er. Auðvitað þarf að út­færa þessa út­víkk­un á starf­semi Pant, en auðvelt ætti að vera að byggja á þeirri góðu og reyndu þjón­ustu sem fyr­ir­tækið hef­ur veitt fötluðum og öldruðum hingað til. Þess vegna vil ég kalla eft­ir því að sveit­ar­stjórn­ar­fólk á höfuðborg­ar­svæðinu skoði með opn­um huga mögu­leik­ana á út­víkkaðri starf­semi Pant. Ekki síst í því ljósi að núna virðast sveit­ar­fé­lög­in ekki ætla að setja neitt fjár­magn í borg­ar­lín­una í fjár­hags­áætl­un­um sín­um sem verið er að kynna, hvorki í upp­bygg­ingu né rekst­ur á næstu árum.

Fyr­ir­sögn grein­ar­inn­ar er auðvitað bara skemmti­leg­ur orðal­eik­ur, en er ætlað að skýra áhuga minn á að fleiri út­færsl­ur á al­menn­ings­sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu verði skoðaðar, held­ur en bara ein þung­lama­leg of­ur­lausn, sem ég held að leysi eng­in vanda­mál. Bestu sam­göngu­kerf­in byggja á að fólk hafi frelsi til að velja sjálft sinn sam­göngu­máta. Þá þarf að huga að fjöl­breytni og sveigj­an­leika. Skoðum hvort Pant sé hugs­an­lega með lausn­irn­ar. Öll vilj­um við bæta al­menn­ings­sam­göng­ur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2021.