Árleg frelsisverðlaun SUS verða veitt í Valhöll þann 10. nóvember næstkomandi kl. 17:30. Frelsisverðlaunahafar þetta árið eru annars vegar Íslensk erfðagreining og hins vegar Haraldur Þorleifsson.
Allir velkomnir!
Íslensk erfðagreining hlýtur frelsisverðlaunin í flokki lögaðila fyrir framlag sitt í baráttunni við Covid-19. Fyrirtækið greip inn í og hóf skimanir fyrir Covid-19 um land allt á þeim tíma sem fyrstu tilfelli veirunnar voru að greinast hér á landi sem gerði það að verkum að hægt var að skima mjög hátt hlutfall þjóðarinnar á skömmum tíma. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið reglulega hlaupið til og aðstoðað hið opinbera við greiningu smita, s.s. á landamærunum þegar hið opinbera annaði ekki fjölda sýna. Þá hefur fyrirtækið framkvæmt raðgreiningar smita og aðrar yfirgripsmiklar rannsóknir sem hafa reynst ómetanlegar fyrir stjórnvöld til þess að takast á við veiruna. Óeigingjarnt framlag einkaaðila líkt og Íslenskrar erfðagreiningar og nýting þeirrar þekkingar sem þau búa yfir undirstrikar að mati SUS mikilvægi öflugs einstaklingsframtaks innan heilbrigðiskerfisins, ekki síst þegar mest á reynir.
Haraldur Þorleifsson er stjórnandi hjá Twitter og stofnandi Ueno, grafísks hönnunarfyrirtækis, sem hann seldi til Twitter í janúar á þessu ári. Hann hlýtur verðlaunin fyrir einstaka baráttu og frumkvæði að persónufrelsi fatlaðra með verkefninu „Römpum upp Reykjavík“. Haraldur er hvatamaður og helsti styrktaraðili verkefnisins, en tilgangur þess er að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að verslun og þjónustu í Reykjavík með framlögum einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana. Verkefnið hefur gengið vonum framar og þegar skilað sér í eitt hundrað römpum á átta mánuðum sem bæta hjólastólaaðgengi í Reykjavík. Haraldur og aðrir meðlimir verkefnisins hafa nú þegar sett sér það markmið að setja upp 1.000 rampa á Íslandi á næstu fjórum árum. Bætt hjólastólaaðgengi er persónufrelsismál og því fagnar SUS þessu framtaki. Þá hefur Haraldur stuðlað að tjáningarfrelsi og stutt við þau sem vildu opna á umræðu um kynferðisofbeldi og -áreitni en var hótað málsókn eða stefnt.