Grunnskólinn er hornsteinn samkeppnishæfni þjóða

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Við verðum að horf­ast í augu við þá staðreynd að okk­ur Íslend­ing­um hafa verið mislagðar hend­ur í mörgu þegar kem­ur að grunn­mennt­un barn­anna okk­ar. Grunn­skól­inn er sá dýr­asti á Vest­ur­lönd­um en börn­in standa jafn­öldr­um sín­um í ná­granna­lönd­un­um að baki í und­ir­stöðugrein­um. Vís­bend­ing­ar eru um að kuln­un í starfi meðal grunn­skóla­kenn­ara sé að aukast sem bein­ir at­hygl­inni að starfs­um­hverfi, starfs­kjör­um og umb­un kenn­ara.

PISA er alþjóðlegt könn­un­ar­próf á veg­um Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar [OECD] sem mæl­ir lesskiln­ing 15 ára nem­enda og læsi þeirra á stærðfræði og nátt­úru­vís­indi. Síðasta könn­un­in var gerð árið 2018. Niðurstaða bend­ir til að al­var­leg­ar brota­lam­ir sé að finna í ís­lensku mennta­kerfi.

Í skýrslu OECD og Mennta­stofn­un­ar um niður­stöður PISA 2018 er bent á að þró­un­in á Íslandi „ein­kennd­ist al­mennt af nokk­urri aft­ur­för í frammistöðu nem­enda, sér­stak­lega eft­ir PISA 2009“. Í PISA 2009 hafi frammistaða ís­lenskra nem­enda á öll­um mats­sviðum verið um eða yfir meðaltali OECD-landa og áþekk frammistöðu hinna nor­rænu land­anna, að Finn­landi und­an­skildu. Í næstu könn­un árið 2012 stóðu ís­lensk­ir nem­end­ur sig mark­tækt verr á öll­um mats­sviðum.

Ekki eini mæli­kv­arðinn

Alþjóðleg­ur sam­an­b­urður á gæðum mennt­un­ar er vanda­sam­ur en PISA gef­ur okk­ur hins veg­ar vís­bend­ingu um stöðu ís­lenska grunn­skól­ans og hvert stefn­ir. Árið 2018 bjuggu 26% nem­enda ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi. „Hlut­fall drengja sem til­heyra þess­um hópi er nú 34%, sem þýðir að þriðji hver 15 ára karl­kyns nem­andi á Íslandi býr ekki yfir þeirri grunn­hæfni sem OECD tel­ur nauðsyn­lega til þess að þeir geti lesið sér til gagns og fróðleiks og tekið full­an þátt í sam­fé­lag­inu,“ seg­ir í áður­nefndri skýrslu. Árið 2000 var þetta hlut­fall í heild 15%.

Um 21% nem­enda skorti grunn­hæfni í stærðfræði en alda­móta­árið var hlut­fallið 13%. Fjór­ir af hverj­um tíu höfðu ekki öðlast lág­marks­hæfni í nátt­úru­vís­ind­um. Átján árum áður var hlut­fallið 16%.

Í öll­um grein­un­um þrem­ur hef­ur hlut­fall nem­enda sem töld­ust búa yfir af­burðahæfni farið lækk­andi frá alda­mót­um. Í lesskiln­ingi og læsi á nátt­úru­vís­indi var Ísland tölu­vert und­ir meðaltali OECD 2018 og langt und­ir hinum nor­rænu lönd­un­um. Í stærðfræði var staðan lít­il­lega skárri – rétt yfir meðaltali en tölu­vert und­ir frændþjóðunum.

Auðvitað er PISA-könn­un (sem verður næst gerð á kom­andi vori) ekki eini mæli­kv­arðinn á gæði skóla­starfs­ins. Ánægja og vellíðan nem­enda skipt­ir miklu. Að rækta hæfi­leika ung­menna á öðrum sviðum en PISA mæl­ir, er mik­il­vægt; sköp­un og fé­lags­færni ræður miklu um hvernig nem­end­ur eru und­ir það bún­ir að tak­ast á við áskoðanir framtíðar­inn­ar. Eitt­hvað seg­ir mér að þar stönd­um við vel í alþjóðleg­um sam­an­b­urði.

Virkj­um vinda sam­keppn­inn­ar

Gott, öfl­ugt og fjöl­breytt mennta­kerfi er mik­il­væg­ur horn­steinn ís­lensks sam­fé­lags. Mennt­un er spurn­ing um sam­keppn­is­hæfni lands­ins og þar með lífs­kjara, ekki síður en mik­il­virk­asta tæki til jöfnuðar. Grunn­skól­inn er und­ir­staða alls í mennta­mál­um þjóðar­inn­ar. Vís­bend­ing­ar um brota­lam­ir við mennt­un grunn­skóla­barna ber að taka al­var­lega án þess að mála allt svört­um lit­um.

Ég hef lengi verið sann­færður um að umræðan um mennta­kerfið sé á nokkr­um villi­göt­um – hún ein­skorðist of mikið við stytt­ingu náms (grunn­skóla og/​eða fram­halds­skóla) og við sam­ein­ingu há­skóla. Þannig hef­ur at­hygl­in farið frá gæðum og fjöl­breyti­leika þess náms sem ungu fólki stend­ur til boða, í að horfa til þjóðhags­legs sparnaðar við að ung­menni verji færri árum í grunn- og fram­halds­skóla. Af­leiðing­in er sú að við höf­um misst sjón­ar á mark­miðinu; að auka gæði náms­ins, und­ir­búa nem­end­ur sem best und­ir lífið og rækta hæfi­leika hvers og eins. Arðsem­in í að ná mark­miðinu er marg­föld á við reiknaðan þjóðhags­leg­an sparnað af stytt­ingu náms.

Fátt trygg­ir gæði bet­ur en sam­keppni – sam­keppni um nem­end­ur en ekki síður um kenn­ara. Aukið sjálf­stæði hvers grunn­skóla, þar sem skóla­stjórn­end­ur geta umb­unað hæfi­leika­rík­um kenn­ur­um, er ásamt því að fé fylgi nem­anda mik­il­vægt skref í að tryggja að skólastarf fái að þró­ast í takt við kröf­ur framtíðar­inn­ar. Miðstýrt skóla­kerfi býr ekki til jarðveg fyr­ir nauðsyn­lega ný­sköp­un og stend­ur í vegi fyr­ir því að kenn­ar­ar fái að njóta eig­in frum­kvæðis og hæfi­leika.

Okk­ur Íslend­ing­um geng­ur yf­ir­leitt illa að inn­leiða með skipu­leg­um hætti sam­keppni um þjón­ustu sem við stönd­um sam­eig­in­lega und­ir. Marg­ir neita að gera grein­ar­mun á því hver veit­ir þjón­ust­una og hver greiðir fyr­ir hana. Í skrif­um mín­um hér á þess­um síðum hef ég bent á hversu skyn­sam­legt það sé fyr­ir þann sem greiðir (hið op­in­bera) að efna til sam­keppni milli þeirra sem hafa áhuga á að veita þjón­ust­una. Þetta á ekki síst við um heil­brigðisþjón­ustu og rekst­ur mennta­stofn­ana. Að öðru jöfnu leiðir sam­keppn­in til lægra verðs en ávinn­ing­ur­inn er einnig ann­ar og meiri. Fyr­ir þann sem nýt­ir sér þjón­ust­una er fátt betra en að keppt sé um viðskipt­in – að fleiri en einn og fleiri en tveir berj­ist um að fá viðkom­andi í viðskipti. Þjón­ust­an verður betri, gæðin meiri og nær því að upp­fylla þær þarf­ir sem fyr­ir hendi eru. Fyr­ir starfs­fólk er nauðsyn­legt að eiga raun­veru­lega val­kosti á vinnu­markaði – geta valið um vinnu­veit­anda eða starfað sjálf­stætt við það sem mennt­un og hug­ur stend­ur til. Sam­keppni um vinnu­afl leiðir til betri launa og heil­brigðara starfs­um­hverf­is þar sem kunn­átta og færni er met­in að verðleik­um. Um­gjörð kjara­samn­inga má ekki koma í veg fyr­ir fjöl­breyti­lega val­kosti kenn­ara.

Hags­mun­ir sveit­ar­fé­laga, kenn­ara, nem­enda og for­eldra eru sam­tvinnaðir þegar kem­ur að því að hleypa fersk­um vind­um auk­inn­ar sam­keppn­inn­ar inn í grunn­skól­ann. Þannig verður grunn­ur mennta­kerf­is­ins styrkt­ur. Og öfl­ug­asta tæki sam­fé­lags­ins – mennt­un – til að stuðla að jöfnuði verður beitt­ara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. nóvember 2021.