Rétt hugarfar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Allt frá ár­inu 2018 hef­ur verið unnið eft­ir sér­stakri aðgerðaáætl­un í rétt­ar­vörslu­kerf­inu í mál­um er varða kyn­bundið of­beldi. Mikl­um fjár­mun­um hef­ur verið ráðstafað til að bæta málsmeðferð, efla ra­f­rænt gagnaflæði og upp­færa rann­sókn­ar­búnað og verklag hjá lög­reglu. Lög­reglu­mönn­um hef­ur verið fjölgað í kyn­ferðis­brota­deild­um, upp­lýs­inga­gjöf til brotaþola hef­ur verið bætt, per­sónu­legra viðmót hef­ur verið inn­leitt og kær­end­um boðið upp á sál­fræðimeðferð fyr­ir og eft­ir skýrslu­töku. Þá hef­ur þjálf­un lög­reglu­manna verið auk­in, bæði þegar kem­ur að kyn­ferðis- og heim­il­isof­beldi.

Sam­hliða hef­ur verið unnið að end­ur­skoðun laga­ákvæða er varða slík af­brot. Í fe­brú­ar voru t.d samþykkt lög um kyn­ferðis­lega friðhelgi ann­ars veg­ar og um umsát­ur­seinelti hins veg­ar. Þá hafa verið lögð fram frum­vörp sem veita brotaþolum auk­inn aðgang að upp­lýs­ing­um og gögn­um og til að taka harðar á brot­um gegn börn­um. Þau ná von­andi fram að ganga á nýju þingi. Í dóms­málaráðuneyt­inu er einnig verið að vinna að út­færslu hug­mynda um stytt­ingu málsmeðferðar­tíma í saka­mál­um.

Allt er þetta mik­il­vægt og til þess fallið að bæta stöðu þolenda án þess að það komi niður á rétt­ar­stöðu þeirra sem grunaðir eru um of­beldi.

Þð eru því mik­il von­brigði þegar fram koma ásak­an­ir í fjöl­miðlum þess efn­is að þjóðfé­lags­staða þolenda og gerenda hafi áhrif á meðferð kyn­ferðis­brota hjá lög­reglu og dóm­stól­um. Að það skipti máli hvort viðkom­andi sé út­lend­ing­ur eða Íslend­ing­ur; hreim­ur hafi þýðingu við yf­ir­heyrsl­ur; þolend­um með fíkni­efna- eða geðheil­brigðis­sögu sé síður trúað og lang­ur rann­sókn­ar­tími kyn­ferðis­brota leiði stund­um til þess að gerend­ur fái mik­inn af­slátt af refs­ingu vegna þess hve lang­ur tími er liðinn frá broti.

Slík­ar ásak­an­ir frá lög­mönn­um og starfs­fólki miðstöðva fyr­ir þolend­ur kyn­ferðis­brota ber að taka al­var­lega. Ekki dug­ir að hunsa eða hafna þess­ari gagn­rýni án frek­ari umræðu. Ekki næg­ir held­ur að benda á ný laga­ákvæði og þá fjár­muni, sem varið hef­ur verið í mála­flokk­inn til að bæta fræðslu, aðstöðu og verk­ferla, sem rök fyr­ir því að nóg sé að gert. Rétt hug­ar­far verður einnig að vera til staðar.

Ég hef óskað eft­ir því við rík­is­lög­reglu­stjóra að þetta verði tekið til al­var­legr­ar skoðunar inn­an lög­regl­unn­ar. Mik­il­vægt er að bregðast mál­efna­lega við allri gagn­rýni og veita traust­vekj­andi svör við áleitn­um spurn­ing­um. Eru brögð að því að lög­reglu­menn fari í mann­greinarálit við rann­sókn­ir kyn­ferðis­brota? Hvernig verður best tryggt að þolend­um sé ávallt sýnd til­hlýðileg nær­gætni og virðing? Þolend­ur verða að geta treyst lög­regl­unni. Orð og efnd­ir verða að fylgj­ast að í þess­um efn­um rétt eins og öðrum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember 2021.